Tuesday, April 7, 2015

Maybelline Dream Touch Kinnalitur í 02 Ferskjulit



Ef ég er spurð að þvi hvaða snyrtivöru ég gæti ekki verið án þá myndi ég velja gott rakakrem því ég einfaldlega fer ekki í gegnum daginn á þess að setja raka á andlitið á mér bæði kvölds og morgna og á eftir hverri sturtu. Annars myndi andlitið á mér þorna upp og exem og önnur vandamál margfaldast. Þess vegna myndi ég eiginlega flokka rakakrem sem nauðsynjavöru en ekki "snyrtivöru". Ef ég ætti hinsvegar að velja snyrtivöru sem ég gæti tæknilega séð alveg komist af án þá væri það góður kinnalitur. Fátt gefur manni ljóma og fallegt yfirbragð eins og kinnalitur sem passar við liftarhaftið. Ég hef allaf verið hrifnari af kremkinnalitum heldur en púðurlitum því mér finnst eins og að púðurvörur sitji ofan á húðinni í staðinn fyrir að aðlagast henni. Af sömu ástæðu þá nota ég ekki venjuleg púður, mér finnast þau taka náttúrulega ljómann minn frá húðinni og ég verð mött og líflaus, svo ég tala nú ekki um að púðurvörur gera ekkert fyrir húð sem glímir stöku sinnum við exem- og þurrkabletti. Því miður eru fá snyrtivörumerki sem bjóða upp á kremkinnaliti - flest þeirra láta púðrið duga og því er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að því að velja liti. Ég hef lengi vel notað púðurlitina frá Make Up Store en þeir eru virkilega góðir og komast næst því að uppfylla kinnalitakröfur mínar þrátt fyrir að vera úr púðri því litirnir eru virkilega fallegir og úrvalið frábært. Það er bara vonandi að Make Up Store byrji á því að framleiða kremkinnaliti, þá væri ég í snyrtivöruhimnaríki.

En nóg um Make Up Store og aftur að Maybelline. Það merki var eitt það fyrsta til að setja á markaðinn farða sem var froðukenndur - Dream Matt Mousse Foundation minnir mig að hann hafi verið kallaður og gerði stormandi lukku og er þessi tegund af farða enn í sölu hjá fyrirtækinu. Ég lét hann eiga sig á sínum tíma því þá voru bara þrír litir til og enginn þeirra nógu ljós fyrir mína rauðhærðu húð. Það hefur nú reyndar breyst og margir litir eru í boði núna. Stuttu seinna komu svo á markaðinn kinnalitir sem voru með sömu froðukenndu áferð og satt að segja þá hunsaði ég þá alveg, þrátt fyrir ást mína á kremlitum. Sennilegast vegna þess að farðinn hentaði mér engan veginn og ég ákvað bara að kinnalitirnir myndu ekki henta mér heldur. Það var síðan ekki fyrr en ég rak augun í tvo af þessum litum í förðunarskúffunni hennar mömmu um jólin að ég fór eitthvað að spá í þá. Ég fékk að prófa annan þeirra, þann sem heitir Peach 02 þrátt fyrir að ég væri búin að ákveða að liturinn væri of ljós og myndi bara ekkert sjást á húðinni. Ég veit ekki alveg hvaðan þessi förðunarlega neikvæðni kom en ég hafði innilega rangt fyrir mér. Liturinn er mjög fallegur og hentar mér svo vel að ég vildi óska að ég hefði prófað hann fyrir mörgum árum, það hefði sparað mér þrotlausa leit að fallegum kremkinnalit.

Á fyrstu förðunnarmyndinni þá er ég bara búin að setja á mig rakakrem og svo BB krem (líka frá Maybelline og ég hef fjallað um hérna). Ég er frekar flöt eitthvað, lítið líf í húðinni þó hún sé jöfn og tiltölulega lýtalaus. Og svo bara breytist allt þegar ég hef sett kinnalitinn á mig en það eina sem bættist við á næstu mynd er hann. Mér finnst vera töluverður munur á mér og ég er mun frísklegri eftir að lituirnn er kominn á kinnarnar á mér. 


Allt við þennan kinnalit er gott - nema kannski að endingin er ekki stórkostleg. Það þarf þó að hafa í huga að ég er með feita húð en kemfarði endist styttra á þannig húð einfaldlega vegna þess að hann rennur hraðar af sökum mikils raka í húðinni. Svo ég geri ráð fyrir að endingin sé bara mjög góð hjá þeim sem ekki eru með feita húð. Hjá mér endist liturinn yfir mestan partinn af deginum en ég hef hann bara með í förðunartöskunni og bæti á hann ef mér finnst þurfa. Áferðin er draumur, rétt eins og nafnið segir til um og það er mjög auðvelt að dreifa úr litnum en það er eiginleiki sem fáir kremlitir búa yfir finnst mér. Flestir þeirra eru frekar þykkir og maður þarf að hafa fyrir því að ná jafnri áferð. Það er alls ekki málið með þennan og þarna kemur froðuáferðin inn sem stór plús. Eigum við svo eitthvað að ræða litinn sjálfan? Þetta er einn fallegast kinnalitur sem ég hef séð og mér finnst ég öll lýsast upp þegar ég set hann á mig og hann gargar ekki "ég er með KINNALIT!" þegar ég set hann á. Margir litir gera það ef þeir eru of sterkir og á sama tíma og ég elska kinnaliti, þá eru of áberandi litir eða bronserar eitt stærsta bannið í mínum bókum. Kinnaliturinn á ekki að stjórna förðununni heldur á hann að bæta hana. 

Það er lítið mál að nota puttana til sð dreifa úr litnum eins og ég sagði en mér þykir þó best að nota Expert Face Brush frá Real Techniques til að fá lýtalausa áferð en sá bursti blandar litnum vel inn í húðina og það koma engin skil heldur dofnar liturinn bara jafnt og þétt. Best er að byrja með lítinn lit í burstanum og byggja hann svo upp - liturinn er nokkuð sterkur og því er betra að byrja á litlu í einu. Ég er enn á fyrstu krukkunni minni sem ég keypti fyrir um þremur mánuðum og ég nota hann nær alla daga og hún er ekki einu sinni hálfnuð svo endingin er alveg frábærlega líka.


Ég get bara ekki nógsamlega hælt þessum lit og ég verð eiginlega að fara að kanna hina litina sem eru í boði líka. Þessi er klárlega orðinn fastagestur í minni snyrtibuddu og verður þar áfram á meðan Maybelline framleiðir hann. Ég keypti þennan í Hagkaup og hann kostar 1969 kr.stykkið. Þessi er uppáhald - fimm kettir frá mér!

No comments :

Post a Comment