Monday, September 30, 2013

Óð í pastel
Eins og ég hef talað um áður þá hef ég mjög gaman af því að færa mig inn í nýja árstíð með breyttum áherslum og litabreytingum í fataskápnum. Ég hef verið dugleg að fletta tískublöðum og skoða tískublogg undanfarið og þetta haustið fannst mér afskaplega skemmtilegt að sjá að pastellitir, og þá sérstaklega bleikir, yrðu áberandi, en þeir hverfa svona oftast á veturna þegar dekkri litir ráða förinni. Ég elska pastelliti (ég elska svo sem alla liti ef út í það er farið) og hef aldrei skilið hvers vegna þeir eru gerðir útlægir um leið og dimma tekur. Eftir nýlegt rölt um verslanir í Smáralind og Kringlunni þá fékk ég nett áfall en næstum hver einasta verslun var orðin svarthvít með slettu af dökkrauðu, gráu eða dökkbláu á milli. Ég nota alla þessa liti sjálf mikið, en mér finnst það vera algjör óþarfi að útrýma öllum öðrum litum þar sem mér þykir veturinn ekki þurfa að vera eingönguu svarthvítur. Þess vegna er ég núna að láta mig dreyma um ljósari/líflegri liti. Ég sé sjálfa mig fyrir mér í hyllingum að spóka mig um í fallegri ljósbleikri kápu á meðan ég rölti á milli verslana í desembermyrkri og snjókomu í leit að jólagjöfum, eða þá í fallegu febrúarsólinni þegar allt er að vakna til lífsins eftir dimmu mánuðina. En hérna á Íslandi seljast bara ekki ljósir litir, aðeins á sumrin jú, en alls ekki á veturna, og því er afskaplega takmarkað úrval í boði. Ef illa fer og ég kem hvergi auga á kápu eins og þessa úr Topshop (fæst ekki hérna á landinu og eins merkilegt og það nú er, þá er ekki hægt að panta af síðunni þeirra og fá sent til Íslands) þá get ég alla vega fengið mér ljósbleika peysu eða topp af þeim síðum sem senda til Íslands, og þar er úrvalið oft mjög gott. Annars þá er ég að rannsaka hverja einustu verslun sem selur vefnaðarvöru í þeirri von að finna ljósbleikt kápuuefni og hvað veit maður, kannski enda ég með fallega heimagerða kápu í staðinn. En þar til þá ligg ég yfir myndum af ljósbleikum fatnaði og læt mig dreyma.

No comments :

Post a Comment