Saturday, February 9, 2013

Kinnalitur - hinn eini rétti

Ég elska förðunarvörur og hef gaman af því að punta mig (þó svo að stundum líði nokkrir dagar á milli þess sem ég geri það - leti háir mér stundum). Eitt af því sem ég elska mest og gæti ekki verið án er góður kinnalitur. Ef ég ætti samt að gera lista yfir nauðsynlegar vörur þá yrði gott rakakrem í fyrsta sæti. En kinnaliturinn kemur sterkur þar inn á eftir, já, meira að segja á undan maskara og púðri/farða. Kinnalitaást mín hófst einhverntíman í kringum 19 ára aldurinn þegar ég drakk í mig blöð eins og Cosmopolitan og Allure, þar var gagnsemi hans í förðun ítrekuð í bak og fyrir og ég hóf leitina endalausu að fullkomna kinnalitnum. Ég hafði aldrei nokkurntíman spáð í kinnalit fyrir það, nema þegar ég horfði á 80's myndir þar sem brúnir og eldrauðuir/appelsínugulir kinnalitir náðu frá kinn og upp á gagnauga (ekki smart) og þá jókst löngun mín í að prófa þá ekki hið minnsta.

 En stelpurnar í tímaritunum virkuðu eitthvað svo sætar og ferskar svo ég sló til og fór að prófa mig áfram. Það gekk misvel. Fyrsti liturinn sem ég keypti var rauður og ég hafði ekki hugmynd um að fölbleik húð eins og mín, með rauðbláum undirtón átti alls ekki samleið með þeim lit. Enda klæddi hann mig ekki. Fyrir utan það að ég kunni ekkert með hann að fara. Ég gleymi seint þegar ég áttaði mig á því, ég hafði þá notað kinnalitinn í nokkrar vikur, fannst ég ægilega smart og trendí, þegar einn daginn ég slysaðist til að sjá spegilmynd mína í birtu utandyra. Við mér blöstu tvær eldrauðar kinnar og ég leit út fyrir að hafa eytt síðastliðnum dögum á suðurpólnum, nú eða eins og stelpukjáni með allt of mikið af kinnalit. Ég þreif andlitið á mér hið snarasta og fór framvegis að gæta að því hversu mikið ég setti í burstann. Upp frá þessu prófaði ég alla liti og áferðir sem ég komst í og fann út að minni ljósu húð (sem verður svona líka huggulega svínsbleik ef ég brenn) hentar best að vera með fallega ferskjubleika, ljósbleika og róskremaða liti. Kremkinnalitir henta líka vel þar sem ég hef yfirborðsþurra húð, en góðir púðurlitir ganga líka.

Ég hef keypt bæði dýra og ódýra liti, einu sinni fann ég ferskjubleikann kremkinnalit í Megastore á 289 kr. og hann var merktur American Idol! Hann var kannski ekki flottasta merkið í safninu en hann var virkilega fallegur og entist vel. Ég snobba ekki í kinnalitum eftir það og hann varð fljótlega sá litur sem ég setti á mig daglega. Þar til einn daginn að ég tók eftir að hann var að verða búinn. Ég fór strax á stúfana í leit að staðgengli og rambaði inni í Make Up Store en leitin að ferskjubleikum kremlit hafði gengið illa og ég mundi ekki eftir að MUS ætti kremliti. Ég sagði afgreiðsludömunni frá vandræðum mínum og eins og ég vissi þá átti hún enga kremkinnaliti, en sagði mér hins vegar að hún ætti algjörlega æðislegan púðurlit sem klæddi ALLA. Ég var mjög efins en leyfði henni þó að sýna mér gripinn. Og þarna var hann kominn. Hinn eini rétti kinnalitur Lindu. Stúlkan setti hann á mig og andlitið á mér ljómaði. Ég skellti honum samstundis á afgreiðsluborðið og keypti hann, enda bara eitt stykki eftir. Nafnið segir sig líka sjálft en hann heitir Must Have og er einn vinsælasti liturinn í búðinni. Hann er yndislega ferskjuappelsínubleikur og skær en kemur hóflega út. Hann gefur ferskleika og er æðislega glaðlegur eitthvað, og ég alveg kolféll og nota hann síðan þá flesta daga. Síðan þá hef ég margsinnis fengið að heyra; "voða líturðu vel út, eitthvað svo fersk...". Sem er einmitt tilgangurinn með kinnalit! Ég mæli með þessum, og reyndar flestum kinnalitum úr Make Up Store, þeir eru æði.
Ekki láta myndina blekkja, hann er miklu fallegri í raun!


Á þessari mynd sést hann ágætlega - enda var ég agalega glöð með hann ;)Fleiri litir sem ég hef elskað eru meðal annars kinnilitir frá NYX og Clarins.

Thursday, February 7, 2013

Að hugsa um sumarið í slyddu

Ég hef alltaf verið þannig að mér þykir auðvelt og nauðsynlegt að hlakka til. Helmingurinn í skemmtuninni felst í því að hlakka til og ég hef með eindæmum gaman að því að skipuleggja, pæla og hugsa um komandi tíma. Ég reyni þó að muna að það er ekki mikilvægt að standa við allt það sem ég plana eða vonast til að geta gert, því það hefur hingað til bara valdið svekkelsi að geta ekki gert allt það sem planað var eða dreymt um. Núna er þetta meira svona viðmiðunarhobbý hjá mér. Mér þykir gaman að plana og dreyma, en man eftir því að heimurinn ferst ekki þó að ég nái ekki að gera allt sem mig langar, eigi ekki peninga, eða ef plön breytast skyndilega.

Gott dæmi um þetta eru mistök sem ég gerði mörg jól í röð, en það var að ætla mér að senda öllum heimagerð jólakort, gera sælgæti heima til að gefa og þar fram eftir götunum. Voðalega skemmtilegt að geta gert það, en ekki alltaf raunhæft. Hvert einasta jólakort var teiknað og skreytt og þau tóku mjög langan tíma í gerð. Og sælgætið varð bara til að pirra mig, því þó ég hafi gaman að eldamennsku, þá á sælgætisgerð ekki við mig. Ég varð svekkt og leið yfir því að ná ekki að gera hvoru tveggja og endaði á að ná að senda bara örfá jólakort (stundum engin) og gefa nammi sem ég var ekki nógu ánægð með. Mér hefur loksins tekist að læra að ég þarf ekki að gera bæði, eða að hreinlega einfalda hlutina. Núna veit ég að þó mig dreymi um að vera æðislega klár og sniðug í korta- og sælgætisgerð, þá er í lagi þó að eitthvað bregði útaf. Það hefur reynst vel að einfalda kortin og byrja snemma á þeim. Síðast þá klippti ég út einfaldar myndir (gekk vel yfir sjónvarpsglápi) og límdi á falleg kort og skrifaði texta með skrautpenna - mjög fallegt og einfalt (og svo á ég pakka af tilbúnum kortum inni í skáp ef ske kynni að ég nái ekki að klára hin). Og sælgætið? Ég er hætt því. Ég er ekki góð í sælgætisgerð, og þá sleppi ég því.

Auðvitað er þetta allt spurning um skipulag, en ég er greinilega ekki ennþá komin á þann stað í lífinu þar sem mér tekst að læra fyrir skólann, sinna heimili og maka og öðrum fjölskyldumeðlimum, vinum, félagslífi og svo mínum einkatíma, á sama tíma og að klára allt hitt sem mig dreymir um að gera (auðvitað hefði ég meiri tíma ef ég t.d. hætti að hanga á facebook eins mikið og ég geri eða að skoða tískusíður, hey - ég er að læra það enn). Það hefur reynst mikill léttir að hætta að setja pressu á sjálfa mig - auðvitað er pressa nauðsynleg svo ég standi mig vel - en óþarfa pressa eins og sælgætisgerð er ekki velkomin. Ég læt mig því dreyma áfram án þess þó að týna mér í því.

Og eitt af því sem mig er farið að dreyma um er sumarið. Ég sé fyrir mér að ferðast um Evrópu í sól og hlýju, skoða franska sveit, fara á strönd í Króatíu og tónlistarhátíð á Englandi. En það gæti vel verið að það fari ekki þannig (!). En raunhæfir draumar um að fara í sumarbústað á fallegum stað hér heima, fara í hestaferð og kannski dagsferð á eitthvað fjall (nýju Cintamanigönguskórnir þurfa að vera notaðir almennilega), tjalda og grilla og fara oft í sund, er hins vegar allt annar handleggur. Og ég hef plön um að láta eitthvað af þessu gerast. Og núna hlakka ég til sumarsins!
                             Íslenskar sumarnætur - mig dreymir um þær í slyddunni!
Wednesday, February 6, 2013

Kjúklingur í raspi.. nomm

Ég elska kjúkling (ég elska reyndar allan mat) og mér þykir gaman að elda hann. Eitt kvöld í síðustu viku langaði mig einmitt í kjúkling, en langaði að gera eitthvað sem ekki hefur verið á boðstólnum hjá mér áður. Mig langaði í hvítlauk og mig langaði í sætkartöflustöppu með. Svo ég skellti mér í eldhúsið og byrjaði að setja eitthvað saman. Ég mæli með kjúklingalærakjötinu sem er ekkert meðhöndlað, ekkert vatn, sykur eða annað sett í kjúklinginn til að láta hann glansa og vera sætan.

Innihaldslisti:
Fyrir tvo.

Kjúklingur
4 bitar af kjúklingalærakjöti
3 stórir hvítlauksgeirar, skornir smátt
1-2 mtsk. olía
1 egg
Season All
Fetaostur (smá sleppa)
Brauðraspur
Spínat

Sætkartöflustappa
1 sæt kartafla, meðalstór
Kanill
Hvítlaukspipar
Salt
Pipar


Ég byrjaði á því að setja ofninn á 200° og þegar hann var orðinn heitur þá setti ég sætu kartöfluna, sem búið að var að stinga með gaffli í, í álpappír og skellti henni inn. Í mínum ofni tekur það um eina klukkustund að baka kartöfluna í gegn, en það getur verið mjög misjafnt eftir ofnum hversu langan tíma það tekur. Næst setti ég brauðrasp í litla skál og eggið í aðra (hræra vel með gaffli) og setti til hliðar. Þegar kartaflan var búin að vera svona 30 mín. í ofninum þá byrjaði ég á skera hvítlaukinn smátt og hita olíuna við vægan hita á pönnu. Svo setti ég hvítlaukinn út í og hrærði honum vel upp í olíunni. Það er mikilvægt að hafa hitan vægan og láta hvítlaukinn brúnast mjög hægt, eða þar til að hann er orðin gullinn að lit og mjúkur. Á meðan hvítlaukurinn mallaði á pönnunni þá tók ég kjúklinginn, skar hann í smærri bita og velti honum upp úr smá Season All. Þar næst setti ég a.m.k þrjár lúkur af spínati í botninn á eldföstu móti. Ég vil hafa mikið af spínati því að það gefur mjög gott bragð með kjúklingnum, en minnkar mikið í umfangi þegar það er bakað. Svo nóg af spínati.Þegar hvítlaukurinn og olían hafði mallað vel og lengi saman helti ég því yfir í skálina með hrærða egginu og blandaði vel saman, velti svo einum kjúklingabita upp úr hrærunni og loks upp úr raspinum, eða þar til að bitinn er alveg þakinn af raspi. Því næst setti ég hann ofan á spínatið í eldfasta mótinu. Ég reyndi að hafa hvítlauksbitana sem voru í eggjahrærunni með kjúklingnum þegar hann fór í raspið en það tolldi misvel. Þegar ég hafði velt öllum bitunum og þeir voru komnir í fatið þá setti ég afganginn bara ofan á þá. Þeir sem vilja ekki eins mikið hvítlauksbragð og ég geta alveg sleppt þessu og bara látið bragðið af olíunni duga. Svo var fatinu bara skellt inn í ofn og látið malla í 40 mín. u.þ.b.Á meðan kjúklingurinn var í ofninum þá tók ég sætu kartöfluna, flysjaði hana, skar í bita og setti í stóra skál. Hún var vel mjúk og því var auðvelt að stappa hana saman með gaffli. Þegar ég var búin að því þá setti ég um hálfa tsk. af kanil, slatta af hvítlaukspipar, salti og svörtum pipar. Þetta er smekksatriði hvers og eins og best er að smakka bara til. Mér finnst stappan best þegar kanil- og hvítlauksbragðið finnst ágætlega, en er ekki yfirgnæfandi. Það er nauðsynlegt að finna bragðið af kartöflunni sjálfri. Svo bara hæfilega mikið af salti og pipar. Svo hrærði ég hana bara enn betur til og setti til hliðar. Þegar kjúklingurinn var búinn að vera um 30 mín. í ofninum tók ég hann út og setti smá fetaost, örugglega bara 6-8 bita í allt, til að fá smá bragð. Setti svo fatið aftur inn í ofn og hafði í 10 mín. eða þar til að osturinn var bráðnaður. Svo var bara að setja á disk og njóta!