Wednesday, February 25, 2015

Köflótt með pleðriVið nýttum síðasta laugardag í að taka nokkrar myndir enda var komin þessi líka yndislega sól. Það minnir nú reyndar fátt á sumarið akkúrat núna enda hundleiðinlegt veður og ekki hægt að klæða sig í margt annað en gönguskó, úlpu og húfu. Það er reyndar mjög gaman að skoða þessar myndir núna og minna mig á að veðrið verður ekki alltaf eins og í dag.

En ég dreif mig í að nota bæði föt og skó sem ég hef lítið getað tekið út úr skápnum undanfarið og spókaði mig um í blíðunni í fínu svörtu támjóu ökklastívélunum mínum úr Mango og pleðurbuxunum úr Zöru. Það kom reyndar alveg svakaleg rifa á annað hnéð þegar ég var að klæða mig en ég ákvað að láta það ekkert stoppa myndatöku og er þess vegna svona "rokkaraleg" á hægra hnénu. Skyrtuna fékk ég í Spúútnik í Kringlunni og hef notað hana mikið - hún er reyndar eini parturinn af þessari fatasamsetningu sem gengur þó að það sé skítkalt. Fyrir utan kragan minn góða, hann gengur við allt alla daga. En skyrtan er þykk og alveg merkilega hlý og ef ég er í góðum langermabol undir þá gengur hún þá daga sem eru í kaldara lagi. 

Ég neyddi jafngóða helminginn minn til að taka myndir af fimm mismunandi fatasamsetningum á laugardaginn og ég gerðist meira að segja svo djörf að ég skipti um föt í bílnum. Tek þó fram að ekkert misjafnt átti sér stað og ég skipti bara um peysur og yfirfatnað svo engir íbúar í nærliggjandi húsum þyrftu á áfallahjálp að halda yfir hálfnakinni konu í fataskiptum úti í bíl. Ég verð samt að viðurkenna að hárið var orðið ansi sjúskað á fataskiptum númer fimm, meiköppið orðið örlítið þreytt og ég hálf klesst eitthvað. Svona er þetta bara, hvað gerir maður ekki til þess að láta taka myndir af fötunum sínum? 

En ég á þá að minnsta kosti smá lager af myndum sem hentar vel því umræddur jafn góði helmingur er farinn af suðvesturhorninu í heilar þrjár vikur svo ég verð ljósmyndaralaus á meðan. Grey strákurinn eru örugglega bara feginn að fá þriggja vikna pásu og ég verð nú eiginlega að verðlauna hann fyrir það að nenna að standa í þessu með mér, spurning um að kaupa kippu af bjór og pizzu þegar hann kemur heim aftur?


Tuesday, February 10, 2015

Regla 6.

Ekki reyna of mikið.Ég hef margsinnis litið út fyrir að vera að reyna of mikið með því að klæðast fötum sem mér leið ekki vel í. Þegar ég segi "reyna of mikið" á ég við ástandið sem skapast þegar ég þarf stanslaust að vera fylgjast með því sem ég hef klætt mig í - til dæmis eins og fallegu gráu ökklahælarnir úr GS skóm sem litu svo flott út en það var martröð að ganga á þeim, eða flottu eldrauðu gallabuxurnar sem voru svo rislágar að ég þurfti að hysja upp um mig í öðru hverju skrefi, nú eða sæta loðna peysan sem skildi eftir sig slóð af hárum hvar sem ég fór - allar þessar flíkur litu vel út en hentuðu mér ekki á einhvern hátt. Ég veit það til dæmis fullvel að ég geng sjaldnast á háum hælum, ég vil alltaf frekar vera stöðug á fótunum heldur en að staulast um á hælum sem ég ræð ekki við eða þurfa að setjast á tónleikum vegna þess að ég er svo þreytt í fótunum. Ef ég ætla út að dansa þá eru þægilegir skór í forgang, takk fyrir kærlega. En það er bara ég. Þær sem geta gengið á háum hælum í öllum veðrum og verða bara ekki þreyttar í tánum eiga vissulega bara að gera það áfram. En ég er ekki ein af þeim og flestir af hælunum mínum verða að vera í miðhæð eða lágir til að ég gangi í þeim. Þess vegna er lítið vit í því að kaupa skó með svo háaum hæl að ég þarf að styðja mig við handrið eins og drukknandi manneskja í hvert skipti sem ég þarf að labba upp eða niður örfáar tröppur. Það er bara ekki kúl. Ég veit líka vel að rislágar buxur henta mér ekki (henta þær einhverjum?) því ég þoli ekki að líða alltaf eins og buxurnar séu að síga niður um mig eða þá að þurfa að passa að flassa ekki fólk með rosalegum plömmer þegar ég beygi mig áfram því buxurnar ná ekki upp fyrir skoruna. Það er bara lítill kynþokki í því þó að iðnaðarmenn margir hverjir haldi annað.

Í ákveðnum tilfellum finnst mér gott mál að halda sig innan þægindarammans. Ég reyni að muna það þegar ég versla og það myndi ekki hvarfla að mér í dag að kaupa mér gallabuxur sem sitja á mjöðmunum eða þá himinháa hæla sem fá mig til að labba um eins og köttur í sokkum (hér er dæmi: https://www.youtube.com/watch?v=7AGkGdYUoV4). Það sama á við um allan fatnað sem er heftandi að einhverju leiti. Ég er ekki að segja að allir eigi að ganga um í risamussum og íþróttaskóm en það er gott að muna eftir því sem hefur margsannað sig að gengur ekki upp - ég kaupi ekki rislágar buxur, háa hæla, hárbönd (ég hef margsinnis reynt en ég bara nota þau ekki), skyrtur sem eru fullþröngar yfir brjóstin en sleppa ef ég lyfti handleggjunum ekki of mikið (hljómar það gáfulega?) og þar fram eftir götunum. Flestir þekkja sín takmörk og það er mjög skynsamlegt að hlusta bara á þau í stað þess að eyða peningum í eitthvað sem er sjaldan notað þó manni langi til þess.

Flestir sem líta vel út og hafa töff stíl eiga nefnilega eitt sameiginlegt að mínu mati og það er að þeim líður vel í því sem þeir klæðast. Allar hreyfingar eru eðlilegar, fötin liggja vel á líkamanum og allir skór líta út fyrir að vera framlenging á fótunum en ekki hræðilega óþægileg viðbót sem valda skrýtnu göngulagi. Þú sérð ekki þannig fólk vera stanslaust að toga í fötin og lagfæra þau því það kann að velja fatnað sem hentar þeirra daglegu venjum. Ef þér finnast fötin vera óþægileg á einhvern hátt þá sést það langar leiðir og ef þú þarft stanslaust að fylgjast með í spegli hvort að allt sé á réttum stað þá ertu á villigötum. Flottur stíll kemur með afslöppuðu útliti, sjálfsöryggi og vellíðan. Það margborgar sig að fjárfesta í hlutum sem þú veist að þér líður vel í. Þá ertu að safna í góðan skáp sem nýtist vel.

Sunday, February 8, 2015

Tískuljón í pásuÞessi helgi er búin að vera alveg glötuð. Þetta var fríhelgin mín og það eina sem ég er búin að gera síðan á föstudagskvöldið er að reyna hrekja í burt flensu sem vill ólm kvelja mig. Í síðustu viku vaknai ég með smá sáran háls en venjulega tekst mér að hrista það af mér með því að klæða mig vel, taka pásu frá ræktinni og eyða kvöldinu upp í rúmi með te og bók og fara snemma að sofa þó mér finnist það oft vera erfitt. En þegar ég kom heim á föstudaginn þá fann ég að ég var að tapa fyrir flensuskrattanum og jújú ég mátti liggja alla helgina, raddlaus og voðalega aum eitthvað. Ég þakka fyrir það að ég er almennt mjög heilsuhraust og það er ár síðan ég var síðast lasin enda HATA ég að þurfa að vera inni af því ég neyðíst til þess. Ég hafði plön fyrir hitt og þetta en svo varð ekkert úr neinu. Enda lít ég illa út, rauðnefjuð með skítugt hár og það kemur hvæs þegar ég reyni að tala. En helgin var þó ekki alveg til einskis og mér fannst þessi innivera vera kjörið tækifæri til að mála smávegis, enda læt ég penslana oft sitja á hakanum fyrir eitthvað annað. Nokkrar myndir litu dagsins ljós og þar á meðal þessi hérna. Ég er búin að bíða heillengi eftir þessari vinkonu minni, ætli það sé ekki ár síðan ég hafði óljósa hugmynd um hana og hvernig ég vildi koma henni frá mér en það gerðist ekkert fyrr en í gærkvöldi, þá bara allt í einu var hún tilbúin. Svona gerjast þetta stundum lengi inni í manni áður en það myndast á pappírnum. En hér er hún allavega komin, álfadrottningin mín. Það gæti reyndar verið að ég vinni hana aðeins meira en það kemur bara í ljós og mig grunar sterklega að það leynist fleiri myndir í þessu þema í kollinum á mér, mér líður ekki eins og það sé búið alveg strax.

Svona eyðir maður tímanum þegar veikindi koma í veg fyrir að hægt sé að klæða sig upp og taka hring í nýjum kápum. Stundum er það nú líka bara mjög gott, að leyfa sér að vera með skítugt hár og týna sér í undraveröld penslanna. Þá kemur maður tvíefldur til baka. En jæja, aftur undir sæng að hræða flensuna burt!


Friday, February 6, 2015

Kápufegurð

Þeir sem þekkja mig vita að ég er dolfallinn Júniformaðdáandi og hef verið það síðan árið 2006 þegar ég sá Ragnhildi Steinunni í kápu frá merkinu. Ég elti hana heillengi í Kringlunni einn daginn þegar ég var að vinna þar til að geta lesið á miðann aftan á kápunni því ég þorði ekki að spyrja hana bara. Svo já, það má segja að ég hafi verið eltihrellirinn hennar Ragnhildar í svona 5 mínútur fyrir níu árum síðan. Ja, tæknilega séð þá var ég eltihrellir kápunnar en hvað um það, ég náði að lesa nafnið og komst að því hvaðan kápan væri. Næstu fimm árin eða svo starði ég á fötin á heimasíðunni þeirra og langaði í allt en átti aldrei pening því ég eydi honum alltaf í fullt af ódýru dóti. Svo einn daginn fékk ég nóg, keypti einn kjól (á útsölu reyndar) og þá varð ekki aftur snúið. Mér finnst ég alltaf svo yndislega fín í öllu sem hún Birta gerir og mér finnast fötin hennar líka alltaf klæða mig vel, nokkuð sem ég hef aldrei fundið hjá einu og sama merki áður. Plús að ég er allaf til í að styðja íslenskan iðnað og líð vel með að vita að fötin mín hafa ekki verið saumuð af útþrælkuðum börnum sem þurfa að vinna 10 tíma á dag til að sinna draslþörf Vesturlandabúa.

Í fyrrakvöld mundi ég eftir að ég hafði ekkert skoðað nýjar vörur frá Júniform heillengi og ákvað að líta á síðuna þeirra. Þar var líka þess fallega kápa, nema hún kostaði um 70.000 kr. og ég hugsaði með mér að málið væri eiginlega dautt, ég ætlaði ekki að eyða svo miklu í eitthvað nýtt. Svo í hádegismatnum í dag í vinnuni þá ákvað ég að rölta inn í Öxney þar sem hún er stödd nálægt vinnunni minni, bara rétt til að kíkja og kvelja mig aðeins á því að geta ekki eignast kápuna. Ég var rétt komin inn fyrir þegar afgreiðslukonan benti mér á kápuna og sagði: "þessi er á 70% afslætti, hún er æði". Ef maður trúir á fataörlög þá voru þetta þau, kápan bara kom beint upp í fangið á mér, óumbeðin. Konan spurði hvort ég vildi máta, sem ég þáði og þegar ég fattaði að hún var a) í minni stærð, b) komin á 20.000 kall og c) svo STÓRKOSTLEGA FALLEG að ég skældi smávegis inn í mér, að þá ákvað ég að slá til. Bæði vegna þess að ég kaupi alltaf afmælisgjöf handa sjálfri mér (þrjátíuogtveggja bara rétt handan við hornið takk fyrir pent) og líka vegna þess að sökum lélegrar þjónustu hjá Asos að þá fékk ég aldrei jólagjöfina frá foreldrum mínum. Eftir tveggja mánaða bið eftir pakkanum og í framhaldinu mikið kvart og marga tölvupósta svaraði Asos loksins og tilkynnti mér að pakkinn minn hefði týnst og að þeir myndu endurgreiða mér, sem þeir svo gerðu. Þetta eru nú reyndar ekki einu Asos vandræðin mín nýlega en það er önnur saga. En ég átti því enn inni jólagjöfina mína og smá "pakka" frá sjálfri mér líka. Fullkomnar ástæður til að stökkva á kápuna. Enda var ég himinglöð að rölta með pokann til baka í vinnuna þó það væri rok og snjókoma sem virtist koma ská að neðan - eiginleiki sem bara íslenskt veður býr yfir, grunar mig.

Kápan situr nú á kommóðunni minni, enn í pokanum því ég tími ekki að taka hana upp úr strax. Það gerist þó örugglega von bráðar. Ég ætla að fá lánaða myd af Júniform facebook síðunni til sýna ykkur gripinn því ég hafði ekki tíma til að taka myndir af henni, en hún kemur nú í fatabloggi fjótlega, því lofa ég!


Tuesday, February 3, 2015

Vetrarsól


Það kom loksins sól! Það fylgdi reyndar engin hitabylgja með henni en það er allt í lagi, það er bara febrúar ennþá. Og það er alveg ótrúlegt hvað meiri sól og birta hefur áhrif á líðanina. Ég er ekki ein af þeim sem glímir við þunglyndi í skammdeginu og hef mikið langlundargeð gagnvart leiðinlegu veðri, en samt, maður verður einhvern veginn léttari á sér þegar sólin skín. Síðustu daga hefur orðið sífellt bjartara og það verður alltaf styttra í það að ég bæði hefji og ljúki vinnudeginum í dagsbirtu, sem er náttúrulega bara stórkostlegt. 

En þar sem það er enn kalt þá þarf að klæða sig í samræmi við það. Enda fór ég í nýju Cintamani húfuna mína sem ég fékk í jólagjöf frá lítilli frænku, skellti á mig ponchoinu úr Zöru sem ég keypti úti á Kanarí í haust og setti á mig kragann minn góða og þá var ég fær í flest. Ég þurfti reyndar að setja á mig Raybaninn líka því sólin var bara nokkuð sterk, svona í rokinu og kuldanum. Þetta er Íslandi í hnotskurn, rok, skítakuldi og skínandi sól, allt í sama pakkanum. Við drifum okkur út og nýttum birtuna til að taka nokkrar myndir áðurn en við skelltum okkur á rjúkandi heita súpuskál til að halda líkamshitanum fyrir ofan "frosin til bana" mörkin. 

Eins og flestir vita sem þekkja mig að þá elska ég bleikan enda fannst mér tilvalið að vera í bleiku með bleiku, jafnvel þó þetta væri sitthvor bleikur. Það passar svo við minn stíl að vera ekki í stíl. Annars ætlaði ég ekki að blaðra meira í bili og leyfa myndunum að eiga mesta plássið!