Saturday, November 22, 2014

Hinn fullkomni fataskápur - regla 3

3. Að hunsa annara manna ráð.

Þessi partur er frekar spes því að auðvitað er gott að nýta góð ráð. Málið er bara að ekki eru allir að reyna að hjálpa til þín vegna. Stundum er fólk bara hreinlega að reyna að vera dónalegt. Stundum er það vegna afbrýðissemi, stundum heldur það að skoðanir þess á þínum fötum séu bara það frábærar að því finnst sjálfsagt mál að deila því með þér - hvort sem þér líkar betur eða verr. En gerum mun á þeim sem ber að taka mark á og þeim sem ber að forðast að hlusta á.

Þeir sem vilja í alvörunni hjálpa eru þeir sem eru opnir og ekki dómharðir - í flestum tilfellum eru það þeir sem taka áhættur í tísku sjálfir. Það á þó ekki alltaf við því stundum er fólk það sjálfsöruggt að þó það kjósi ekki að gera mikið af tískutilraunum sjálft, þá getur það vel verið opið og jákvætt gagnvart því hjá öðrum. En margir eru þannig að þeim finnst bara sinn stíll vera flottur. Tökum sem dæmi að þú ferð að versla með vinkonu þinni og sú vinkona klæðir bara í svart, grátt og beige en þú ert hins vegar rósótta og skærlitaða týpan. Þú sérð einmitt neonbleikar buxur sem þér finnast geðveikar, þú mátar alveg ægilega spennt og sýnir vinkonu þinni. Hún starir á þig í smástund, fitjar svo upp á nefið og segir; "þetta er alveg ógeðslega bleikt, ég myndi aldrei kaupa þetta...". Nújá? Var einhver að biðja þig um að ganga í þessum buxum? Ég veit ekki hversu oft ég lent í svipuðum atvikum í gegnum tíðina og ég hef alltaf verið jafn hissa á svona "ráðgjöf". Og hvað gerist þegar þetta er öll hjálpin? Þú stendur þarna eins og kjáni í neonbleiku buxunum sem þú elskaðir stuttu áður og ferð að efast. Þú skoðar þig betur í speglinum og allt í einu er eins og að fallega bleiki liturinn sé orðinn of æpandi og lítur eiginlega kjánalega út. Þú smokrar þér úr buxunum, skilar þeim og kaupir þér "venjulegar" gallabuxur í staðinn og ert enn á smávegis bömmer yfir því að einhver skildi gjörsamlega gefa skít í þinn smekk.

Sumt fólk virðist ekki geta slitið eigin skoðanir frá þegar það metur og gefur álit þó að ekkert sé auðveldara en að fara yfir örfá atriði eins og hvort að sniðið klæði vel, hvort liturinn sé að gera jákvæða hluti fyrir hörundslit þess sem mátar, hvort þetta passar inn í skápinn og er efnið þægilegt? Þetta er svona grunnlisti sem þarf að miða við og það er mjög auðvelt að svara þessum spurningum jafnvel þótt að álitsgjafinn myndi aldrei ganga í flíkinni sjálfur. Þú vilt alltaf fá ráð hjá þeim sem gefur hreinskilið álit, en það er töluverður munur á því og að klína eigin smekk yfir á alla aðra. Sá sem gefur hreinskilið álit er sá sem gefur álit út frá þér, manneskjunni sem ætlar að ganga í flíkinni. Haltu þig við aðstoð frá þeim sem þekkja þig, eru opnir og jákvæðir, en eru einnig færir um að gagnrýna þegar þeim finnst vera þörf á og þú hefur beðið um það.

Sunday, November 9, 2014

Hinn fullkomni fataskápur - regla 2


2. Að fylgja eigin smekk. 


Þetta er eitt mikilvæasta atriðið þegar kemur að því að byggja upp góðan skáp. Þegar ég var yngri þá las ég endalaust margar bækur skrifaðar af hinum og þessum sérfræðingnum í málinu og varð alltaf jafn skúffuð á því að allir áttu að eiga sömu hlutina í fataskápnum sínum. Það var alltaf sama tuggan; "eitt svart fínt pils, einn svartur fínn kjóll, einar vel sniðnar svartar buxur, þrjár hvítar skyrtur...", og það var algjör nauðsyn að klæða sig eftir líkamsvexti. Til að mynda þá mátti ég eingöngu klæða mig í aðsniðnar flíkur til að sýna mittið og varð að passa að klæða mig ekki þannig að ég liti út fyrir að vera feitari, en það að vera yfir kjörþyngd er vitanlega höfuðsynd innan tískugeirans og öll fatakaup skulu takmarkast við það að klæða af sér kíló. Ég gafst ég fljótt upp á þessum bókum og gaf þær frá mér og fór í stað að sækja tískulegan innblástur út frá mínum eigin forsendum - í gegnum sjónvarp, bíómyndir og bækur og á konum í kringum mig og smám saman lærði ég að hunsa þá löngum til að falla í hópinn. Mér hefur tekist að þroska minn eigin smekk án hjálpar frá sjálfskipuðum sérfræðingum og veit núna hvað það er sem ég á að forðast, nú eða hlaupa í áttina að. Það er mikilvægt að hlusta á eigin skoðanir og láta annarra manna álit ekki stjórna því hverju þú vilt klæðast. Þú ert þinn eigin tískuráðgjafi, treystu sjálfri þér og hafðu gaman af því að móta þitt eigið útlit.

Linda.


Saturday, November 1, 2014

Haust haust haust

Það er kannski fullseint að skrifa um haustið núna, kominn nóvember og svona - en ég er samt ekki ennþá farin að upplifa vetur. Höfuðborgarsvæðið hefur að mestu verið laust við snjó og á meðan ég get farið út í hælum og þykkri peysu í staðinn fyrir kuldabomsur og úlpu, þá finnst mér sem sagt enn vera haust. Ég elska haustin og ég er sennilegast eina manneskjan á Íslandi sem hatar ekki vetur og myrkur. Ég elska allar árstíðir á sinn hátt (ég er svo rómantísk sjáið þið til) og tek vetrinum fagnandi með öllum sínum vondu veðrum og myrkri. Enda er það tími kertanna, kúrsins og huggulegheita.

Það er líka annað. Eins og ég hef skrifað um áður þá finnst mér haust/vetrartískan mun skemmtilegri heldur en sumartískan. Ég er ekki mannekjan sem elskar að vera í léttum stramdafatnaði alla daga og finnst fátt skemmtilegra en að klæða mig upp í peyusr, kápur, trefla og þess háttar. Reyndar er það svo að þegar sumarið lætur loksins sjá sig að þá er ég virkilega tilbúin til að klæða mig í í léttar og glaðlegar flíkur, fá freknur og fara í opna skó, svo kannski er bara ekkert að marka þegar ég segist elska eina árstíð frekar en aðra... Jæja, segjum bara það. að mér þykir gaman þegar árstíðaskiptin verða því þá er tækifæri til að hrista aðeins upp í fataskápnum og breyta til.

Og haustið og veturinn bjóða svo sannarlega upp á breytingar í fataskápum sem og í snyrtibuddunni. Ég á það til að liggja yfir Pinterest og þeim bloggum sem mér finnast skemmtileg til að fá hugmyndir og einfaldlega bara til að gleðja augað. Og það er sko ekki lítið úrval sem internetið býður upp á enda er ég búin að pinna eins og vitleysingur á Pinterest síðunni minni og það verður að segjast að þessi yfirlega mín reyndist mér vel, því þegar ég fór til Spánar núna október, þá verslaði ég skynsamlega og sit núna með frábærasta fataskáp sem ég hef nokkurntíman átt. Hann var svo góður að ég ákvað að skrifa bloggfærslu um það að byggja upp hinn fullkomna fataskáp og ég kem til með að birta þá færslu fljótlega. Í þeirri færslu ætla ég að taka mynd af hverri einustu flík til að sýna ykkur hvað þið eigið að kaupa til að eiga hinn fullkomna fataskáp og vera alltaf flott klæddar.

Djók.

En án spaugs. Ég var virkilega ánægð með það sem ég keypti og ástæðan fyrir því að þessi verslunarferð þarna á Spáni heppnaðist svona vel var vegna þess að ég var búin að setja mér nokkrar reglur um það hvernig ég ætlaði að versla. Ég veit að það hljómar kannski fáránlega, en það virkaði svona líka vel og þessar síðustu tvær vikur síðan ég kom heim hef ég hreinlega dansað af gleði þegar kemur að því að velja föt á morgnana. Og ég vil endilega dreifa gleðinni með þeim sem hafa gert sömu mistök og ég áður og setið uppi með heilan helling af flíkum og skóm sem sjaldan eru notaðar og finnst alltaf eins og úttroðni fataskápurinn sé tómur.

En fram að því þá valdi ég nokkrar myndir af pinterest síðunni minni sem eru búnar að veita mér tískulegan innblástur þetta haustið - rautt, pallíettur, berjavaralitir og þykkar peysur hér kem ég!


Friday, September 12, 2014

Barry M Gelly Hi Shine Lips


Ég hef lengi verið Barry M aðdáandi og þegar ég hef verið í Bretlandi þá hef ég keypt mér smávegis frá merkinu. Aðallega varaliti/gloss og naglalökk en það eru þeir hlutir frá þessu merki sem mér finnst vera hvað bestir. Einu sinni keypti ég mér eyeliner en hann var bara ágætur - sem er kannski bara gott fyrir 600 króna vöru. Ég er frekar hissa á því að þessar vörur hafi ekki verið fáanlegar hér á landi fyrr en nýlega, þegar vefverslunin fotia.is fór að selja þær, en þær eru mjög vinsælar úti og það skemmir ekki fyrr að Barry M gefur sig sérstaklega út fyrir að prófa ekki vörurnar sínar á dýrum.

Ég dreif strax í að kaupa tvö stykki af Gelly Hi Shine Lips þegar ég komst að því að ég gæti nálgast þetta í gegnum fotia síðuna. Þessir litir voru þá tiltölulega nýir frá merkinu og þar sem ég er algjörlega forfallinn varalita/gloss fíkill, þá var mig mikið búið að langa í þá. Þeir kosta tæp 5 pund úti, eða rétt tæpar 800 kr. stykkið en hjá fotiu kosta þeir 1890 kr. Það er þó nokkur munur og grátlegt að borga meira fyrir einn á Íslandi en tvo úti. En svona er þetta víst - álagning og sendingarkostnaður hafa mikið að segja. En þá að umfjöllununni.

Ég keypti, eins og ég sagði, tvö stykki, Vega (vínrauður) og Sirius (kóralbleikur). Mig langaði í einn léttan og annan dekkri fyrir veturinn og eftir að ég hafði googlað umfjallanir á netinu og séð myndir, þá urðu þessir litir fyir valinu. Ég pantaði á sunnudegi og borgaði rúmar fjögur þúsund krónur fyrir - inni í verðinu var keyrsla heim samdægurs sem ég vildi ólm fá, verandi óþolinmóðari en köttur sem er að fá túnfisk. Túnfiskurinn minn kom síðan rétt um kvöldmat og ég reif upp pakkan af ákefð.

Litirnir eru virkilega fallegir og pakkningin er handhæg, litaoddurinn er breiður og það er auðvelt að bera þá á. Það er sæt ávaxtalykt af þeim (ekki yfirþyrmandi) og litaagnirnar eru nokkuð þéttar sem þýðir að þeir eru ágætlega litsterkir. Sérstaklega Vega-liturinn. Litirnir eru með háglans og ég myndi segja að þeir væru meira skyldir glossum en varalitum.


Vega var meira í uppáhaldi heldur en Sirius - sennilegast vegna þess að hann var mun litsterkari. Sirius var miklu mildari og mér fannst hann minna mig meira á varasalva með lit, ekki gloss.


Eins og sést á myndunum þá var töluverður munur á styrkleikanum. Sirius er fallegur litur en helst til daufur að mínu mat. Virkar fínt til notkunar dagsdaglega ef maður er ekki í stuði fyrir eitthvað mjög áberandi.

Hins vegar þá eru þeir mjög klístraðir og ég finn alltaf fyrir litnum á vörunum, sem ég þoli sjaldnast. Ég fór því að blanda saman litunum við aðra varaliti til að minnka klessufílinginn, en sirius var afskaplega fallegur þegar ég notaði hann með öðrum kóralbleikum lit. Þá loksins poppaði hann eins og ég vildi. Síðan þá hef ég notað þá báða með öðrum litum og þá klessast varirnar síður saman. Endingin er heldur ekkert of góð, því miður. Ég held að það sé aðallega vegna þess hversu klessukenndir þeir eru og mér finnst eins og ég dragi litinn til á vörunum þegar ég loka þeim eða fæ mér vatnssopa (meiriparturinn verður eftir á glasbarminum). Stærsti gallinn er samt sá að þegar liturinn byrjar að nuddast af þá myndast rönd yst á vörunum þar sem liturinn safnast saman en ekkert verður eftir í miðjunni. Ég hata þegar það gerist svo þetta er stór galli. En þegar þeir eru notaðir með öðrum litum, þá verður þetta vandamál miklu viðráðanlegra. En samt ekki gott að þurfa að gera það.

Í heildina þá var ég þokkalega hrifin af Gelly Hi Shine Lips og það sem olli því að ég varð ekki fyrir algjörum vonbrigðum voru litirnir sjálfir en ég ætla ekkert að draga úr því að þeir eru bæði fallegir og klæðilegir. Pakkningarnar eru þægilegar og litlar líkur á því að eitthvað brotni auðveldlega (ég þoli ekki umbúðir sem gefa sig strax). En hins vegar þá er endingin ekki góð, klukkutími í mesta lagi ef ég drekk af glasi, þeir eru mjög klístraðir og liturinn eyðist úr miðjunni fyrst. Þeir eru æðislegir ef ég nota þá með varalitum í svipuðum tónum og þeir endast miklu betur þannig en ég ætti ekki að þurfa að nota aðra vöru með þeim til að verða ánægð með þá. Enda kosta þeir líka bara 800 kr. úti og ég myndi segja að þeir væru fínir miðað við það verð. Ef þið eigið kost á því að fara í Barry M og kaupa þá á því verði þá eru þeir þess virði, en því miður ekki á tæpar tvöþúsund krónur hérna heima. Ef ég versla frá fotia aftur þá held ég mig við eitthvað sem ég þekki frá merkinu því mig langar ekki að borga tvöfalt verð fyrir eitthvað sem stendur ekki undir þeirri upphæð.

Sunday, August 31, 2014

Að koma út úr bloggskápnum

Eitt af því sem ég þurfti að hugsa um í sumar var hvernig ég vildi nálgast bloggið mitt, hvað ég væri að spá með því og hvað ég vildi fá út úr því. Því þótt ég sé að brölta þetta þá hef ég mjög ákveðnar skoðanir á tilgangi svona blogga. Ætli sé þá ekki bara best fyrir mig að koma hreint til dyra og viðurkenna að ég þoli bara takmarkað af þeim bloggum sem eru þarna úti. Mér finnast þau mörg hver vera pirrandi, heimskuleg og yfirborðskennd. En þrátt fyrir þessi stóru orð þá finnast mér mörg blogg frábær, það er nefnilega til fullt af bloggum sem eltast ekki við normið og eru vel skrifuð með góðum og skemmtulegum umfjöllunum um fatnað, snyrtivörur og lífsstíl. Mig langar að skrifa eitthvað í líkingu við þau - eitthvað sem er skemmtilegt og nýtist fólki en er ekki stökkpallur fyrir mig út í hafsjó af fríu drasli og miðum á fremsta bekk á RFF með VIP passa baksviðs.

En hvar stend ég þá í allri þessari umræðu?

Hér á eftir kemur smá pistill til að útskýra afstöðu mína gagnvart þessum heimi. Sumt hef ég talað um áður en mér fannst betra að summa þetta upp í eina grein svo að þeir sem kjósa að lesa bloggið mitt geti skilið hvaða stefnu ég hef fyrir það.

Í fyrsta lagi þá finnst mér ég þurfa að koma aðeins inn á afstöðu mína gagnvart útliti almennt.

Er það grunnhyggið að hafa svona mikinn áhuga á því? Ég veit það svo sem ekki en ég er alltaf þeirrar trúar að hver og einn eigi að gera það sem kemur honum náttúrulega, þ.e. að hafir þú áhuga á snyrtivörum (bílum, púsluspilum, vott ever) þá áttu hiklaust að láta eftir þér að sinna því áhugamáli. Alveg sama hvað öðrum finnst um það. Og nei, ég er ekki að segja að ef þú hefur áhuga á því að sparka í hvolpa að þá sé það í lagi.

Fyrir mig þá snýst þetta um svo miklu meira en bara að eiga sem mest af drasli sem aðrir geta öfundað mig af. Föt eru ekki bara föt fyrir mér, ég elska hvernig þau geta gefið til kynna hvers konar persónuleika þau klæða og að sama skapi þá elska ég að tjá sjálfa mig í gegnum fötin mín. Það er ein af mínum leiðum til að koma Lindu til skila til samfélagsins og til sjálfrar mín. Það kemur því ekki á óvart þegar ég segi að ég klæði mig oftast eftir tilfinningum. Suma morgna vakna ég og ég finn að ég er í "mjúku" skapi og þá fer ég beinustu leið í fataskápin og vel í samræmi við það. Í svoleiðis skapi verður t.d. ofurmjúk peysa fyrir valinu. Aðra morgna vakna ég og mig langar að vera kúl (já, suma daga reyni ég í alvörunni að vera kúl og ég viðurkenni það fúslega). Þá fer ég í hologram skóna mína og klikkaðar buxur. Vitanlega miðast þetta allt við veður og aðstæður líka, ef það er kuldi úti og ég í sumarskapi þá fer ég bara skærlitaða peysu en ekki stuttbuxur og strigaskó. Ég myndi heldur t.d. aldrei nokkurntíma pakka niður öðru en útivistarfötum þegar ég fer í útilegur því ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þá er ekki tími til þess að láta tilfinningar stjórna ferðinni - þá ræður landið og veðrið hverju ég klæðist.

En þrátt fyrir að ég segist vilja klæða mig kúl einn daginn þá þýðir það ekki að ég sé að gera það fyrir aðra eða að ég sé að vonast eftir að fá hrós fyrir það að vera kúl. Mér líður bara "kúl föt í dag" suma daga og þá vel ég þannig fatnað. Ég lýg engu þegar ég segi að ég klæði mig alltaf fyrir sjálfa mig - og ef einhver hrósar mér fyrir það þá er það bara gott og blessað, ef ekki, þá er ég að minnsta kosti ánægð með það hvernig ég lít út. Það skiptir mig miklu máli hvernig ég sé sjálfa mig, hvernig mér líður í mínu eigin skinni og hvað ég býð speglinum upp á. Ég vil líta í hann og hugsa "mikið ertu nú fín í dag" og líða vel með það. Litir, áferð og snið er eitthvað sem mér þykir dásamlega skemmtilegt að spá í og samsama við minn persónuleika og þegar ég vel á mig flíkur úr fataskápnum á morgnana, þá er það ekki bara til að koma í veg fyrir að ég gangi nakin um. Það sama á við um skart og förðunarvörur, ég nálgast það líka með sama hugarfari og mála mig eða set á mig skartgripi í samræmi við skap og aðstæður. Suma daga (eins og í dag) þá langar mig að vera með áberandi hálsmen, aðra daga þá vil ég ekki setja á mig neitt. Suma daga þá mála ég mig meira, aðra minna. Ekkert af þessu geri ég vegna samfélagslegs þrýstings eða til að fá fleiri læk á facebook fyrir að vera flott og sæt. Málið er einfalt, ef Lindu líkar það sem hún sér í speglinum, þá er Linda búin að ná takmarkinu.

En annars, ef fólki finnst ég vera grunnhyggin, þá er það svo sem í lagi. Það er nóg að ég viti að Linda er meira en bara föt og snyrtivörur.

En hvað svo sem grunnhyggni varðar þá langar mig til að blogga um þessa hluti vegna þess að ég hef gaman af því að lesa um slíkt hjá öðrum og hef áhuga á að taka þátt í umræðunni. Planið er ekki að verða vinsæl og lifa af þessu, heldur til að fjalla um eitthvað út frá sjónarhóli áhugamanneskju sem elskar föt en hatar tísku. Þegar ég segi þetta þá á ég við að þrátt fyrir að ég elski föt þá hefur tískutengingin alltaf farið í taugarnar á mér. Ég er ekki að segja að ég viljandi forðist að kaupa það sem er vinsælt en maður lifandi, það er pirrandi þegar ákveðnum hlutum er ýtt að manni við hvert tækifæri og svo enda allir á því að vera um það bil eins.

Það er líka önnur hlið á þessu; að klæða sig ekki í tískufatnað til að meðvitað fylgja ekki tískunni. Ef þú klæðir þig ekki í eitthvað, málar þig eða skreytir vegna þess að þér finnst það ekki henta þér, þá er það bara gott mál. Ef þú hins vegar viljandi forðast eitthvað vegna þess að þú vilt ekki beygja þig undir samfélagsnormið, þá ertu í rauninni að fara eftir þrýstingi frá samfélaginu. Því ef þú ert ekki að sinna útlitinu fyrir þig heldur til að sanna eitthvað (sama hvort þú ert að reyna að falla í kramið með að kaupa "réttu" fötin eða kaupir þau ekki til að fara í hina áttina) þá er eitthvað annað þú sjálf að stjórna því sem þú klæðir þig í/setur á þig. Viðmiðið ætti alltaf að vera að þér finnist eitthvað flott og það klæði þig vel. Skítt með hvar á tískuskalanum það stendur.

Svo þarf vitanlega að hafa í huga í þessum heimi okkar sem er gjörsamlega gegnsýrður af auglýsingum og myndum, að ef maður sér einhvern hlut nógu oft (á mismunandi bloggum, á stelpum/konum í kringum sig til dæmis) þá er eins og að heilinn í manni segi, "þú ÞARFT að eiga þetta". Gott er að taka smá bakkskref frá auglýsingaflóðinu og hugsa um hvort að manni finnist viðkomandi hlutur virkilega flottur eða hvort að löngunin til að líkjast uppáhaldsbloggaranum sé að stjórna því að manni langi að kaupa eitthvað. Að gera þetta gæti mögulega sparað manni þó nokkra peninga. Það á aldrei að vera kvöð að klæða sig og skapa sér sinn stíl. Ekki láta neitt annað en sjálfa þig stjórna því hvað þú kýst að láta á kroppinn.

Þegar ég skoða tískublogg eða annað efni sem tengist á einhvern hátt útliti þá geri ég það til að fá hugmyndir og innblástur fyrir mitt eigið útlit en ekki til að kaupa heildarlúkkið frá einhverjum öðrum. Blogg sem hafa þann eina tilgang að fá þig til að kaupa nákvæmlega það sem þau eru að sýna (og mörg hver eru alveg rosaleg hvað þetta varðar) eru ekki ofarlega á lista hjá mér. Þegar fólk bloggar fyrir peninga, frítt drasl eða eða til þess að verða vinsælt, þá er markmiðnu tapað finnst mér. Það er ekkert athugavert við það að vera vinsæll bloggari eða að fá greitt fyrir t.d auglýsingar sem settar eru á bloggið, en það er fín lína á milli þess að auglýsa og auglýsa. Ég er til dæmis tæknilega séð að auglýsa ákveðin fyrirtæki þegar ég fjalla um vörur frá þeim en munurinn á mér og mörgum öðrum er sá að ég fæ ekkert frítt dót eða peninga fyrir það. Ég græði ekkert á því að setja viðkomandi vöru inn á bloggið annað en að geta bloggað um hana. Við getum sagt að ég fái ánægjuna af því að eiga dót sem mig langar að benda öðrum á (eða vara við). Ég er því afskaplega frjáls í minni umfjöllun og þarf ekki að óttast það að styggja fólk ef mér líkar varan ekki nógu vel. Ef einhverjum er greitt fyrir vöru eða fær hana fría gegn því að fjalla um hana, þá vitanlega kemur það til með að hafa áhrif. Ég kem aldrei til með að trúa öðru. Ég veit vel að fólk tekur fram að það fjalli bara um vörur sem því líkar vel við og finnst að það ætti að vera alveg nóg, en ég set spurningarmerki við það einfaldlega vegna þess að ég neita að trúa að allt þetta magn af dóti sem fer í gegnum sum blogg fái jákvæða umfjöllun. Í öllu þessu draslflóði hlýtur eitthvað að vera bara la la eða hreinlega lélegt. Ef bloggari sýnir mikið af dóti og hvert einasta snitti sem þar dettur inn er "æðislegt" og algjörlega "möst have stelpur" þá hef ég mínar efasemdir og kýs að lesa það blogg ekki. Svona fyrir utan að ef ég les "þennan varalit verða allar að eiga" þá ertu búin að missa mig sem lesanda. Ég les ekki blogg eða annað til þess að láta segja mér hvað ég þarf að eiga, ég les þau til að fá almennilega og hreinskilna umfjöllun svo ég geti nýtt mér það hafi ég áhuga á að kaupa viðkomandi vöru.

Þessar auglýsingaherfðir hjá sumum bloggurum og öðrum miðlum valda því að allir eru að eltast við sama draslið og vilja líklega oft eignast eitthvað vegna þess að það er orðið að ákveðnu stöðutákni - hvers vegna annars myndi eitt stykki blómavasi, eins og ég er búin að sjá á facebook ítrekað upp á síðkastið, verða svo vinsæll að allir vilja hann? Er það vegna þess að í rauninni þá hefur fólk svona svipaðan smekk? Eða er það vegna þess að vinsælt tímarit eða bloggari eru búin að búa til einhverja spennu í kringum hann sem veldur því að fólki finnist það þurfa að eignast hann? Langar fólki virkilega í þennan blómavasa eða er það að reyna að vera jafn smart og töff og vinsæli bloggarinn? Mér er alveg sama hvaða blómavasa fólk kaupir sér, en pressan á því að eiga réttu hlutina keyrir stundum um þverbak. Gott fólk, látum ekki aðra ákveða fyrir okkur hvað við kaupum.

Ég hef engan áhuga á að verða auglýsingabæklingur og er hér til þess að skapa afþreyingu fyrir sjálfa mig og aðra. Ég get lofað því að ef bloggið mitt verður einn daginn agalega vinsælt að þá breytist það ekkert. Ég er ekki hér til að segja þér hvað þú átt að kaupa, hvað þér eigi að finnast, hvernig rétt sé að klæða sig eða hvað sé inn. Þetta er kannski frekar eins og opinber dagbók fyrir eitt af mínum áhugamálum sem mig langar gjarnan að deila með þér. Kannski finnst þér skemmtilegt að lesa þetta án þess að spá frekar í það, kannski kveiki ég í einhverju hjá þér hvað tísku varðar. Kannski fær mynd af mér í rauðum buxum þig til þess að hugsa "hún þorir alveg að ganga í svona buxum. Ég þori því ekki. Ég ætti kannski bara að prófa sjálf úr því að mér finnst hún vera svo fín í þeim. Kannski væri ég bara æðislega fín í þeim líka". Mig langar til að skrifa efni sem er skemmtilegt og létt, með smá dassi af mannlega partinum (já, það er pistill í vinnslu sem tekur á því hvernig 31 árs gamalli konu í yfirþyngd gengur að halda úti tískubloggi á Íslandi, erfitt stöff gott fólk) og ég kem til með að skrifa meira af þannig efni með tengingu við útlitsheima. Í framhaldi af því ætla ég ekki að taka fram undir tískumyndnum hvaðan ég kaupi vöruna og með link inn á hvar hún er seld, ég kem örugglega til með að nefna eitthvað í textanum sem fylgir en ef ekki, þá geturðu bara spurt í athugasemdunum ef þú ert það áhugasöm. Ég kem til með að segja hreinskilnislega frá því hvað mér finnst, ef eitthvað er lélegt að mínu mati, þá segi ég það og útskýri hvers vegna. Ég er ekki að reyna að láta lif mitt líta út fyrir að vera fullkomið með stanslausum myndum af mat á veitingahúsum, dýru eða nýju dóti eða fallegum myndum af hverju því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég bý ekki í Ittala-skreyttum heimi þar sem öll eldhúsáhöldin eru versluð í Hrím og ég er ekki að reyna að láta það líta út fyrir að það sé svoleiðis. Ég hef keypt bolla í Tiger og viðurkenni það fúslega. Ég ætla ekki að hvetja þig til að kaupa fimm mismunandi liti af sama naglalakkinu sem kostar nokkra þúsundkalla stykkið - hver þarf birgðir af naglalökkum fyrir 20 þúsund? Ég vil hins vegar hvet til þess að finna út hvað hentar þér svo þú kaupir þér eitthvað sem þú elskar og notar mikið.

Jæja lesandi góður. Þá er pistlinum lokið. Vonandi hef ég náð að fara yfir vel flest það sem mér finnst skipta máli fyrir grunninn í þessu bloggi og vonandi hafa sem flestir gaman af því að lesa í framtíðinni. Hér í lokin er svo smá beljukoss fyrir að nenna að lesa blaðrið í mér ;)

Saturday, August 23, 2014

Hvítur jakki


Jæja. Ég sem lofaði því að blogga meira.... Já, svona er þetta stundum. Ég er búin að ætla að setjast niður svo oft í allt sumar en svo bara púff, ágúst að verða búinn. Það er ýmislegt búið að vera í gangi síðan þá. Í fyrsta lagi þá er elsku besta tölvan mín gjörsamlega að verða búin á því og hún höndlar mjög illa að vinna myndirnar mínar sem eiga að fara á bloggið - þær eru bara orðnar of stórar fyrir hana þar sem hún er orðin gömul og lúin og það eitt veldur því að ég hef varla nennt að standa í að vinna myndirnar. Núna er ég að nota tölvuna hjá kærastanum og það er þvílíkur draumur að geta pikkað inn án vesesns (ég gerðist svo fræg að ryksuga u-ið mitt í burtu fyrir nokkrum árum og það er óþolandi að skrifa u-laus. Kláraði samt háskólanámið án þess og ég ætti að fá verðlun bara fyrir það). Plús að það tekur ekki 5 mínútur að vista eina mynd sem ég er búin að vinna fyrr bloggið. 

Í öðru lagi þá er ég búin að vera uppteknari en forsetinn. Það er vissulega lygi en ég er búin að hafa mikið að gera síðan 3. mars síðastliðinn. Þann dag varð ég verslunarstjóri í búð á Laugaveginum sem heitir fóa ásamt því að vera í 20 einingum í háskólanum. Þetta gerðist allt svo hratt og allt í einu var ég lent í algjörlega öðruvísi aðstæðum en ég hafði átt von á um áramótin. Ég kláraði listfræðina í HÍ síðastliðið sumar en skráði mig í sagnfræði aftur þá um haustið. Ástæðan fyrir því var meðal annars sú að ég var skíthrædd við að verða atvinnulaus. Ég hef einu sinni á ævinni verið atvinnulaus, haustið 2009 í heila fjóra mánuði, og það var einn ömurlegasti tími lífs míns. Það fer alveg skelfilega með mann að senda út umsókn eftir umsókn, fá aldrei svar eða bara "nei", aftur og aftur. Sjálfstraustið var komið niður í ræsið og mér fannst ég gjörsamlega glötuð. Ég fékk reyndar vinnu á endanum þar til að ég byrjaði í HÍ og enn í dag hugsa ég stundum til þess tíma þegar ég sat grátandi við tölvuskjáinn að lesa "því miður hefur verið ráðið í starfið", nú eða þá að opna tölvupóstinn tuttugu sinnum á dag til þess eins að sjá að ekkert svar hafði borist frá öllum þeim sem ég sótti um hjá. Af hreinum ótta skráði ég mig í sagnfræðina svo ég hefði þá alla vega það til að sinna ef lítið yrði um vinnu. Ég sótti og sótti um vinnu og var orðin gjörsamlega vonlaus um að finna eitthvað sem hentaði mér. Hlutastarfið mitt í Dorothy Perkins var ekki nóg og eftir nokkra mánuði sagði ég upp þar því mér fannst þá bara skynsamlegast að taka sagnfræðina föstum tökum þar sem enga fulla vinnu var að fá. En þá gerðist það. Ég fékk vinnuna í fóu. Ég man ekki einu sinni almennilega eftir því að hafa sótt þar um. Ég var farin að hafa rútínuna þannig að ég sá auglýsingu og án þess að spá eitthvað sérstakt eða gera mér vonir þá ýtti ég bara á "send" og lét umsóknina fara. Nokkrum vikum síðar þá var ég komin með vinnuna. Og ekki bara einhverja vinnu heldur æðislega vinnu. Svona gerast nú kraftaverkin stundum. En það allt er efni í annan póst.

Ég er síðan búin að vera springa úr sköpunargleði, ég mála, mynda, teikna. prjóna og bara það sem mér dettur í hug og ég hef ekki tíma til að gera allt sem mig langar að gera. Og þar á meðal gaf ég mér ekki tíma í bloggið. Sem var kannski bara ágætt því ég fékk þá nægan tíma til að hugsa um hvað ég vildi ná út úr þessu bloggbrölti mínu, ég er búin að vera að skipuleggja mikið í hausnum á mér hvað það varðar og það er ýmislegt sem mig langði að gera öðruvísi hérna inni. Svo það verða smávegis viðbætur við myndirnar og léttu tiskuumræðuna :) Mikið hlakka ég nú til að fara að blogga aftur!

En já, að myndunum sem ég ætla að láta fylgja með í þetta skiptið. Þessar voru teknar á Gay Pride - veðrið var fallegt og mér fannst tilvalið að fara í skrautlegri skyrtu og hvítum jakka í bæinn. Ég er búin að þrá að eignast hvíta yfirhöfn síðan ég man ekki hvenær en fann ekkert sem heillaði mig upp úr skónum fyrr en ég fór í Centro á Akureyri þegar ég var þar um versló. Þar blasti við mér þessi æðislegi jakki og ég keypti hann án þess að hugsa mig tvisar um - hann var bara einfaldlega of flottur til að bíða eitthvað með það. Skyrtuna keypti ég líka á Akureyri, í Imperial, nánar tiltekið en buxurnar eru úr Lindex. Og ég elska þær. Ég keypti þær síðastliðið vor og ég er búin að nota þær svo mikið, þær eru æðislegar við skyrtu girta niður í þær og flotta skó við. Michael Jackson fílingurinn í heildarsamsetningunni var ekki fyrirfram planaður en ég sé núna þegar ég skoða myndirnar að ég hefði að sjálfsögðu átt að útvega mér hatt og hanska og taka þetta alla leið. Kannski næst bara ;)





Saturday, May 24, 2014

Gæran


Fyrir nokkrum vikum komu nýjar vörur í fóu (já ég er sko komin í nýja vinnu í æðislegri verslun, segi frá því seinna) sem ég kolféll fyrir en það voru gærukragar og skinntreflar í alls konar útfærslum og litum. Ég var mest skotin í þessum svarta sem er á myndinni og mátaði hann oft og hugsaði með mér að ég ætlaði sko að eignast hann. Nema hvað ég beið of lengi og hann seldist í dag! Ég hélt andliti fyrir framan konuna sem keypti hann en hins vegar öskraði ég inn í mér "my god why??!" og fór næstum að grenja. Djók. En ég var alveg svekkt. Konan sem keypti hann var samt afskaplega fín með hann og hæstánægð með kaupin svo það var bara gott mál. Við fáum líka fleiri kraga seinna og ég veit að þar leynist einn handa mér. Næst ætla ég samt ekki að bíða svona lengi, það er klárt mál. Ég náði þó allavega þessari fínu mynd af mér með hann til að setja á bloggið, það er skárra en ekkert :D

Sunday, May 18, 2014

Besti maskari í heimi?



Ég fór á snyrtivörufyllerí eftir afmælið mitt í lok febrúar þar sem ég fékk peninga í afmælisgjöf. Í öll þau skipti síðustu ár sem ég hef fengið pening í gjöf þá hefur sá peningur alltaf farið í að safna fyrir einhverju, myndavél, ferð út eða öðru slíku og þó það hafi verið "money well spent" í hvert einasta skipti þá ákvað ég bara að láta vaða núna og geyma ekki peningana. Ég hef yfirleitt verslað snyrtivörur þannig að ég kaupi bara það sem mig vantar þegar viðkomandi hlutur klárast og á meðan ég var í skólanum þá keypti ég yfirleitt alltaf það ódýrasta sem ég komst upp með því ég hafði hreinlega ekki pening til að kaupa það nýjasta og dýrasta í hvert skipti. 

Þess utan þá kaupi ég ekki dýra hluti undir vissum kringumstæðum því þó að ég elski snyrtivörur þá get ég hreinlega ekki réttlæt stanslaus kaup á einhverju sem ég þarf bara alls ekki og þaðan af síður ef það kostar handlegginn af. Ég tala sennilegast ekki fyrir hönd margra þegar ég skil ekki kaup á varalit á yfir 5000 krónum stykkið. Ég elti ekki "trend" í snyrtvörum og það heillar mig ekkert þegar mér er sagt að "þetta eru sko litirnir í sumar" í snyrtivöruverslunum. Ég er þver, ég veit. En ég vil alltaf velja snyrtivörur (fatnað, heimilisbúnað osfrv.) á mínum forsendum, ekki vegna þess að það er í tísku. Ég hunsa ekki hluti vegna þess að þeir eru í tísku en ég myndi aldrei fyrir mitt litla líf kaupa eitthvað sem ég er ekki hrifin af bara vegna þess að einhver ákvað að það væri "inn". 

Svo allt í einu átti ég smá pening til að splæsa í eitthvað nýtt og flott og ég hugsaði með mér hvort ég ætti ekki að kaupa eitthvað sem allir virðast elska og tékka á því hvort að það væri þess virði. Mér datt í hug að fara í MAC og skoða varaliti því ég er varalitaperri að eðlisfari og allar bjútísíður heimsins virðast elska varalitina frá þeim. Ég hef aldrei átt slíkan grip og á þessu viðkvæma augnabliki fannst mér ég vera geðveikt hallærisleg fyrir að taka ekki þátt í kaupæðinu og eiga engan kúl varalit (flestir mínir varalitir eru frá NYX, Max Factor, The Body Shop og fleirum í þeim dúr). Ég stormaði því með litla bróður mínum upp í Kringlu (þessi elska nennti í alvöru að koma með mér og halda mér félagsskap á meðan og segja skoðun sína á því sem ég sýndi honum þrátt fyrir afskaplega takmarkaðan áhuga á snyrtivörum) og við fórum í MAC. Þar var afskaplega ljúf stelpa sem sýndi mér varaliti í bílförmum en sama hvaða lit ég prófaði á mér, þá fannst mér enginn þeirra gera neitt sérstakt fyrir mig. Og svo þegar ég leit á verðið og sá að þeir kostuðu yfir fimmþúsundkalli stykkið, þá lagði ég þá frá mér og sagðist ætla að hugsa málið. 

Ok. Gott og vel. Ég hafði ætlað af gefa undan auglýsingafarginu og kaupa eitthvað sem mér hafði hingað til ekki fundist ég þurfa að eiga því ég á heilan helling af ódýrari varalitum sem eru æði. Ekki misskilja mig, ég vil ekki bara kaupa ódýra hluti - ef ég sé eitthvað æðislegt sem passar mér þá er ég ekkert feimin við að splæsa því á mig ef ég get en mér fannst bara of mikið að kaupa einn varalit fyrir þennan pening. Sérstaklega þar sem ég vissi að ég gæti farið niður í The Body Shop og fengið miklu meira af góðum vörum fyrir svipaða upphæð. Og það var einmitt það sem ég gerði. Ég fann æðislegan varalit, bronzer og augabrúnalit fyrir 6700 kall og þetta hefur allt saman staðist undir væntingum. Svo ég sá ekki neitt eftir því að hafa hætt við varalitinn og ég hef heilan helling til að skrifa um hérna á blogginu úr því ég er búin að prófa svona margt nýtt :)

En hvað sem þessum MAC varalita útúrdúr líður þá keypti ég líka nýjan maskara því sá sem ég átti var búin og var bara alls ekki það góður. Reyndar hef ég aldrei fundið "hinn eina rétta maskara" og ég hef bæði keypt þá dýra og ódýra. Síðast var ég að nota maskara frá Max Factor sem var fínn en molnaði of mikið og ég varð stundum svört undir augunum eftir hann sem var alls ekki nógu gott því pöndulúkkið heillar mig ekki. Ég ákvað að prófa Rocket Mascara frá Maybelline, bara eiginlega út í loftið, minnti að ég hefði lesið góða dóma um hann og greip hann bara úr hillunni í Hagkaup og vonaði það besta. Og þessi maskari er sá besti sem ég hef prófað. Það er bara ekkert flóknara en það. Ég tók reyndar vatnsheldu týpuna af honum alveg óvart svo kannski er hin týpan síðri en ég get alla vega mælt með þeim vatnshelda. Og þá kemur viðvörunin. Ég hef bara aldrei lent í neinum maskara sem helst svona vel á. Hann gjörsamlega haggast ekki. Og til að sýna hversu vel hann tollir og hve lítið molnar niður af honum þá tók ég mynd af mér klukkan tíu um kvöld. Ég setti hann á mig klukkan níu um morguninn, var í vinnunni allan daginn, kom heim og lagði mig í hálftíma og fór síðan beint á jiu jisu æfingu þar sem ég tók vel á því. Og svona leit ég út eftir allt þetta. Ég hvorki þurrkaði undan augunum né bætti á maskarann og hann leit enn út fyrir að hafa verið ný settur á og aunghárin voru enn dökk og þétt. Það þarf því varla að taka fram að nauðsynlegt er að fjárfesta í olíuhreinsifarða til að ná honum af. Ég keypti minn í The Body Shop og hann er bara mjög fínn - ég set vel í bómull og læt hana liggja örstutt ofan á augnhárunum áður en ég byrja að þrífa hann af. Þetta kvikindi fer ekki af í sundi, sturtu né þegar ég grenja heilan helling (leiðinda linsuatvik átti sér stað en ég var alveg laus við pönduna þrátt fyrir það) en ef maður er með góðan hreinsi þá er það lítið mál. Burstinn sjálfur er úr gúmmíi og með stuttum göddum í staðinn fyrir burstahár, ekki alveg mitt uppáhald en virkar mjög vel á þessum. Það er auðvelt að setja hann á og þekja öll hárin og hann er fljótur að þorna svo litlar líkur eru á því að enda með augnhárafar á augnlokinu. Hann molnar ekkert og augnhárin þykkjast vel og lengjast. Hann heldur líka allan daginn sveigjunni sem myndast eftir augnhárabrettarann, sem er stór plús í mínum bókum. Ég held því að ég sé barasta kominn með besta maskarann hingað til - áfram Mabeylline :)






Wednesday, April 30, 2014

Halló aftur!



Já góðann daginn. Lofaði ég ekki í síðustu færslu að vera dugleg að setja nýtt efni inn? Mig minnir það. En svo bara varð allt kreisí í orðsins fyllstu merkingu. Það byrjaði eiginlega um afmælishelgina mína og var bara að ljúka núna fyrir svona kortéri. Eða svona rétt um það bil. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá mér að mér finnst hausinn á mér varla vera skrúfaður fastur á og það hafa safnast svona milljón hlutir upp sem mig langar að klára. Til dæmis eins og eina nýja færslu hérna á blogginu því ég er sko búin að sanka að mér efni allan þennan tíma sem ég var í "fríi" og það er nóg framundan. Og í þetta skiptið þá lofa ég að hverfa ekki í næstum tvo mánuði! Ég ætla að hafa þessa færslu tiltölulega stutta og láta myndirnar tala - ég þarf að koma slatta af öðru fyrir í kvöld. En mikið er nú gaman að hafa tíma til að blogga aftur.

Síðasta laugardag var veðrið yndislegt og þar sem ég var svo sumarlega klædd í ljósa Topshop kimonoinn minn þá fannst mér tilvalið að smella af nokkrum myndum. Klukkan var níu um kvöld og þó ég stæði í rúman hálftíma úti á örþunnum kimono og topp, þá varð mér ekki kalt. Það er greinilegt að sumarið er á leiðinni. Víííí!


























Monday, February 17, 2014

Fallegur laugardagur með smá blúndu og loði

Skyrta: Júníform, skór: Halldora.com, kápa: Ebay, leggings: Centro Akureyri

Jedúdda, það er búið að taka mig langan tíma að koma þessari bloggfærslu frá mér. Myndirnar voru teknar á laugardeginum um þarsíðustu helgi og ég bara lét þær sitja í tölvunni án þess að gera neitt. Ja, ég hafði það af að velja úr myndirnar sem mig langaði að hafa en ekkert meira en það. Stundum er þetta svona, ég hef fullt að gera en svo kem ég engu í verk nema því sem nauðsynlega þarf að sinna - þrífa heima hjá mér, ja eða að halda í horfinu í það minnsta, læra það allra nauðsynlegasta og mæta í vinnuna. Annað situr bara og bíður á meðan ég hlunkast niður í sófann eða fyrir framan tölvuna (að gera ekkert nema hangsa). Og öll ókláruðu verkefnin verður sífellt rísavaxnara með hverri mínútunni. Svo ég enda á að gera ekkert. Er einhver annar sem glímir við svona tímabundin leti/framtaksleysistímabil?

En nóg af kvarti! Við nýttum þennan afskaplega ljúfa laugardag í ýmislegt skemmtilegt. Þetta var fyrsti sólríki dagurinn sem ég man eftir síðan löngu fyrir jól og hann var virkilega fallegur. Þetta er ástæðan fyrir því að ég elska febrúar, sólin er komin hátt á loft og það er bjart úti. Ekki misskilja mig, ég elska líka dimmu dagana í krinum jólin og öll kósýheitin sem þeim fylgja en eftir myrkrið í janúar þá er ég svo innilega tilbúin í birtu og sól. Á fimmtudagskvöldið síðasta þá tók ég einmitt rosalegt Gossip Girl maraþon og vakti langt fram á nótt og svaf síðan til hádegis á föstudeginum, og þegar ég vaknaði þá var herbergið baðað sólarljósi. Ég veit fátt yndislegra en að vakna í fallegu veðri og þegar sólin skín þá verð ég alltaf svo glöð og kát. Svona eins og hundur sem dillar skottinu þegar hann fær nammi. En aftur að laugardeginum. Ó mæ god hvað ég get blaðrað stundum! Allavega, við drifum okkur í sund (er til betri leið til að njóta sólarinnar heldur en að fara í sund?), síðan á sýningaropnum á Kjarvalsstöðum, þar á eftir stoppuðum við til að taka nokkrar myndir og fengum þetta líka æðislega sólarlag og að lokum settumst við inn á kaffihús á Laugaveginum og skiptum með okkur eplakökusneið. Við rúntuðum heillengi áður en við ákváðum hvaða staður væri hentugur fyrir myndatökuna og enduðum svo á að stoppa í götu rétt hjá Landsspítalanum (man ekkert hvað hún heitir samt) vegna þess að sólarlagið sást vel þaðan og umhverfið var æði. 

Ég var í uppáhaldskyrtunni minni, já mikið rétt, hún er frá Júniform, en ekki hvað? Og við hana skellti ég mér í loðskóna mína frá Halldoru.com, leðurlíkisleggings sem ég keypti í Centro á Akureyri og yfir þetta fór ég svo vitanlega í blettatígurskápuna mína sem ég fékk á 5000 kall frá Ebay hérna um árið. Það var eiginlega tilviljun að ég fór eingöngu í flíkur sem eru í miklu uppáhaldi - mér þykir vænt um öll fötin mín en sum eru bara í meira uppáhaldi en önnur - og mér fannst ég vera ægilega fín og sæt þegar við fórum á listasafnið. Og er það ekki mest krúsjal atriðið þegar maður klæðir sig, að líða vel í fötunum sínum? Ójú. Alveg eins og það er krúsjal að fá sér grillaðar ostapylsur með kartöflustöppu í útilegum á sumrin (eða er það bara ég?). 

En annars þá vil ég biðjast afsökunnar á myndaorgíunni, ég gat bara ekki valið á milli mynda þar sem sólarlagið var svo fallegt. Það var ekki svona erfitt vegna þess að mér fundust myndirnar af MÉR vera svona rosalega góðar. Ég er eiginlega þvert á móti að setja inn slatta af myndum af mér sem mér finnast ekki vera neitt svo frábærar, ég hef alveg myndast betur, það verður að viðurkennast en þar sem ég hef aldrei áður stuðst við vegg í myndatöku þá áttaði ég mig ekki á því að þegar ég halla mér svona upp að honum þá myndast þessi líka skemmtilega "hliðarundirhaka" sem setti voða huggulegan svip á allar myndirnar. Ég var pínu pirruð þegar ég sá meinta hliðarundirhöku og íhugaði um stund að fótósjoppa hana í burtu en ákvað svo að hætta þessu rugli og bara láta þetta vera. Ég er með svona höku/háls og þau verða bara að fá að vera með og ekkert væl. Engin megrun kemur til með að breyta þessu þar sem ég hef verið töluvert grennri og þá var ég líka svona, svo bara só sorrý Linda, sættu þig við að svona ertu. Sem ég geri alveg. Oftast að minnsta kosti. 
















Thursday, February 6, 2014

Bleikt á bleikt

Kápa: Topshop, skyrta: Vila, gallabuxur: Dorothy Perkins, Skór: Topshop, hálsmen: Topshop, taska: Centro, hringar: Topshop og Lindex
Jæja, þá var bleika kápan loksins mynduð þó að ég sé búin að eiga hana síðan um jólin. Ég elska hana og hef varla farið úr henni síðan hún varð mín. Mér finnst æðislegt að eiga vetraryfirhöfn sem er ekki í dökkum lit og þessi fallega pastelbleiki litur bæði lyftir upp skapinu í sólarskortinum og passar svona líka fallega við þegar það er snjór - mér finnast pastellitir og hvítt fara svo vel saman. Og ég treð mér í hana yfir allt saman, óháð því hvort að litirnir sem ég er í undir passa við eða ekki. Ég var reyndar hóflega litaglöð í þetta skiptið þar sem ég fór í svörtu Vila skyrtuna mína og svo bláar gallabuxur (reyndar með dökkbláu hlébarðamunstri svo smá kreisí í gangi þar) en reyndi að bæta upp fyrir það með því að vera í rauðum glimmersokkum innan undir nýju skóna mína sem ég fann á útsölunni í Topshop um helgina. En svo bætti ég um betur og skellti á mig nýju loðnu töskuna mína sem ég fann í Centro heima á Akureyri um jólin. Flestum finnst sennilegast nóg að vera í einni flík sem er loðin og bleik, en ekki mér. Ég fæ aldrei nóg af loðnu og bleiku.

Myndatakan gekk ekkert sérlega vel þar sem dagsbirtan var af skornum skammti og fór minnkandi með hverri mínútu sem við vorum að og því eru myndirnar í dekkri kanntinum. En þetta var eina tækifærið þar sem við vorum bæði laus á sama tíma og veðrið ekki alveg ömurlegt svo þær urðu bara að duga. Það hentar ekki alltaf of vel að reyna að halda úti tískubloggi yfir veturinn á Íslandi! 









Monday, February 3, 2014

Nýir skór

 Ég var að vinna um helgina í lokaúsölunum í Smáralind (úúúffff.....) og í kaffitímanum mínum þurfti ég að fara út úr búðinni til að kaupa mér eitthvað að borða þar sem ég hafði gleymt nestinu mínu, ég hefði aldrei sjálfviljug farið út á gang í allan hasarinn, takk fyrir pent. Enda hef ég ekki skoðað neinar útsölur sjálf fyrir utan það sem var í boði í Topshop og Dorothy Perkins. En á leið minni í matarleit fór ég framhjá Focus og í hillunni þar sem nýjar vörur voru komnar sá ég þessa líka dásemdarskó, glansandi og fallega, alveg tilbúnir í að koma með mér heim. Ég snarstoppaði, dreif mig inn í búðina og tók skóinn upp. "Vá" var það eina sem minn innri krummi sagði þegar ég sá hvað þeir glönsuðu. Ég hafði mjög takmarkaðan tíma en ákvað að prófa að máta þar sem sýningarskórinn var akkúrat mín stærð. Og viti menn, hann smellpassaði á mig. Ég fékk skóinn á móti til að sjá hvernig heildin liti út og þá varð ekki aftur snúið, þetta eru bara einir mest töff skór sem ég hef séð í langan tíma. Plús að þeir eru virkilega þægilegir. Þar sem ég á afmæli í þessum mánuði og foreldrar mínir gefa mér oft eitthvað sem ég set á óskalista, þá fannst mér tilvalið að velja þá í ár, enda skóást við fyrstu sýn. Það varð úr að þeir komu með mér heim og sitja núna inni í skáp í fínum kassa og fara bráðum norður þar sem þeim verður formlega pakkað inn og mér gefið á afmælisdaginn sjálfan - það er ekkert svindl í gangi hér neitt, ég fæ gjöfina ekkert fyrr þó ég velji hana sjálf! En mikið hlakka ég til þegar ég má fara að nota þá, ég sé mig fyrir mér í þeim við ökklagallabuxur með rifum á hjánum (ég er að eeeeelska svoleiðis núna), í einföldum hvítum bol og bleiku Topshop kápunni minni við nýja stutta hárið mitt. Og þeir verða æði í sumarsólinni líka :D