Saturday, November 22, 2014

Hinn fullkomni fataskápur - regla 3

3. Að hunsa annara manna ráð.

Þessi partur er frekar spes því að auðvitað er gott að nýta góð ráð. Málið er bara að ekki eru allir að reyna að hjálpa til þín vegna. Stundum er fólk bara hreinlega að reyna að vera dónalegt. Stundum er það vegna afbrýðissemi, stundum heldur það að skoðanir þess á þínum fötum séu bara það frábærar að því finnst sjálfsagt mál að deila því með þér - hvort sem þér líkar betur eða verr. En gerum mun á þeim sem ber að taka mark á og þeim sem ber að forðast að hlusta á.

Þeir sem vilja í alvörunni hjálpa eru þeir sem eru opnir og ekki dómharðir - í flestum tilfellum eru það þeir sem taka áhættur í tísku sjálfir. Það á þó ekki alltaf við því stundum er fólk það sjálfsöruggt að þó það kjósi ekki að gera mikið af tískutilraunum sjálft, þá getur það vel verið opið og jákvætt gagnvart því hjá öðrum. En margir eru þannig að þeim finnst bara sinn stíll vera flottur. Tökum sem dæmi að þú ferð að versla með vinkonu þinni og sú vinkona klæðir bara í svart, grátt og beige en þú ert hins vegar rósótta og skærlitaða týpan. Þú sérð einmitt neonbleikar buxur sem þér finnast geðveikar, þú mátar alveg ægilega spennt og sýnir vinkonu þinni. Hún starir á þig í smástund, fitjar svo upp á nefið og segir; "þetta er alveg ógeðslega bleikt, ég myndi aldrei kaupa þetta...". Nújá? Var einhver að biðja þig um að ganga í þessum buxum? Ég veit ekki hversu oft ég lent í svipuðum atvikum í gegnum tíðina og ég hef alltaf verið jafn hissa á svona "ráðgjöf". Og hvað gerist þegar þetta er öll hjálpin? Þú stendur þarna eins og kjáni í neonbleiku buxunum sem þú elskaðir stuttu áður og ferð að efast. Þú skoðar þig betur í speglinum og allt í einu er eins og að fallega bleiki liturinn sé orðinn of æpandi og lítur eiginlega kjánalega út. Þú smokrar þér úr buxunum, skilar þeim og kaupir þér "venjulegar" gallabuxur í staðinn og ert enn á smávegis bömmer yfir því að einhver skildi gjörsamlega gefa skít í þinn smekk.

Sumt fólk virðist ekki geta slitið eigin skoðanir frá þegar það metur og gefur álit þó að ekkert sé auðveldara en að fara yfir örfá atriði eins og hvort að sniðið klæði vel, hvort liturinn sé að gera jákvæða hluti fyrir hörundslit þess sem mátar, hvort þetta passar inn í skápinn og er efnið þægilegt? Þetta er svona grunnlisti sem þarf að miða við og það er mjög auðvelt að svara þessum spurningum jafnvel þótt að álitsgjafinn myndi aldrei ganga í flíkinni sjálfur. Þú vilt alltaf fá ráð hjá þeim sem gefur hreinskilið álit, en það er töluverður munur á því og að klína eigin smekk yfir á alla aðra. Sá sem gefur hreinskilið álit er sá sem gefur álit út frá þér, manneskjunni sem ætlar að ganga í flíkinni. Haltu þig við aðstoð frá þeim sem þekkja þig, eru opnir og jákvæðir, en eru einnig færir um að gagnrýna þegar þeim finnst vera þörf á og þú hefur beðið um það.

Sunday, November 9, 2014

Hinn fullkomni fataskápur - regla 2


2. Að fylgja eigin smekk. 


Þetta er eitt mikilvæasta atriðið þegar kemur að því að byggja upp góðan skáp. Þegar ég var yngri þá las ég endalaust margar bækur skrifaðar af hinum og þessum sérfræðingnum í málinu og varð alltaf jafn skúffuð á því að allir áttu að eiga sömu hlutina í fataskápnum sínum. Það var alltaf sama tuggan; "eitt svart fínt pils, einn svartur fínn kjóll, einar vel sniðnar svartar buxur, þrjár hvítar skyrtur...", og það var algjör nauðsyn að klæða sig eftir líkamsvexti. Til að mynda þá mátti ég eingöngu klæða mig í aðsniðnar flíkur til að sýna mittið og varð að passa að klæða mig ekki þannig að ég liti út fyrir að vera feitari, en það að vera yfir kjörþyngd er vitanlega höfuðsynd innan tískugeirans og öll fatakaup skulu takmarkast við það að klæða af sér kíló. Ég gafst ég fljótt upp á þessum bókum og gaf þær frá mér og fór í stað að sækja tískulegan innblástur út frá mínum eigin forsendum - í gegnum sjónvarp, bíómyndir og bækur og á konum í kringum mig og smám saman lærði ég að hunsa þá löngum til að falla í hópinn. Mér hefur tekist að þroska minn eigin smekk án hjálpar frá sjálfskipuðum sérfræðingum og veit núna hvað það er sem ég á að forðast, nú eða hlaupa í áttina að. Það er mikilvægt að hlusta á eigin skoðanir og láta annarra manna álit ekki stjórna því hverju þú vilt klæðast. Þú ert þinn eigin tískuráðgjafi, treystu sjálfri þér og hafðu gaman af því að móta þitt eigið útlit.

Linda.


Saturday, November 1, 2014

Haust haust haust

Það er kannski fullseint að skrifa um haustið núna, kominn nóvember og svona - en ég er samt ekki ennþá farin að upplifa vetur. Höfuðborgarsvæðið hefur að mestu verið laust við snjó og á meðan ég get farið út í hælum og þykkri peysu í staðinn fyrir kuldabomsur og úlpu, þá finnst mér sem sagt enn vera haust. Ég elska haustin og ég er sennilegast eina manneskjan á Íslandi sem hatar ekki vetur og myrkur. Ég elska allar árstíðir á sinn hátt (ég er svo rómantísk sjáið þið til) og tek vetrinum fagnandi með öllum sínum vondu veðrum og myrkri. Enda er það tími kertanna, kúrsins og huggulegheita.

Það er líka annað. Eins og ég hef skrifað um áður þá finnst mér haust/vetrartískan mun skemmtilegri heldur en sumartískan. Ég er ekki mannekjan sem elskar að vera í léttum stramdafatnaði alla daga og finnst fátt skemmtilegra en að klæða mig upp í peyusr, kápur, trefla og þess háttar. Reyndar er það svo að þegar sumarið lætur loksins sjá sig að þá er ég virkilega tilbúin til að klæða mig í í léttar og glaðlegar flíkur, fá freknur og fara í opna skó, svo kannski er bara ekkert að marka þegar ég segist elska eina árstíð frekar en aðra... Jæja, segjum bara það. að mér þykir gaman þegar árstíðaskiptin verða því þá er tækifæri til að hrista aðeins upp í fataskápnum og breyta til.

Og haustið og veturinn bjóða svo sannarlega upp á breytingar í fataskápum sem og í snyrtibuddunni. Ég á það til að liggja yfir Pinterest og þeim bloggum sem mér finnast skemmtileg til að fá hugmyndir og einfaldlega bara til að gleðja augað. Og það er sko ekki lítið úrval sem internetið býður upp á enda er ég búin að pinna eins og vitleysingur á Pinterest síðunni minni og það verður að segjast að þessi yfirlega mín reyndist mér vel, því þegar ég fór til Spánar núna október, þá verslaði ég skynsamlega og sit núna með frábærasta fataskáp sem ég hef nokkurntíman átt. Hann var svo góður að ég ákvað að skrifa bloggfærslu um það að byggja upp hinn fullkomna fataskáp og ég kem til með að birta þá færslu fljótlega. Í þeirri færslu ætla ég að taka mynd af hverri einustu flík til að sýna ykkur hvað þið eigið að kaupa til að eiga hinn fullkomna fataskáp og vera alltaf flott klæddar.

Djók.

En án spaugs. Ég var virkilega ánægð með það sem ég keypti og ástæðan fyrir því að þessi verslunarferð þarna á Spáni heppnaðist svona vel var vegna þess að ég var búin að setja mér nokkrar reglur um það hvernig ég ætlaði að versla. Ég veit að það hljómar kannski fáránlega, en það virkaði svona líka vel og þessar síðustu tvær vikur síðan ég kom heim hef ég hreinlega dansað af gleði þegar kemur að því að velja föt á morgnana. Og ég vil endilega dreifa gleðinni með þeim sem hafa gert sömu mistök og ég áður og setið uppi með heilan helling af flíkum og skóm sem sjaldan eru notaðar og finnst alltaf eins og úttroðni fataskápurinn sé tómur.

En fram að því þá valdi ég nokkrar myndir af pinterest síðunni minni sem eru búnar að veita mér tískulegan innblástur þetta haustið - rautt, pallíettur, berjavaralitir og þykkar peysur hér kem ég!