Saturday, August 23, 2014

Hvítur jakki


Jæja. Ég sem lofaði því að blogga meira.... Já, svona er þetta stundum. Ég er búin að ætla að setjast niður svo oft í allt sumar en svo bara púff, ágúst að verða búinn. Það er ýmislegt búið að vera í gangi síðan þá. Í fyrsta lagi þá er elsku besta tölvan mín gjörsamlega að verða búin á því og hún höndlar mjög illa að vinna myndirnar mínar sem eiga að fara á bloggið - þær eru bara orðnar of stórar fyrir hana þar sem hún er orðin gömul og lúin og það eitt veldur því að ég hef varla nennt að standa í að vinna myndirnar. Núna er ég að nota tölvuna hjá kærastanum og það er þvílíkur draumur að geta pikkað inn án vesesns (ég gerðist svo fræg að ryksuga u-ið mitt í burtu fyrir nokkrum árum og það er óþolandi að skrifa u-laus. Kláraði samt háskólanámið án þess og ég ætti að fá verðlun bara fyrir það). Plús að það tekur ekki 5 mínútur að vista eina mynd sem ég er búin að vinna fyrr bloggið. 

Í öðru lagi þá er ég búin að vera uppteknari en forsetinn. Það er vissulega lygi en ég er búin að hafa mikið að gera síðan 3. mars síðastliðinn. Þann dag varð ég verslunarstjóri í búð á Laugaveginum sem heitir fóa ásamt því að vera í 20 einingum í háskólanum. Þetta gerðist allt svo hratt og allt í einu var ég lent í algjörlega öðruvísi aðstæðum en ég hafði átt von á um áramótin. Ég kláraði listfræðina í HÍ síðastliðið sumar en skráði mig í sagnfræði aftur þá um haustið. Ástæðan fyrir því var meðal annars sú að ég var skíthrædd við að verða atvinnulaus. Ég hef einu sinni á ævinni verið atvinnulaus, haustið 2009 í heila fjóra mánuði, og það var einn ömurlegasti tími lífs míns. Það fer alveg skelfilega með mann að senda út umsókn eftir umsókn, fá aldrei svar eða bara "nei", aftur og aftur. Sjálfstraustið var komið niður í ræsið og mér fannst ég gjörsamlega glötuð. Ég fékk reyndar vinnu á endanum þar til að ég byrjaði í HÍ og enn í dag hugsa ég stundum til þess tíma þegar ég sat grátandi við tölvuskjáinn að lesa "því miður hefur verið ráðið í starfið", nú eða þá að opna tölvupóstinn tuttugu sinnum á dag til þess eins að sjá að ekkert svar hafði borist frá öllum þeim sem ég sótti um hjá. Af hreinum ótta skráði ég mig í sagnfræðina svo ég hefði þá alla vega það til að sinna ef lítið yrði um vinnu. Ég sótti og sótti um vinnu og var orðin gjörsamlega vonlaus um að finna eitthvað sem hentaði mér. Hlutastarfið mitt í Dorothy Perkins var ekki nóg og eftir nokkra mánuði sagði ég upp þar því mér fannst þá bara skynsamlegast að taka sagnfræðina föstum tökum þar sem enga fulla vinnu var að fá. En þá gerðist það. Ég fékk vinnuna í fóu. Ég man ekki einu sinni almennilega eftir því að hafa sótt þar um. Ég var farin að hafa rútínuna þannig að ég sá auglýsingu og án þess að spá eitthvað sérstakt eða gera mér vonir þá ýtti ég bara á "send" og lét umsóknina fara. Nokkrum vikum síðar þá var ég komin með vinnuna. Og ekki bara einhverja vinnu heldur æðislega vinnu. Svona gerast nú kraftaverkin stundum. En það allt er efni í annan póst.

Ég er síðan búin að vera springa úr sköpunargleði, ég mála, mynda, teikna. prjóna og bara það sem mér dettur í hug og ég hef ekki tíma til að gera allt sem mig langar að gera. Og þar á meðal gaf ég mér ekki tíma í bloggið. Sem var kannski bara ágætt því ég fékk þá nægan tíma til að hugsa um hvað ég vildi ná út úr þessu bloggbrölti mínu, ég er búin að vera að skipuleggja mikið í hausnum á mér hvað það varðar og það er ýmislegt sem mig langði að gera öðruvísi hérna inni. Svo það verða smávegis viðbætur við myndirnar og léttu tiskuumræðuna :) Mikið hlakka ég nú til að fara að blogga aftur!

En já, að myndunum sem ég ætla að láta fylgja með í þetta skiptið. Þessar voru teknar á Gay Pride - veðrið var fallegt og mér fannst tilvalið að fara í skrautlegri skyrtu og hvítum jakka í bæinn. Ég er búin að þrá að eignast hvíta yfirhöfn síðan ég man ekki hvenær en fann ekkert sem heillaði mig upp úr skónum fyrr en ég fór í Centro á Akureyri þegar ég var þar um versló. Þar blasti við mér þessi æðislegi jakki og ég keypti hann án þess að hugsa mig tvisar um - hann var bara einfaldlega of flottur til að bíða eitthvað með það. Skyrtuna keypti ég líka á Akureyri, í Imperial, nánar tiltekið en buxurnar eru úr Lindex. Og ég elska þær. Ég keypti þær síðastliðið vor og ég er búin að nota þær svo mikið, þær eru æðislegar við skyrtu girta niður í þær og flotta skó við. Michael Jackson fílingurinn í heildarsamsetningunni var ekki fyrirfram planaður en ég sé núna þegar ég skoða myndirnar að ég hefði að sjálfsögðu átt að útvega mér hatt og hanska og taka þetta alla leið. Kannski næst bara ;)





No comments :

Post a Comment