Smá svona innskot í byrjun úr því svona hlutir eru í umræðunni; ég fæ ekkert gefins til að fjalla um á þessu bloggi, allt sem ég sýni hérna er keypt af mér. Allar snyrtivörur eru prófaðar í 28 daga eða lengur af mér, eða þann tíma sem tekur fyrir húðina að venjast nýjum vörum og finna út hvort að varan hafi neikvæð áhrif til lengri tíma. Örfá skipti í notkun eru ekki nógur tími til að meta hversu góð varan er eða hvort hún getur verið ofnæmisvaldandi og því nota ég vöruna í tæpan mánuð svo ég geti fjallað af alvöru um hana. Einnig vil ég taka fram að ég geri engar breytingar á sjálfri mér með photoshop eða öðrum forritum, það sem þið sjáið er bara fésið á mér eins og það í raunveruleikanum!
Ég ætla að fjalla um eitt gamalt og gott núna. Ég er búin að nota Dream Pure frá Maybelline í rúmt ár og það er orðið að föstum lið eins og venjulega í förðunarferlinu mínu. Ég á nokkra aðra farða sem ég treysti á en ég nota þennan nær alla þá daga sem ég farða mig. Bláa túpan er fyrir feita húð (það er líka til BB krem frá Maybelline í bleikri túpu) og eins og þið sjáið á myndinni fyrir neðan þar sem ég er farðalaus, þá ég er með mjög feita húð - húðholurnar eru stórar og áberandi og ég glansa mjög fljótt ef ég nota ekki réttu vörurnar. Ég er líka með rauða bletti hér og þar og húðtónninn minn er rauðbleikur. Drean Pure hentar vel þeim sem hafa sama litarhaft og það þekur bara hæfilega mikið. Ég vil að rauðkan hverfi úr húðinni en ég vil samt ekki að freknurnar mínar geri það og þá hentar BB krem vel. Ég er almennt séð með ágætishúð, fæ sjaldan bólur og þarf ekki að nota mikla þekju. Hins vegar er ég algjör ofnæmisgemlingur og þoli um það bil 20% af öllum þeim snyrtivörum sem eru í boði. Ég hef aldrei fundið fyrir neinu með þennan farða og mér líður mjög vel með hann framan í mér.
Endingin er góð, mér finnst ég sjaldan þurfa að bæta á seinni hluta dags og þá er mikið sagt því farði tollir ekki vel á húð sem er alltaf mjög rök. Þekjan er í þynnsta lagi og myndi ekki fela ör eða sár, það þarf sér hyljara ef þið viljið fela slíkt þegar þessi farði er notaður. Farðin blandast vel, ég nota alltaf Foundation Brush frá Real Techniques (þessi skáskorni, algjört klúður að hafa ekki myndað hann með, ég veit), set litla doppu á handarbakið og dreifi svo í snöggum strokum frá nefinu þar sem ég vil að farðinn sé. Ég hyl aldrei allt andlitið heldur fer ég bara yfir svæðin þar sem mér finnst þurfa að jafna litinn. Farðinn sest ekki áberandi í húðholurnar mínar og virkar bara eins og önnur húð yfir minni því hann er svo léttur og náttúrulegur - þetta er ekki farðinn fyrir þær sem vilja þykkan farða.
Farðinn inniheldur 2% Salicylic sýru sem er hreinsandi efni og hentar vel fyrir feita og bólótta húð og þó ég sé ekki að glíma við bólur þá finnst mér farðinn henta mér ágætlega, hann jafnar húðlitinn og tollir vel. Það er reyndar tekið fram að hann henti bæði undir rakakrem og án en ég myndi aldrei ráðleggja neinum að setja ekki rakakrem á húðina áður en hún er förðuð - rakakrem á að fara á húðina hvort heldur sem þú farðar þig eða ekki, ef þú vilt halda henni góðri.
En Dream Pure frá Maybelline er alveg frábær vara og ég mæli hiklaust með henni fyrir þær sem eru með feitari húð og vilja létta þekju. Fimm kettir frá mér!
No comments :
Post a Comment