Wednesday, February 6, 2013

Kjúklingur í raspi.. nomm

Ég elska kjúkling (ég elska reyndar allan mat) og mér þykir gaman að elda hann. Eitt kvöld í síðustu viku langaði mig einmitt í kjúkling, en langaði að gera eitthvað sem ekki hefur verið á boðstólnum hjá mér áður. Mig langaði í hvítlauk og mig langaði í sætkartöflustöppu með. Svo ég skellti mér í eldhúsið og byrjaði að setja eitthvað saman. Ég mæli með kjúklingalærakjötinu sem er ekkert meðhöndlað, ekkert vatn, sykur eða annað sett í kjúklinginn til að láta hann glansa og vera sætan.

Innihaldslisti:
Fyrir tvo.

Kjúklingur
4 bitar af kjúklingalærakjöti
3 stórir hvítlauksgeirar, skornir smátt
1-2 mtsk. olía
1 egg
Season All
Fetaostur (smá sleppa)
Brauðraspur
Spínat

Sætkartöflustappa
1 sæt kartafla, meðalstór
Kanill
Hvítlaukspipar
Salt
Pipar


Ég byrjaði á því að setja ofninn á 200° og þegar hann var orðinn heitur þá setti ég sætu kartöfluna, sem búið að var að stinga með gaffli í, í álpappír og skellti henni inn. Í mínum ofni tekur það um eina klukkustund að baka kartöfluna í gegn, en það getur verið mjög misjafnt eftir ofnum hversu langan tíma það tekur. Næst setti ég brauðrasp í litla skál og eggið í aðra (hræra vel með gaffli) og setti til hliðar. Þegar kartaflan var búin að vera svona 30 mín. í ofninum þá byrjaði ég á skera hvítlaukinn smátt og hita olíuna við vægan hita á pönnu. Svo setti ég hvítlaukinn út í og hrærði honum vel upp í olíunni. Það er mikilvægt að hafa hitan vægan og láta hvítlaukinn brúnast mjög hægt, eða þar til að hann er orðin gullinn að lit og mjúkur. Á meðan hvítlaukurinn mallaði á pönnunni þá tók ég kjúklinginn, skar hann í smærri bita og velti honum upp úr smá Season All. Þar næst setti ég a.m.k þrjár lúkur af spínati í botninn á eldföstu móti. Ég vil hafa mikið af spínati því að það gefur mjög gott bragð með kjúklingnum, en minnkar mikið í umfangi þegar það er bakað. Svo nóg af spínati.Þegar hvítlaukurinn og olían hafði mallað vel og lengi saman helti ég því yfir í skálina með hrærða egginu og blandaði vel saman, velti svo einum kjúklingabita upp úr hrærunni og loks upp úr raspinum, eða þar til að bitinn er alveg þakinn af raspi. Því næst setti ég hann ofan á spínatið í eldfasta mótinu. Ég reyndi að hafa hvítlauksbitana sem voru í eggjahrærunni með kjúklingnum þegar hann fór í raspið en það tolldi misvel. Þegar ég hafði velt öllum bitunum og þeir voru komnir í fatið þá setti ég afganginn bara ofan á þá. Þeir sem vilja ekki eins mikið hvítlauksbragð og ég geta alveg sleppt þessu og bara látið bragðið af olíunni duga. Svo var fatinu bara skellt inn í ofn og látið malla í 40 mín. u.þ.b.Á meðan kjúklingurinn var í ofninum þá tók ég sætu kartöfluna, flysjaði hana, skar í bita og setti í stóra skál. Hún var vel mjúk og því var auðvelt að stappa hana saman með gaffli. Þegar ég var búin að því þá setti ég um hálfa tsk. af kanil, slatta af hvítlaukspipar, salti og svörtum pipar. Þetta er smekksatriði hvers og eins og best er að smakka bara til. Mér finnst stappan best þegar kanil- og hvítlauksbragðið finnst ágætlega, en er ekki yfirgnæfandi. Það er nauðsynlegt að finna bragðið af kartöflunni sjálfri. Svo bara hæfilega mikið af salti og pipar. Svo hrærði ég hana bara enn betur til og setti til hliðar. Þegar kjúklingurinn var búinn að vera um 30 mín. í ofninum tók ég hann út og setti smá fetaost, örugglega bara 6-8 bita í allt, til að fá smá bragð. Setti svo fatið aftur inn í ofn og hafði í 10 mín. eða þar til að osturinn var bráðnaður. Svo var bara að setja á disk og njóta!


3 comments :