Sunday, August 31, 2014

Að koma út úr bloggskápnum

Eitt af því sem ég þurfti að hugsa um í sumar var hvernig ég vildi nálgast bloggið mitt, hvað ég væri að spá með því og hvað ég vildi fá út úr því. Því þótt ég sé að brölta þetta þá hef ég mjög ákveðnar skoðanir á tilgangi svona blogga. Ætli sé þá ekki bara best fyrir mig að koma hreint til dyra og viðurkenna að ég þoli bara takmarkað af þeim bloggum sem eru þarna úti. Mér finnast þau mörg hver vera pirrandi, heimskuleg og yfirborðskennd. En þrátt fyrir þessi stóru orð þá finnast mér mörg blogg frábær, það er nefnilega til fullt af bloggum sem eltast ekki við normið og eru vel skrifuð með góðum og skemmtulegum umfjöllunum um fatnað, snyrtivörur og lífsstíl. Mig langar að skrifa eitthvað í líkingu við þau - eitthvað sem er skemmtilegt og nýtist fólki en er ekki stökkpallur fyrir mig út í hafsjó af fríu drasli og miðum á fremsta bekk á RFF með VIP passa baksviðs.

En hvar stend ég þá í allri þessari umræðu?

Hér á eftir kemur smá pistill til að útskýra afstöðu mína gagnvart þessum heimi. Sumt hef ég talað um áður en mér fannst betra að summa þetta upp í eina grein svo að þeir sem kjósa að lesa bloggið mitt geti skilið hvaða stefnu ég hef fyrir það.

Í fyrsta lagi þá finnst mér ég þurfa að koma aðeins inn á afstöðu mína gagnvart útliti almennt.

Er það grunnhyggið að hafa svona mikinn áhuga á því? Ég veit það svo sem ekki en ég er alltaf þeirrar trúar að hver og einn eigi að gera það sem kemur honum náttúrulega, þ.e. að hafir þú áhuga á snyrtivörum (bílum, púsluspilum, vott ever) þá áttu hiklaust að láta eftir þér að sinna því áhugamáli. Alveg sama hvað öðrum finnst um það. Og nei, ég er ekki að segja að ef þú hefur áhuga á því að sparka í hvolpa að þá sé það í lagi.

Fyrir mig þá snýst þetta um svo miklu meira en bara að eiga sem mest af drasli sem aðrir geta öfundað mig af. Föt eru ekki bara föt fyrir mér, ég elska hvernig þau geta gefið til kynna hvers konar persónuleika þau klæða og að sama skapi þá elska ég að tjá sjálfa mig í gegnum fötin mín. Það er ein af mínum leiðum til að koma Lindu til skila til samfélagsins og til sjálfrar mín. Það kemur því ekki á óvart þegar ég segi að ég klæði mig oftast eftir tilfinningum. Suma morgna vakna ég og ég finn að ég er í "mjúku" skapi og þá fer ég beinustu leið í fataskápin og vel í samræmi við það. Í svoleiðis skapi verður t.d. ofurmjúk peysa fyrir valinu. Aðra morgna vakna ég og mig langar að vera kúl (já, suma daga reyni ég í alvörunni að vera kúl og ég viðurkenni það fúslega). Þá fer ég í hologram skóna mína og klikkaðar buxur. Vitanlega miðast þetta allt við veður og aðstæður líka, ef það er kuldi úti og ég í sumarskapi þá fer ég bara skærlitaða peysu en ekki stuttbuxur og strigaskó. Ég myndi heldur t.d. aldrei nokkurntíma pakka niður öðru en útivistarfötum þegar ég fer í útilegur því ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þá er ekki tími til þess að láta tilfinningar stjórna ferðinni - þá ræður landið og veðrið hverju ég klæðist.

En þrátt fyrir að ég segist vilja klæða mig kúl einn daginn þá þýðir það ekki að ég sé að gera það fyrir aðra eða að ég sé að vonast eftir að fá hrós fyrir það að vera kúl. Mér líður bara "kúl föt í dag" suma daga og þá vel ég þannig fatnað. Ég lýg engu þegar ég segi að ég klæði mig alltaf fyrir sjálfa mig - og ef einhver hrósar mér fyrir það þá er það bara gott og blessað, ef ekki, þá er ég að minnsta kosti ánægð með það hvernig ég lít út. Það skiptir mig miklu máli hvernig ég sé sjálfa mig, hvernig mér líður í mínu eigin skinni og hvað ég býð speglinum upp á. Ég vil líta í hann og hugsa "mikið ertu nú fín í dag" og líða vel með það. Litir, áferð og snið er eitthvað sem mér þykir dásamlega skemmtilegt að spá í og samsama við minn persónuleika og þegar ég vel á mig flíkur úr fataskápnum á morgnana, þá er það ekki bara til að koma í veg fyrir að ég gangi nakin um. Það sama á við um skart og förðunarvörur, ég nálgast það líka með sama hugarfari og mála mig eða set á mig skartgripi í samræmi við skap og aðstæður. Suma daga (eins og í dag) þá langar mig að vera með áberandi hálsmen, aðra daga þá vil ég ekki setja á mig neitt. Suma daga þá mála ég mig meira, aðra minna. Ekkert af þessu geri ég vegna samfélagslegs þrýstings eða til að fá fleiri læk á facebook fyrir að vera flott og sæt. Málið er einfalt, ef Lindu líkar það sem hún sér í speglinum, þá er Linda búin að ná takmarkinu.

En annars, ef fólki finnst ég vera grunnhyggin, þá er það svo sem í lagi. Það er nóg að ég viti að Linda er meira en bara föt og snyrtivörur.

En hvað svo sem grunnhyggni varðar þá langar mig til að blogga um þessa hluti vegna þess að ég hef gaman af því að lesa um slíkt hjá öðrum og hef áhuga á að taka þátt í umræðunni. Planið er ekki að verða vinsæl og lifa af þessu, heldur til að fjalla um eitthvað út frá sjónarhóli áhugamanneskju sem elskar föt en hatar tísku. Þegar ég segi þetta þá á ég við að þrátt fyrir að ég elski föt þá hefur tískutengingin alltaf farið í taugarnar á mér. Ég er ekki að segja að ég viljandi forðist að kaupa það sem er vinsælt en maður lifandi, það er pirrandi þegar ákveðnum hlutum er ýtt að manni við hvert tækifæri og svo enda allir á því að vera um það bil eins.

Það er líka önnur hlið á þessu; að klæða sig ekki í tískufatnað til að meðvitað fylgja ekki tískunni. Ef þú klæðir þig ekki í eitthvað, málar þig eða skreytir vegna þess að þér finnst það ekki henta þér, þá er það bara gott mál. Ef þú hins vegar viljandi forðast eitthvað vegna þess að þú vilt ekki beygja þig undir samfélagsnormið, þá ertu í rauninni að fara eftir þrýstingi frá samfélaginu. Því ef þú ert ekki að sinna útlitinu fyrir þig heldur til að sanna eitthvað (sama hvort þú ert að reyna að falla í kramið með að kaupa "réttu" fötin eða kaupir þau ekki til að fara í hina áttina) þá er eitthvað annað þú sjálf að stjórna því sem þú klæðir þig í/setur á þig. Viðmiðið ætti alltaf að vera að þér finnist eitthvað flott og það klæði þig vel. Skítt með hvar á tískuskalanum það stendur.

Svo þarf vitanlega að hafa í huga í þessum heimi okkar sem er gjörsamlega gegnsýrður af auglýsingum og myndum, að ef maður sér einhvern hlut nógu oft (á mismunandi bloggum, á stelpum/konum í kringum sig til dæmis) þá er eins og að heilinn í manni segi, "þú ÞARFT að eiga þetta". Gott er að taka smá bakkskref frá auglýsingaflóðinu og hugsa um hvort að manni finnist viðkomandi hlutur virkilega flottur eða hvort að löngunin til að líkjast uppáhaldsbloggaranum sé að stjórna því að manni langi að kaupa eitthvað. Að gera þetta gæti mögulega sparað manni þó nokkra peninga. Það á aldrei að vera kvöð að klæða sig og skapa sér sinn stíl. Ekki láta neitt annað en sjálfa þig stjórna því hvað þú kýst að láta á kroppinn.

Þegar ég skoða tískublogg eða annað efni sem tengist á einhvern hátt útliti þá geri ég það til að fá hugmyndir og innblástur fyrir mitt eigið útlit en ekki til að kaupa heildarlúkkið frá einhverjum öðrum. Blogg sem hafa þann eina tilgang að fá þig til að kaupa nákvæmlega það sem þau eru að sýna (og mörg hver eru alveg rosaleg hvað þetta varðar) eru ekki ofarlega á lista hjá mér. Þegar fólk bloggar fyrir peninga, frítt drasl eða eða til þess að verða vinsælt, þá er markmiðnu tapað finnst mér. Það er ekkert athugavert við það að vera vinsæll bloggari eða að fá greitt fyrir t.d auglýsingar sem settar eru á bloggið, en það er fín lína á milli þess að auglýsa og auglýsa. Ég er til dæmis tæknilega séð að auglýsa ákveðin fyrirtæki þegar ég fjalla um vörur frá þeim en munurinn á mér og mörgum öðrum er sá að ég fæ ekkert frítt dót eða peninga fyrir það. Ég græði ekkert á því að setja viðkomandi vöru inn á bloggið annað en að geta bloggað um hana. Við getum sagt að ég fái ánægjuna af því að eiga dót sem mig langar að benda öðrum á (eða vara við). Ég er því afskaplega frjáls í minni umfjöllun og þarf ekki að óttast það að styggja fólk ef mér líkar varan ekki nógu vel. Ef einhverjum er greitt fyrir vöru eða fær hana fría gegn því að fjalla um hana, þá vitanlega kemur það til með að hafa áhrif. Ég kem aldrei til með að trúa öðru. Ég veit vel að fólk tekur fram að það fjalli bara um vörur sem því líkar vel við og finnst að það ætti að vera alveg nóg, en ég set spurningarmerki við það einfaldlega vegna þess að ég neita að trúa að allt þetta magn af dóti sem fer í gegnum sum blogg fái jákvæða umfjöllun. Í öllu þessu draslflóði hlýtur eitthvað að vera bara la la eða hreinlega lélegt. Ef bloggari sýnir mikið af dóti og hvert einasta snitti sem þar dettur inn er "æðislegt" og algjörlega "möst have stelpur" þá hef ég mínar efasemdir og kýs að lesa það blogg ekki. Svona fyrir utan að ef ég les "þennan varalit verða allar að eiga" þá ertu búin að missa mig sem lesanda. Ég les ekki blogg eða annað til þess að láta segja mér hvað ég þarf að eiga, ég les þau til að fá almennilega og hreinskilna umfjöllun svo ég geti nýtt mér það hafi ég áhuga á að kaupa viðkomandi vöru.

Þessar auglýsingaherfðir hjá sumum bloggurum og öðrum miðlum valda því að allir eru að eltast við sama draslið og vilja líklega oft eignast eitthvað vegna þess að það er orðið að ákveðnu stöðutákni - hvers vegna annars myndi eitt stykki blómavasi, eins og ég er búin að sjá á facebook ítrekað upp á síðkastið, verða svo vinsæll að allir vilja hann? Er það vegna þess að í rauninni þá hefur fólk svona svipaðan smekk? Eða er það vegna þess að vinsælt tímarit eða bloggari eru búin að búa til einhverja spennu í kringum hann sem veldur því að fólki finnist það þurfa að eignast hann? Langar fólki virkilega í þennan blómavasa eða er það að reyna að vera jafn smart og töff og vinsæli bloggarinn? Mér er alveg sama hvaða blómavasa fólk kaupir sér, en pressan á því að eiga réttu hlutina keyrir stundum um þverbak. Gott fólk, látum ekki aðra ákveða fyrir okkur hvað við kaupum.

Ég hef engan áhuga á að verða auglýsingabæklingur og er hér til þess að skapa afþreyingu fyrir sjálfa mig og aðra. Ég get lofað því að ef bloggið mitt verður einn daginn agalega vinsælt að þá breytist það ekkert. Ég er ekki hér til að segja þér hvað þú átt að kaupa, hvað þér eigi að finnast, hvernig rétt sé að klæða sig eða hvað sé inn. Þetta er kannski frekar eins og opinber dagbók fyrir eitt af mínum áhugamálum sem mig langar gjarnan að deila með þér. Kannski finnst þér skemmtilegt að lesa þetta án þess að spá frekar í það, kannski kveiki ég í einhverju hjá þér hvað tísku varðar. Kannski fær mynd af mér í rauðum buxum þig til þess að hugsa "hún þorir alveg að ganga í svona buxum. Ég þori því ekki. Ég ætti kannski bara að prófa sjálf úr því að mér finnst hún vera svo fín í þeim. Kannski væri ég bara æðislega fín í þeim líka". Mig langar til að skrifa efni sem er skemmtilegt og létt, með smá dassi af mannlega partinum (já, það er pistill í vinnslu sem tekur á því hvernig 31 árs gamalli konu í yfirþyngd gengur að halda úti tískubloggi á Íslandi, erfitt stöff gott fólk) og ég kem til með að skrifa meira af þannig efni með tengingu við útlitsheima. Í framhaldi af því ætla ég ekki að taka fram undir tískumyndnum hvaðan ég kaupi vöruna og með link inn á hvar hún er seld, ég kem örugglega til með að nefna eitthvað í textanum sem fylgir en ef ekki, þá geturðu bara spurt í athugasemdunum ef þú ert það áhugasöm. Ég kem til með að segja hreinskilnislega frá því hvað mér finnst, ef eitthvað er lélegt að mínu mati, þá segi ég það og útskýri hvers vegna. Ég er ekki að reyna að láta lif mitt líta út fyrir að vera fullkomið með stanslausum myndum af mat á veitingahúsum, dýru eða nýju dóti eða fallegum myndum af hverju því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég bý ekki í Ittala-skreyttum heimi þar sem öll eldhúsáhöldin eru versluð í Hrím og ég er ekki að reyna að láta það líta út fyrir að það sé svoleiðis. Ég hef keypt bolla í Tiger og viðurkenni það fúslega. Ég ætla ekki að hvetja þig til að kaupa fimm mismunandi liti af sama naglalakkinu sem kostar nokkra þúsundkalla stykkið - hver þarf birgðir af naglalökkum fyrir 20 þúsund? Ég vil hins vegar hvet til þess að finna út hvað hentar þér svo þú kaupir þér eitthvað sem þú elskar og notar mikið.

Jæja lesandi góður. Þá er pistlinum lokið. Vonandi hef ég náð að fara yfir vel flest það sem mér finnst skipta máli fyrir grunninn í þessu bloggi og vonandi hafa sem flestir gaman af því að lesa í framtíðinni. Hér í lokin er svo smá beljukoss fyrir að nenna að lesa blaðrið í mér ;)

No comments :

Post a Comment