Monday, October 22, 2012

Dekurkvöld

Stundum finnst mér alveg nauðsynlegt að taka frá kvöldstund og fara í heitt bað, setja á mig andlitsmaska og lakka á mér neglurnar (ég er nakklalakksjúklingur og skipti um liti á nokkurra daga fresti). En ég kaupi sjaldnast fína maska eða krem því það sem ég bý til heima virkar afskaplega vel. Ég er menntaður snyrtifræðingur og þekki því það sem hægt er að forðast til að spara pening og útbúa heima í staðinn. Einn sá skrúbbur sem ég á alltaf til og nota oftast er sítrónu og sykurskrúbbur sem ég nota á fæturnar á mér. Hann endist lengi og því skelli ég saman þessu tvennu í fallega krukku sem ég síðan geymi inni á baði. Þá er hann alltaf tilbúinn þegar ég ætla að skrúbba fæturna á mér vel. Ég þoli ekki þurra og sprungna hæla sem rúmfötin festast við og því er ég duglega að nota þennan og svo gott krem eftir á. Ég blanda bara sykri í krukkuna, um það bil 2/3 af stærð krukkunar og set síðan sítrónusafa út í, þannig að sykurinn verður gegnblautur. Svo keypti ég mér þessa líka finu merkimiða í Söstrene Grene og merkti svo þetta yrðu nú sætt á baðhillunni. Það er einnig hægt að gera sama skrúbbinn úr til dæmis salti og ólívuolíu eða sykri/púðursykri og ólívuolíu (eða bara hverri þeirri olíu sem hver vill). Olían er hentug fyrir þá sem vilja mikinn raka en sítrónan fyrir þá sem vilja hreinsandi meðferð.

Eftir sturtuna maka ég svo feitu kremi á fæturnar, það er hægt að fá fínustu krem í snyrtivöruhillunum í matvörubúðum og það er alls ekki alltaf nauðsynlegt að kaupa rándýrt fótakrem, þær sem glíma við fótavandamál ættu frekar að athuga það. Uppáhaldið mitt þessa dagana er Cocoa Butter kremið frá Vaseline, það er vel feitt og hentar fótunum mínum vel, plús að ég er mjög hrifin af lyktinni. Ég smyr þessu á fæturnar, skelli mér í hlýja sokka og beint upp í rúm og sef í sokkunum, þá smýgur kremið enn betur inn og daginn eftir er ég með afskaplega mjúka og sæta fætur!Það er líka nauðsynlegt að gera maska fyrir andlitið og það eru aðallega tveir maskar sem ég er hrifin af og nota alltaf með hvor öðrum. Ég er með feita húð sem er yfirborðsþurr og þeir henta henni vel. Fyrst þá nota ég hreinsandi maska sem sótthreinsar og losar um dauðar húðfrumur, hann er einskonar sótthreinsandi skrúbbmaski sem hentar viðkvæmu svæði eins og andlitinu. Í hann fer matarsódi og vatn, ekkert annað. Ég blanda saman tveimur teskeiðum af matarsóda og hálfri til einni teskeið af vatni, hræri svo vel saman svo að það myndast krem sem freyðir örlítið.Því næst ber ég þetta á allt andlitið og læt liggja í 10-15 mínútur. Maskinn harðnar og er kannski örlítið óþægilegur og stingandi fyrst, og fyrir þær sem eru með viðkvæma húð er best að stytta tímann örlítið. Hann er þrátt fyrir það mildur og hentar flestum, þó þær séu ekki með feita húð. Hann virkar jafn vel til að hreinsa húðflögur og gefa ljóma. Svo hreinsa ég hann af með volgu vatni. Til að fullkomna meðferðina set ég svo dúndurrakamaska, eða haframaskann minn ógurlega sem gerir mig svo slétta og mjúka. Í hann fara 2-3 matskeiðar af haframjöli og nægilegt magn af vatni til að það verði grautur. Svo er bara að bera gumsið á sig, getur verið vandasamt þar sem það tollir misvel, en þá er bara best að liggja út af, klessa þykku lagi á andlitið og slappa af með hann í svona 15 mínútur, skola svo vel af og bera á sig rakakrem. Þessi einfaldi maski er það besta sem húðin mín fær (og ég get eytt peningunum mínum frekar i eitthvað annað...föt til dæmis!). Önnur afbrigði af hreinsandi maskanum eru til dæmis að setja saman kanil og hunang, kanillinn virkar eins og skrúbbur og hunangið er hreinsandi, styrkjandi og bara alhliða gott, og hentar þessi kannski betur þeim sem eru með mjög viðkvæma húð eða mjög þurra. Og fyrir þær sem eru með mjög þurra húð er gott að bæta smá hunangi við hafrana til að fá auka raka. Svo bara gúrkur á augun, fætur upp í loft og slappa af.

Eins og ég sagði áður þá er ég naglalakksfíkill af verstu sort og er alltaf að snyrta á mér neglurnar og lakka með nýjum litum. Það skiptir máli að eiga almennilega tól til slíks og góð þjöl og naglabandaklippur skipta þar miklu máli. Naglabandaklippurnar fást á flestum stöðum sem selja snyrtivörur og eru nauðsynlegar til að snyrta svæðið í kringun neglurnar, mér þykir ekkert eins ljótt og að vera með fínt lakk en rifna húð allt í kringum neglurnar. Svo er að sjálfsögðu nauðsynlegt að vanda sig því ekkert naglalakk er betra en illa á sett naglalakk. Svo vanda sig - æfingin skapar meistarann!

 Ég skellti þarna á dökkbláum lit og setti glimmerrönd á til að breyta aðeins til. Dökka lakkið er frá OPI og heitir Light My Sapphire, og hitt er frá merkinu Ashanti og er númer 113G (þessi lökk fást í Zebra Cosmetique á Laugaveginum, virkilega skemmtileg búð með allskonar vörum, þá sérstaklega er ég hrifin af nakklalakksúrvalinu þeirra, það er mikið og þau kosta frá 199 og upp úr). Ég snobba lítið í naglalökkum og kaupi mér sjaldan lökk sem kosta mikið, verstu kaup sem ég hef gert var Chanel lakk sem ég keypti fyrir löngu á í kringum 4000 kr. Lakkið flagnaði af eftir tvo daga og liturinn varð ekkert líkur því sem hann var í flöskunni. Ég varð hundfúl og ákvað að ef ég splæsi í dýr lökk, þá verða þau allavega að vera gordjöss svo ef ég fæ ekki að prófa þessi dýru, þá sleppi ég þeim.

Eftir svona dekurkvöld þá er ég komin með fínar neglur og mjúka húð svo þessi kvöld eru nauðsyn fyrir sálartetrið annaðslagið. Svo hendi ég mér upp í sófa/rúm með góða bók og myntuteið frá Jurtaapótekinu og ef ég er heppin fæ ég kannski fótanudd - þá er kvöldið fullkomnað.