Monday, February 17, 2014

Fallegur laugardagur með smá blúndu og loði

Skyrta: Júníform, skór: Halldora.com, kápa: Ebay, leggings: Centro Akureyri

Jedúdda, það er búið að taka mig langan tíma að koma þessari bloggfærslu frá mér. Myndirnar voru teknar á laugardeginum um þarsíðustu helgi og ég bara lét þær sitja í tölvunni án þess að gera neitt. Ja, ég hafði það af að velja úr myndirnar sem mig langaði að hafa en ekkert meira en það. Stundum er þetta svona, ég hef fullt að gera en svo kem ég engu í verk nema því sem nauðsynlega þarf að sinna - þrífa heima hjá mér, ja eða að halda í horfinu í það minnsta, læra það allra nauðsynlegasta og mæta í vinnuna. Annað situr bara og bíður á meðan ég hlunkast niður í sófann eða fyrir framan tölvuna (að gera ekkert nema hangsa). Og öll ókláruðu verkefnin verður sífellt rísavaxnara með hverri mínútunni. Svo ég enda á að gera ekkert. Er einhver annar sem glímir við svona tímabundin leti/framtaksleysistímabil?

En nóg af kvarti! Við nýttum þennan afskaplega ljúfa laugardag í ýmislegt skemmtilegt. Þetta var fyrsti sólríki dagurinn sem ég man eftir síðan löngu fyrir jól og hann var virkilega fallegur. Þetta er ástæðan fyrir því að ég elska febrúar, sólin er komin hátt á loft og það er bjart úti. Ekki misskilja mig, ég elska líka dimmu dagana í krinum jólin og öll kósýheitin sem þeim fylgja en eftir myrkrið í janúar þá er ég svo innilega tilbúin í birtu og sól. Á fimmtudagskvöldið síðasta þá tók ég einmitt rosalegt Gossip Girl maraþon og vakti langt fram á nótt og svaf síðan til hádegis á föstudeginum, og þegar ég vaknaði þá var herbergið baðað sólarljósi. Ég veit fátt yndislegra en að vakna í fallegu veðri og þegar sólin skín þá verð ég alltaf svo glöð og kát. Svona eins og hundur sem dillar skottinu þegar hann fær nammi. En aftur að laugardeginum. Ó mæ god hvað ég get blaðrað stundum! Allavega, við drifum okkur í sund (er til betri leið til að njóta sólarinnar heldur en að fara í sund?), síðan á sýningaropnum á Kjarvalsstöðum, þar á eftir stoppuðum við til að taka nokkrar myndir og fengum þetta líka æðislega sólarlag og að lokum settumst við inn á kaffihús á Laugaveginum og skiptum með okkur eplakökusneið. Við rúntuðum heillengi áður en við ákváðum hvaða staður væri hentugur fyrir myndatökuna og enduðum svo á að stoppa í götu rétt hjá Landsspítalanum (man ekkert hvað hún heitir samt) vegna þess að sólarlagið sást vel þaðan og umhverfið var æði. 

Ég var í uppáhaldskyrtunni minni, já mikið rétt, hún er frá Júniform, en ekki hvað? Og við hana skellti ég mér í loðskóna mína frá Halldoru.com, leðurlíkisleggings sem ég keypti í Centro á Akureyri og yfir þetta fór ég svo vitanlega í blettatígurskápuna mína sem ég fékk á 5000 kall frá Ebay hérna um árið. Það var eiginlega tilviljun að ég fór eingöngu í flíkur sem eru í miklu uppáhaldi - mér þykir vænt um öll fötin mín en sum eru bara í meira uppáhaldi en önnur - og mér fannst ég vera ægilega fín og sæt þegar við fórum á listasafnið. Og er það ekki mest krúsjal atriðið þegar maður klæðir sig, að líða vel í fötunum sínum? Ójú. Alveg eins og það er krúsjal að fá sér grillaðar ostapylsur með kartöflustöppu í útilegum á sumrin (eða er það bara ég?). 

En annars þá vil ég biðjast afsökunnar á myndaorgíunni, ég gat bara ekki valið á milli mynda þar sem sólarlagið var svo fallegt. Það var ekki svona erfitt vegna þess að mér fundust myndirnar af MÉR vera svona rosalega góðar. Ég er eiginlega þvert á móti að setja inn slatta af myndum af mér sem mér finnast ekki vera neitt svo frábærar, ég hef alveg myndast betur, það verður að viðurkennast en þar sem ég hef aldrei áður stuðst við vegg í myndatöku þá áttaði ég mig ekki á því að þegar ég halla mér svona upp að honum þá myndast þessi líka skemmtilega "hliðarundirhaka" sem setti voða huggulegan svip á allar myndirnar. Ég var pínu pirruð þegar ég sá meinta hliðarundirhöku og íhugaði um stund að fótósjoppa hana í burtu en ákvað svo að hætta þessu rugli og bara láta þetta vera. Ég er með svona höku/háls og þau verða bara að fá að vera með og ekkert væl. Engin megrun kemur til með að breyta þessu þar sem ég hef verið töluvert grennri og þá var ég líka svona, svo bara só sorrý Linda, sættu þig við að svona ertu. Sem ég geri alveg. Oftast að minnsta kosti. 
No comments :

Post a Comment