Wednesday, April 8, 2015

Sykurlaus dagur nr. 1

Ég lifði þetta af. Ég reyndar átti ekki von á að fyrsti dagurinn yrði eitthvað sérstaklega erfiður því eins og ég nefndi síðast þá þykir mér ekki erfitt að sleppa sykri tímabundið. Ég byrjaði morguninn á því að fá mér boost með Nectar próteini, frosnum jarðarberjum, léttmjólk og rjómaslettu. Ég gerði reyndar frekar stóran skammt og hann entist mér í morgunmat og millimál fyrir hádegið. Í hádegismatinn fékk ég mér síðan hrökkkex með smjöri og osti og harðfiskpoki var á kantinum og ég fékk mér bita við og við út vinnudaginn. Í kvöldmatinn þá fékk ég mér ofnbakaðan þorsk með grænmeti, sósu og litlum kartöflum steiktum upp úr smjöri. Já og bara svona til að hafa það með; ég elska smjör. Og rjóma. Og ég trúi ekki nokkrum manni sem segir að það sé óhollur matur. Ef svo væri þá væru allir í sveitinni heima dauðir. Og sennilegast allir í öðrum sveitum landsins líka. Þið megið eiga von á heyra smjör og rjóma nefnt hérna á næstunni. En allavega, rétt fyrir kvöldmat þá fann ég fyrir örlitlum sykurpúka en ég held að það hafi bara verið vegna þess að ég var orðin svöng og ég fann lítið fyrir honum þegar ég var búin að borða kvöldmatinn. Í kvöldsnarl fékk ég mér síðan eitt epli með matskeið af hnetusmjöri. Ég er það heppin að jarðhnetur valda engum stórkostlegum usla í ónæmiskerfinu mínu og ég get fengið mér þær í hófi. Ég er ekki ennþá búin að drekka nema einn líter af vatni, sem er alls ekki nógu gott og ég neyðist sennilegast til að bæta úr því á þessum næsta klukkutíma þar til ég fer að sofa.

Ég lenti nokkrum sinnum í því í dag að finnast ég vera syfjuð og þreytt og ég hefði alveg getað sofnað þegar ég kom heim úr vinnunni sem er ekki venjan hjá mér. Ég er líka þreytt núna og langar alveg að fara að sofa en ég þarf að klára ýmislegt fyrst svo rúmið verður að bíða. Dagurinn var bara alls ekkert svo slæmur og ég pældi voðlega lítið í sykri eða sykurleysi. Það má samt passlega búast við að sykurskrímslið herji á mig fljótlega svo ég ætla ekkert að vera of góð með mig enn sem komið er, ég sé mig alveg í anda rífa í mig banana eins og óð manneskja þegar sykurþörfin nær hámarki og ávöxtur er það eina sem ég ætla að leyfa mér. Það er bara ekki komið að því ennþá.

Jæja, þá er fyrsti dagurinn búinn og ekkert klúður. Vei! 

No comments :

Post a Comment