Thursday, August 1, 2019

Andlitsmaski frá The Body Shop - British Rose


Ég á í smá erfiðu sambandi við andlitsmaska. Mér finnast þeir vera meira sölutrikk heldur en flest annað en samt nota ég þá sjálf. Sölutrikkið felst aðallega í því að segja fólki að viðkomandi maski geti gjörbreytt húðinni, að hann geti gert húðina stinnari, bólulausa, slétta, að húðholur hverfi/minnki og svo framvegis. Sumt af þessu er satt en annað alls ekki. Ekkert krem getur breytt líffræðilegu ástandi húðarinnar. Hrukkur hverfa ekki með kremi. Svo einfalt er það. Og mér þykir alveg merkilegt að þessu skuli vera lofað í auglýsingum. Ysta húðlagið hefur ekkert að segja um hrukkur og húðholur. Allt stuðið gerist í neðsta húðlaginu og þangað kemst ekkert krem. Ég er heldur ekkert viss um að það væri gáfulegt að koma kremi þangað yfirleitt en það er nú önnur saga. En sannleikurinn er sá að krem eru ekki töfralausnir og sama hversu dýr þau eru þá eru þau ekki að fara að stroka út síðustu tíu árin af andlitinu. 

En maskar (og krem) eru alls ekki tilgangslaus og skiptist tilgangurinn í tvo hluta að mínu mati; fyrirbyggjandi og svo andlegan. Já ég sagði andlegan. Ég útskýri það eftir smástund. En byrjum á fyrirbyggjandi. Það sem veldur því að húð helst ungleg lengur, falleg og heilbrigð er númer eitt erfðir. Það sem foreldar þínir gáfu þér er að mestu það sem segir til um hvernig húð þú ert með og hvernig hún eldist. Þar á eftir koma utanaðkomandi þættir eins og sól, reykingar, drykkja, stress, svefn og matarræði. Að sinna líkamanum vel með heilbrigðum lífsstíl gerir heilmikið og þar á meðal að nota krem og maska. Það sem slík tól gera er að gefa húðinni raka sem er það allra mikilvægasta sem þú getur gert. Raki er númer eitt tvö og þrjú. Þurr húð "brotnar" mun hraðar en húð sem er mjúk. Svo eru það vörur sem innihalda sólarvörn, þær hjálpa húð sem er mikið í sól og það kemur í veg fyrir hraðari hrukkumyndun. Einnig innihalda sum krem og maskar sótthreinsandi efni og geta þau hjálpað til við að hreinsa húðina þó það komi ekki í veg fyrir frekari bólumyndun, sem í flestum tilfellum kemur til af hormónum. En þau geta hjálpað til við að losna hraðar við bólur sem þegar eru komnar. Svo eru sum krem og maskar sem innihalda sýrur og önnur sterkari efni sem lýsa húðina og það getur jafnað húðlitinn smávegis. Að lokum er síðan þessi vinsæla mýta; það er ekkert sem getur losað þig við húðholur. Þær eru ekki eins og dautt skinn sem þú skrúbbar í burtu heldur eru þær hluti af húðinni og út um þær kemur sviti og önnur óhreinindi sem líkaminn þarf að losna við. Ef krem eða maski á að geta minnkað húðholur þá er það bara markaðssetning. 

Andlegi hlutinn er líka mikilvægur, því glaður og ánægður hugur er hluti af betra útliti, eða svo finnst mér. Þegar mér líður eins og ég sé að dekra við mig, sinna mér vel, þá líður mér vel. Að gera sér dagamun og setja á sig maska, fara í bað, kveikja á kerti, lakka neglurnar eða álíka, þá líður mér virkilega vel og vellíðan er líka hluti af heilbrigðri húð. 

En allavega. Mér fannst ég þurfa að röfla allt þetta til að útskýra hvað það er sem ég býst við af slíkum vörum. Ég býst ekki við kraftaverki og gott að hafa í huga hvert viðmiðið er. 

Ég fór í The Body Shop um daginn og ég ætlaði að kaupa hunangsmaskann sem allir töluðu um fyrir einhverju síðan. Þegar ég kom þangað þá sá ég að nokkrir maskar voru á útsölu og ég ákvað að grípa einn af þeim í staðinn bara til að prófa eitthvað nýtt og óvænt. 


Maskinn heitir British Rose og er gelmaski. Í honum er rosehip olía, rósablöð og rósakjarnaolía ásamt aloe vera og hann er 100% vegan og án allra parabena, parffíns, sílikona og hráolíu. Maskinn á að auka raka í húðinni, gera hana ferska, þétta hana og róa. 

Hann er eins og hlaup í útliti og viðkomu og hann var kaldur þegar ég bar hann á húðina sem mér fannst vera þægilegt. Það er búið að vera nokkuð heitt hérna norðan fjalla í sumar og kælingin var kærkomin. 


Ég á ekki sérstakan bursta fyrir maska því ég nota alltaf þennan meikbursta frá Real Techniques sem er alveg fullkominn í hlutverkið. Hann virkar engan veginn fyrir mig til að setja meik á mig enda set ég alltaf bara hyljara á mig og bursti er óþarfur en hann er frábær í maska. Hárin eru skáskorin og því auðvelt að bera maskann á í kringum t.d nef og augu. Mæli eindregið með þessum í maska. 


Ég er yfirleitt ekki hrifin af vörum með rósailm í því mér líka lyktin bara alls ekki. Af alvöru rósum þykir mér hún góð en annars ekki. En lyktin í þessum maska var bara góð, mild og fersk svo meira að segja ég var sátt. 


Maskinn var auðveldur í ásetningu enda þægilegt að vinna með gel, hann var kaldur á húðinni og mér leið vel með hann á. Sumir maskar fara að pirra húðina á mér eftir stuttan tíma, þá sérstaklega maskar sem stífna, en þessi gerir það ekki. Hann helst bara eins og hann er í byrjun. Maskinn á að liggja á andlitinu í 5-10 mínútur en minn var örugglega á í klukkutíma... Ég var að lakka á mér neglurnar (en ekki hvað?) og brasa eitthvað og steingleymdi honum á. Segir kannski mikið til um hversu þægilegt það var að hafa hann á andlitinu. Það var líka auðvelt að ná honum af og húðin var fersk eftir á. 


Í stuttu máli þá myndi ég segja að hann væri mjög fínn. Framleiðendurnir lofa engu sem ekki er hægt að lofa sem er góð byrjun. Þetta er eins og rakasprengja eiginlega og því hentar hann öllum húðtýpum. Ég er með mjög feita húð en hún þarf nú samt raka. Allra þurrasta húðtýpan myndi kannski þurfa eitthvað feitara yfir hávetur en fyrir sumarmánuðina þá myndi ég segja fólki að hiklaust prófa þennan. Ég hef vissulega bara notað hann einu sinni svo ég á eftir að prófa hann reglulega á næstunni og uppfæra færsluna í samræmi við það. Stærsti plúsinn var svo að ég tók eftir því daginn eftir að húðin var einstaklega rök. Hún var örlítið þvöl viðkomu og greinilegt að hún hafði fengið nóg af raka. Það er nákvæmlega það sem ég vildi fá með því að nota hann. Svo fyrir mitt leiti þá mæli ég hiklaust með honum og enn sem komið er þá fær hann fullt hús stiga. 
5/5.


No comments :

Post a Comment