Friday, October 11, 2013

Júniform







Kjóll - Júniform (ekki til lengur)
Hálsfesti - H&M (ekki til lengur)

Jæja, hér er þá afrakstur myndatöku númer tvö. Það var hörkurok, kalt og skýjað en ég þráaðist við og við drifum okkur af stað. Í garðinum þar sem myndirnar voru teknar var reyndar fínasta skjól svo þetta var enginn hryllingur neitt en sökum þess að það dimmdi afskaplega fljótt eftir að við vorum byrjuð urðu allar myndirnar sem teknar voru af skónum mínum ónýtar. Og þessir líka fallegu skór eiga skilið að fá almennilega myndatöku og því verða þeir fljótlega með aftur þegar birtuskilyrði verða góð. En svona lærir maður nú víst, með því að klúðra smávegis.

Þessi fallegi himinnblái kjóll var keyptur í Júniform á meðan verslunin var enn í miðbænum. Ég man að ég ætlaði bara rétt að kíkja við, einhver spes opnun í gangi og hvítvín og huggó í boði fyrir viðskiptavini - ég slæ sko ekki höndinni á móti hvítvínsglasi og fallegum fötum svo ég kíkti við. Ég varð dolfallin þegar ég sá hann fyrst, svona fallega blár og yndislegur og ég get svo svarið að hann kallaði til mín; "Linda, ég er þinn!". Ég var, þegar þarna var komið, búin að innbyrða tvö glös af hvítvíni (hey, það má stundum) og þar sem ég er algjört hænsni þá var ég komin í voða jollý kærulausan fíling og sagði bara; "þennan kjól takk", við vinkonu mína sem vann hjá Júniform á þessum tíma. Svo rölti ég út í sólskinið, sveiflandi pokanum með nýja, fallega kjólnum mínum, örlítið hvítvínuð og afskaplega sæl (er það bara ég eða er enn skemmtilegra að fá það sem maður kaupir í sérmerktum bréfpoka?). Það var ekki fyrr en seinna sem ég fór að spá hvort að það hefði verið skynsamlegt að kaupa svona dýran kjól, ég hafði aldrei nokkurntíman keypt svona dýran fatnað án þess að hugsa mig um áður og jafnvel safna fyrir honum fyrst. En kjóllinn var minn og ég ákvað bara að fara samningaleiðina við sjálfa mig; engin föt það sem eftir var sumars og það stóð ég við (sem betur fer var það hálfnað). Og ég hef aldrei séð eftir einni einustu krónu sem fór í hann.

2 comments :