Wednesday, January 22, 2014

Holl súkkulaðikaka


Jæja, þá er ég loksins farin að setja inn uppskriftir, það er búið að vera á planinu lengi en ég nenni svo aldrei þegar á reynir að taka myndir á meðan ég elda eða baka. Samt geri ég mikið af bæði. En alla vega, hér er sú fyrsta en því miður er bara ein mynd og engin af ferlinu sjálfu því að myndirnar voru bara ekki alveg nógu góðar - ég þarf að skoða eitthvað lýsinguna í eldhúsinu áður en ég held áfram í þessum pakkanum. En já, aftur að kökunni. Ég hef verið núna í einhvern tíma að sanka að mér uppskriftum i hollari kantinum svo það smellpassi við ræktarmætingarnar og þar sem ég er æðislegur sælkeri þá enda ég ansi oft á að skoða eftirrétti í hollum búning. Þessi kaka er afrakstur af langri yfirlegu á netinu og hún er bara samtíningur héðan og þaðan sem ég setti síðan saman í samræmi við það sem mér fannst gott. Og kakan er virkilega góð miðað við að í þessu fati eru 1500 hitaeiningar en 4200 hitaeiningar í sama fati af franskri súkkulaðiköku sem ég geri þegar ég vil hafa hana feita og fína. Svo maður sparar talsvert við sig með þessari og hún er fullkomin í millimál eða í kvöldsnarl. Og hér kemur kakan:

Innihaldsefni

1 heilt egg + 2 eggjahvítur
1 meðalstórt vel þroskað avocado
120 gr. heilhveiti
50 gr. sykurlaust kakó
80 ml. vatn
1 msk. vanilludropar
180 gr. vanilluskyr
3-4 msk. Sukrin Gold
3 msk. hunang
3 msk. dökkir súkkulaðidropar

Ég vil taka það fram að það er nauðsynlegt að avocadoið sé vel þroskað - ég keypti svoleiðis í Nóatúni, sérpakkað og merkt "þroskað" og ég lét það meira að segja bíða í einn dag í viðbót. Það þarf að vera grautlint, bara svona til að hafa það á hreinu. En þegar þú ert komin með avocado á síðasta snúning, þá ertu tilbúin í kökubakstur. 

  • Fyrsta á að stilla ofninn á 180°. 
  • Síðan setja eggin, hvíturnar og avocadoið saman í skál og hræra með hrærivél saman þar til það verður að grænu kremi. 
  • Næst á að bæta heilhveitinu við, hægt og rólega og leyfa því að blandast vel við græna kremið. 
  • Hella síðan vatninu saman við þannig að blandan verði aftur fljótandi. 
  • Þegar degið er orðið lint af vatninu þá á að bæta kakóinu við, vanilludropunum, skyrinu, sukrin gold og svo hunanginu. Svo bara hræra vel saman þar til allt er fallega blandað saman. 
  • Þá er bara að ná í eldfast mót (þykktin á kökunni fer eftir stærð fatsins, því stærra sem fatið er, því þynnri verður kakan vitanlega, svo það er persónubundið hvað hver og einn vill hafa stórt fat), spreyja Pam-i vel í og hella svo deginu og jafna vel í öll hornin. 
  • Þegar degið er komið í fatið þá fara súkkulaðidroparnir jafnt ofan á og svo bara skella í ofninn. Ég baka kökuna í mínum ofni í 30 mín. en það er misjafnt eftir ofnum hversu langan tíma þarf, svo best er að athuga reglulega hvað er að gerast eftir fyrstu 20 mínúturnar. 
  • Hún er síðan tilbúin þegar gaffli er stungið í miðjuna og hann kemur hreinn upp.
Mér finnst kakan best eftir næturlegu í ísskápnum, þá er hún smá klesst og hugguleg. Síðan sker ég hana í 8 bita, set í box og á tilbúið sætabrauð þegar ég þarf eitthvað sætt. Í einum bita eru um 200 hitaeingar þannig að hann hentar vel í millimál eða í smávegis eftirmat. Svo bara að njóta!
No comments :

Post a Comment