Monday, September 30, 2013

Óð í pastel




Eins og ég hef talað um áður þá hef ég mjög gaman af því að færa mig inn í nýja árstíð með breyttum áherslum og litabreytingum í fataskápnum. Ég hef verið dugleg að fletta tískublöðum og skoða tískublogg undanfarið og þetta haustið fannst mér afskaplega skemmtilegt að sjá að pastellitir, og þá sérstaklega bleikir, yrðu áberandi, en þeir hverfa svona oftast á veturna þegar dekkri litir ráða förinni. Ég elska pastelliti (ég elska svo sem alla liti ef út í það er farið) og hef aldrei skilið hvers vegna þeir eru gerðir útlægir um leið og dimma tekur. Eftir nýlegt rölt um verslanir í Smáralind og Kringlunni þá fékk ég nett áfall en næstum hver einasta verslun var orðin svarthvít með slettu af dökkrauðu, gráu eða dökkbláu á milli. Ég nota alla þessa liti sjálf mikið, en mér finnst það vera algjör óþarfi að útrýma öllum öðrum litum þar sem mér þykir veturinn ekki þurfa að vera eingönguu svarthvítur. Þess vegna er ég núna að láta mig dreyma um ljósari/líflegri liti. Ég sé sjálfa mig fyrir mér í hyllingum að spóka mig um í fallegri ljósbleikri kápu á meðan ég rölti á milli verslana í desembermyrkri og snjókomu í leit að jólagjöfum, eða þá í fallegu febrúarsólinni þegar allt er að vakna til lífsins eftir dimmu mánuðina. En hérna á Íslandi seljast bara ekki ljósir litir, aðeins á sumrin jú, en alls ekki á veturna, og því er afskaplega takmarkað úrval í boði. Ef illa fer og ég kem hvergi auga á kápu eins og þessa úr Topshop (fæst ekki hérna á landinu og eins merkilegt og það nú er, þá er ekki hægt að panta af síðunni þeirra og fá sent til Íslands) þá get ég alla vega fengið mér ljósbleika peysu eða topp af þeim síðum sem senda til Íslands, og þar er úrvalið oft mjög gott. Annars þá er ég að rannsaka hverja einustu verslun sem selur vefnaðarvöru í þeirri von að finna ljósbleikt kápuuefni og hvað veit maður, kannski enda ég með fallega heimagerða kápu í staðinn. En þar til þá ligg ég yfir myndum af ljósbleikum fatnaði og læt mig dreyma.

Rauð ber



Alltaf þegar "fuglaberin" (ég man aldrei hvað þessi ber heita en þetta kallaði ég þau þegar ég var krakki) eru er mætt í trén á haustin þá langar mig alltaf í eitthvað fallega rautt til að klæða mig í. Enda var ég ekki lengi að grípa þetta gjöööðveika rauða satínefni með hlébarðamunstri þegar ég skoðaði í Vouge heima á Akureyri þegar ég var þar síðast. Það var ást við fyrstu sín og ég var ekki lengi að bruna með það til mömmu og fá hana til að hjálpa mér að sauma eitthvað flott úr því. Enda er mamma snillingur í höndunum og getur leiðbeint trölli eins og mér í vandasömum saumaskap. Myndir af kjólnum í "full swing" koma fljótlega.

Wednesday, September 25, 2013

Að líta vel út?

Það þarf ekki að fletta mörgum blöðum eða skoða lengi á netinu áður hrasað er um "10 ráð til að bæta útlitið" fyrirsagnirnar. Þessar greinar hafa oft farið örlítið í taugarnar á mér því oftar en ekki eru þetta alltaf sömu ráðin aftur og aftur, og jafnvel innihalda (að mínu mati) oft ákveðnar fyrirskipanir um það hvernig fólk eigi að líta út til þess að flokkast sem marktækt í samfélaginu. Ég er kannski bara svona þver, en þegar einhver segir við mig að ég þurfi að gera hitt eða þetta til að vera fín og sæt, þá nenni ég ekki að lesa lengur. Það að líta vel út og að finna sinn eigin stíl (nú eða að taka þá ákvörðun um að forðast slíkt algjörlega) kemur vitanlega ekki í stærð sem hentar öllum og "10 ráð til að líta vel út á ströndinni í sumar" ætti að öllu jöfnu að búa yfir mjög svo víðtækum ráðum þar sem það eru auðvitað ekki bara til tíu leiðir til að líta vel út á ströndinni. Hvað hverjum þykir "að líta vel út" er einstaklingsbundið, og leiðirnar til þess eru misjafnar líkt og við erum mörg. Kona sem stundar líkamsrækt af fullum krafti og elskar það, myndi eðlilega setja það ofarlega á lista hjá sér yfir hennar leiðir til að líta vel út. Kona sem hefur engan áhuga á líkamsrækt, en finnur sig í að elda myndi líklegast segja að ljúffengur matur gæfi henni sína útgeislun.




Það angrar mig ekki vitund að fólki vilji hugsa um útlitið (kæmi úr hörðustu átt frá mér þar sem ég lærði snyrtifræði í den) en það angrar mig að í flestum tilfellum er verið að tala um hvernig missa eigi kíló fyrir bikinítímabilið ógurlega, losna við appelsínuhúð eða hvernig best sé að raka hvert einasta stingandi strá af líkamanum (Guð forði oss frá því að gleyma rakstrinum fyrir ströndina, því eins og allir vita þá er kona sem gleymt hefur að raka sig réttdræp). Ekki misskilja mig, ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því að fólk grenni sig, raki af sér líkamshár eða geri ýmislegt í því að halda húðinni góðri - ég geri þetta allt sjálf - en mér þykir leiðigjarnt að lesa alltaf um þessa "kassastaðla" sem allir verða að passa inn í til að hreinlega mega fara út úr húsi. Þegar ég heyri "stelpur mínar, við skulum reyna að vera smávegis huggó og sætar og hafa aðeins fyrir þessu og muna eftir maskaranum áður en við förum út", þá ranghvolfi ég alltaf í mér augunum eins og unglingur á verstu gelgju og pirrast. Samt hef ég áhuga á að finna út hvað það er sem gerir mig sæta. Þess vegna langar mig að gera lista yfir það sem ég geri til að "viðhalda" útlitinu, en það skal þó tekið fram að hann er ekki gerður til að aðrir fari eftir honum frekar en þeir vilja. Hann er meira til gamans og kannski til að koma af stað skemmtilegum umræðum um hvað það sé sem fær konur (og karlmenn) til að brosa sætt framan í spegilmyndina í sátt við það sem blasir við þeim.

Nr. 1. Í þessu nútímasamfélagi sem við lifum í er hamrað á okkur að muna að njóta lífsins, að lifa í núinu og að vera hverja einustu sekúndu í lífinu hamingjusamur. Mér þykir það vera rosaleg pressa og daginn sem ég áttaði mig á að það er eðlilegt að vera ekki alltaf í núinu, að muna ekki alltaf eftir því að njóta lífsins og rembast ekki við það eins og rjúpan við staurinn að vera ALLTAF hamingjusöm, þá leið mér betur. Vitanlega er nauðsynlegt að njóta lífsins og stoppa og hugsa um núið, en þegar fólk eins og ég er farið að setja pressu á að ALLT verði að vera hamingjuríkt og fabjúlös (því annars væri ég bara léleg í að lifa, takk fyrir pent) þá er kominn tími á að gefa sér leyfi til að vera stundum ekkert að spá í þetta, eða sleppa því að vera með samviskubit yfir því að fara stundum í fýlu. Þegar ég man þetta þá líður mér vel, og búmm, ég verð sætari.

Nr. 2. Njóta þess að vera til í dag og bíða ekki alltaf eftir morgundeginum. Þrátt fyrir að vera í hróplegu ósamræmi við regluna á undan, þá er þetta engu að síður satt og fyrir mig er mjög mikilvægt að finna jafnvægi á milli hlutanna. Það er nefnilega oft æðislega gott að hanga bara upp í sófa að horfa á einhvern þátt og vera ekkert að spá í skemmtilegu utanlandsferðinni/partýinu sem verður næstu helgi. Þegar ég er glöð og kát með það sem ég er að gera, sama hvort það er spennandi eða hversdagslegt, þá lít ég betur út.

Nr. 3. Svefn á réttum tíma. Ég alræmdur næturgöltrari og á ekkert erfitt með að vaka heilu næturnar og sofa á daginn. Svona hefur þetta verið síðan ég var krakki. En meinið er að mér líður miklu betur þegar ég sef á nóttunni og vakna snemma. Það er fátt sem gerir mig jafn ferska og að sofna tiltölulega snemma og fara síðan eldsnemma á fætur til að fara í sund eða ræktina. Líkamanum líður betur og húðin verður miklu áferðarfallegri ef ég passa upp á þetta.

Nr. 4. Að fá það sem mig dreymir um í áföngum. Mig dreymir ekki um að verða geðveikt rík allt í einu, fá bestu vinnu í heimi fyrirhafnarlaust eða flottasta húsið tilbúið með öllu. Mig langar að eiga peninga í framtíðinni, fá frábæra vinnu og eiga fallegt hús en það er svo miklu skemmtilegra að hafa fyrir hlutunum í stað þess að fá allt strax. Þetta er gott að muna þegar ég kvarta yfir pínulitlu íbúðinni sem ég bý í, eða þá að geta ekki komist til útlanda þegar mig langar, því þegar ég loksins fæ það sem mig dreymir um þá verður það svo sætt. Að setja mér takmörk fyrir lífið gerir mig áhugasama fyrir því að gera betur í dag en í gær og heldur mér hamingjusamri. Það er býsna gott fegrunarmeðal.

Nr. 5. Að bera á mig rakakrem tvisvar á dag. Ég hef glímt við exem, þurrkabletti, viðkvæma húð og bólur, og það er ekkert sem heldur henni betri en að muna eftir að bera á mig rakakrem. Það þarf ekki að vera rándýrt krem frá Chanel (kremið sem ég féll fyrir og nota alla daga kostar um 1000 kr.) en raki er það sem allir þurfa. Það er til dæmis engin ástæða til þess að fara beint í sterakrem í baráttu við vægt exem án þess að prófa fyrst hvernig húðin bregst við ef hún fær sitt krem daglega í ákveðin tíma. Vitanlega er sterakremið oft nauðsynlegt en það borgar sig að athuga hitt fyrst. Ef rakakremi er sleppt, þá verður húðin verri, þannig virkar það alla vega fyrir mig.

Nr. 6. Borða fjölbreytta fæðu. Á mínu heimili er gríðarlega mikið magn keypt af grænmeti og ég elda mikið af allskonar súpum, pottréttum, kássum og öðru álíka sem inniheldur mikið af því. Það þarf ekki að heita salat til að vera hollt. Þess utan eru baunir, fiskur og kjöt, olía, ávextir og mjólkurafurðir eitthvað sem ég borða líka mikið af og ég forðast enga fæðutegund vegna þess að hún er "vond" fyrir mig. Eftir að ég tók markvisst í gegn það sem ég borða hef ég bæði séð mun og fundið hann, húð, hár, skap og svefnvenjur urðu mun betri en þegar ég borðaði einhæfari mat (sykurskrímslið er þó sjaldnast langt undan og ég þarf að sinna því reglulega líka).

Nr. 7. Stunda líkamsrækt. Ég lyfti og syndi og líður aldrei eins vel eins og eftir átök í lauginni/áhaldasalnum. Þess utan er ég dugleg að ganga út og suður og skoða fallega staði og mér finnst það vera algjörlega nauðsynlegt að taka duglega á til að líða vel, bæði andlega og líkamlega.

Nr. 8. Að ganga á hælum við óheppilegar aðstæður eða á hælum sem eru óþægilegir. Mér finnst ég vera oft svo kjánaleg ef ég treð mér í hæla til að fara í skólann eða til að rölta um í Kringlunni. Ég veit ekki af hverju en mér finnst ég vera minna fín ef eitthvað heftir mig í að ganga þegar ég er að gera hversdagshluti (t.d. að reyna að halda jafnvægi í roki á hælum þegar ég er að drífa mig í tíma, þurfa að passa hvert skref þegar hált er). Ég veit að reglan er oft sú að vera alltaf á hælum því það sé svo kvenlegt, en ég er greinilega bara ekki ein af þeim sem sú regla á við. Ég hef mjög gaman af því að klæða mig upp þegar ég fer út og fer þá í fínustu hælana, en svona oftast þá líður mér betur á nærri flatbotna skóm (skór með 3 cm. hæl eða mjög grófum hæl eru vinsælir hjá mér). Þægindi og fínheit geta vel farið saman að mínu viti og þegar mér líður vel og þægilega, þá lít ég betur út.

Nr. 9. Rakakrem, maskari og kinnalitur. Það eru hlutirnir mér finnast skipta máli þegar kemur að förðun hjá sjálfri mér. Stundum mála ég mig meira, stundum minna, fer allt eftir því hvernig ég er stemmd. Fallegur varalitur er líka oft akkúrat það sem ég þarf og þá eru helst dekkri litir sem virka fyrir mig. Ég spila förðunina alltaf eftir því hvað mig langar þann daginn og ef mig langar ekki að mála mig, þá bara geri ég það ekki.

Nr. 10. Bursta tennur og nota tannþráð. Nokkuð augljóst ekki satt?

Nr. 11. Fara reglulega í klippingu til að koma í veg fyrir að hárið á mér verði eins og úfið strý. Hef mjög fíngert hár sem slitnar auðveldlega og það munar miklu að láta snyrta það reglulega. Og nota teygjur sem hafa engan svona málm á þeim, kaupi alltaf svona litlar, feitar og málmlausar teygjur til að koma í veg fyrir að hárið slitni frekar.

Nr. 12. Sinna áhugamálunum mínum af fullu kappi, nýta tímann með fjölskyldunni og vinum og knúsa gæludýrin mín.

Nr. 13. Skoða fyndin dýramyndbönd á youtube. Ég er miklu sætari þegar ég hlæ.

Nr. 14. Stundum er leynivopnið góður "highlighter". Ég elska minn frá Make Up Store.

Nr. 15. Fara í heita potta og gufu, gerir oft kraftaverk fyrir húðina og sálartetrið.

Tuesday, September 17, 2013

Innblástur

Stundum finnst mér fátt skemmtilegra en að dunda mér við að skoða myndir til að fá hugmyndir og innblástur. Ég þarf ekkert endilega að eignast allt sem ég skoða, þetta snýst ekki um það, heldur frekar að safna saman fallegum myndum sem heilla á einhvern hátt og nota þær til að hvetja mig í að prófa eitthvað nýtt, nú eða til að minna mig á allt þetta fallega sem ég á inni í skáp/ofan í skúffu sem hægt væri að nota öðruvísi en ég hef gert áður. Það er merkilegt hvað ein mynd getur opnað fyrir minningarnar um eitthvað sem ég hef upplifað, lesið eða hugsað og ég er gjörsamlega heilluð af því að fanga þessar minningar, sama hvort ég tek (teikna, mála...) myndina sjálf eða ekki. Litir, áferð og uppsetning kveikja á hugmyndafluginu, hvort sem ég nýti það fyrir útlitið eða þegar ég mála, tek myndir, elda eða sauma. Ef ég væri ekki hundveik í augnablikinu þá léti ég ekki rokið stoppa mig og drifi mig út að taka myndir, en það verður að bíða þar til ég kemst á lappir aftur. Ég kem til með að setja inn svona "innblásturs" myndir öðru hvoru sem einskonar "nammidagur" fyrir augun! Þessi myndaröð er augljóslega tileinkuð haustinu, eins og kemur til með að vera þema áfram hjá mér.



Sunday, September 15, 2013

Litlar breytingar

Í tilefni af því að færa sig inn í haustið þá ákvað ég að breyta smávegis til. Hárið á mér lýsist það mikið yfir sumartímann (margar sundferðir hjálpa ekki) að ég er spurð að því hvort ég hafi litað það ljóst. Ef ég læt það alveg eiga sig þá verður það svona líka huggulega sinugult, augabrúnirnar hverfa næstum alveg og mér finnst ég vera öll hálf "samlit", þ.e. augabrúnir, hár og andlit verða afskaplega áþekk á litinn. Mér þykir fínt að hafa hárið svona ljóst yfir sumarmánuðina þegar sólin er hátt á lofti og fataskápurinn er fullur af léttum flíkum í sumarlegum litum, en um leið og það fer að kólna er ég til í að breyta aðeins til. Ég er ekki að tala um að fara úr ljósrauðum yfir í dökkbrúnt neitt, heldur bara einum tóni dekkra. Svo ég skellti mér út í búð og keypti mér lit. Ég er löngu hætt að fara á stofu til að láta lita það vegna þess að fastur litur tollir mjög illa í hárinu mínu og ég tími ekki að borga fullt af peningum fyrir eitthvað sem endist kannski í þrjár vikur. Einu sinni litaði ég hárið á mér svart og það lak úr á tveimur vikum og bamm, ég aftur orðin rauðhærð. Einhversstaðar las ég að rautt hár tæki mjög illa við lit og því entust þeir stutt. Ég veit svo sem ekki hversu satt það er, en það á allavega við mitt hár. Ég litaði rótina og niður, en skildi eftir svona 20 cm. til að hafa endana ljósari. Svo skellti ég dökkbrúnum lit í brúnirnar til að hafa samræmi á milli, lét litinn liggja í örfáar mínútur til að þær yrðu ekki of dökkar og skrúbbaði hann svo vel úr svo ekkert yrði eftir í húðinni sjálfri. Og voila, ég orðin um það bil einum lit dekkri og tilbúin í veturinn. Ég biðst velvirðingar á myndgæðunum, ég var ein heima og þurfti að taka myndirnar sjálf, en það er ekkert grín þar sem að myndavélin mín er mjög stór og þung og erfitt er að halda á henni með annarri hendi og beina henni að sér. Næst á dagskrá er að kaupa þrífót svo að vinstri handleggurinn verði ekki mun massaðri en sá hægri. Eru fleiri en ég sem skipta um lit þegar ný árstíð gengur í garð?



Haust


Ég elska árstíðarskipti. Þau hafa hvert sinn sjarma og ég er ekki ein af þeim sem þolir illa kulda og snjó, þvert á móti. Þegar sumarið er að verða búið og farið að dimma verulega á kvöldin þá kem ég mér í ákveðinn gír, bæði á heimilinu og hjá sjálfri mér. Það fyrsta sem gerist er að íbúðin fyllist af kertum og allskonar ljósum - það er fátt huggulegra en að sitja upp í sófa með góða bók og te og slappa af í ljúfri rökkurbirtunni. Einnig verð ég alveg gríðarlega spennt fyrir því að færa mig yfir í hausttískuna, þar sem ég elska þykkar peysur, fallegar kápur og trefla og alla fallegu litina sem koma með lækkandi sól. Leður, feldir, djúpir vetrarlitir, pallíettur og "hlýjir" ilmir er það sem ég tengi hausttískuna við og ég get varla beðið eftir að fara setja saman flíkur sem mér finnast vera haustlegar. Á næstunni kem ég til með að blaðra um ýmislegt tengt þessu tímabili svo verið viðbúin, haustið er komið í Lindu!