Thursday, July 11, 2019

Hveitilausar muffins - samt ekkert hollar


Mér þykir afskaplega gaman að skoða á Pinterest - eitthvað sem ég nefndi örugglega reglulega á blogginu í gamla daga. Ég tek alltaf svona tarnir og kíki oft og fæ margar hugmyndir og stundum skoða ég ekkert svo vikum skiptir. Ég nota það mjög oft sem innkaupalista fyrir hluti sem ég þarf að hafa fyrir að muna eftir að kaupa - nothæfum lökum á rúmið kannski farið að fækka og það þarf að skipta út, mig langar í nýtt áklæði á hægindastólinn - lesist, þarf í Ikea að kaupa ýmislegt og þegar ég er komin í Ikea þá gleymi ég mér í plöntudeildinni og kem út með fjórar nýjar plöntur, vanilluilmkerti, slatta af blómapottum, tvo myndaramma og mæliglas en ekki eitt einasta lak. Þá er geðveikt gott að opna Pinterest og skoða "ÞAÐ SEM ÞARF AÐ KAUPA" dálkinn og þá man ég að koma við og grípa með það sem ég í rauninni þarf. Já, ég þarf oft aðstoð við að muna einföldustu hluti. Síðan ég fór að gera þetta þau hefur skiptunum þar sem ég kem heim með það sem mig vantar í alvöru fjölgað mikið.

Allavega. 

Mér sem sagt þykir Pinterest skemmtilegt og nytsamlegt. Það sem ég ætlaði samt að skrifa um var að ég nota það líka oft fyrir uppskriftir. Ég er meira að segja mér sér dálk fyrir uppsriftir sem ég hef prófað og ætla að gera aftur því þær voru góðar, og svo annan dálk fyrir uppskriftir sem bara voru ekkert góðar og ég kem aldrei til með að reyna aftur. Þessi uppskrift lenti í "geri aftur" hópnum og ég geri hana alltaf reglulega. Þessar muffins eru víst hveitilausar. En mér er alveg sama um það, ég gerði þær ekki til að baka eitthvað "hollt" enda eru þrjár matskeiðar af hunangi í einni uppskrift og slatti af súkkulaði svo hvað hefðbundna hollustu varðar þá eru þetta engar megrunarmuffins. Enda var ég ekkert á höttunum eftir hollustu þegar ég fann þær. Það sem hinsvegar heillaði mig var að það eru fá innihaldsefni og þú skellir þeim í blandara, hrærir gumsið saman og setur svo í form og bakar í tæpar tíu mínútur. Þetta er gert á undir 15 mínútum og ef þér þykja bananar og hnetursmjör gott þá er þetta fyrir þig. Uppskriftina fann ég inni á einhverju bloggi um mat, Averycooks.com heitir sú síða og hún Avery má fyllilega eiga það að þessar eru ljúffengar. Þau sem vilja skoða upprunalegu uppskriftina geta smellt á hlekkinn og farið beint og skoðað hana.  


Þessar dúllur eru smá klesstar enda ekki hefðbundnar muffins og bragðið er einfaldlega bananar, hnetusmjör og súkkulaði. Aðferðin er einföld. Kveiktu á ofnum og settu hann á 200° og vertu með tilbúinn blandara og settu eftirfarandi í hann:

1 meðalstóran banana
125 gr. hnetusmjör
1 egg
3 matskeiðar hunang
1 matskeið vanilludropar
1/4 teskeið lyftiduft
smá salt
55 gr. súkkulaði í smáum bitum (ehh, ég hrúgaði nú bara einhverju þannig að mitt deig var nánast bara haugur af súkkulaðibitum með smá bananagumsi... en mjög gott samt)

Svo bara spreyja PAM á muffinsform til að gera það fitugt fyrir múffudúllurnar, skella í ofninn og baka í 8 1/2 mínútu. Þær rísa fyrst voða vel en falla svo töluvert eftir að þær eru komnar úr ofninum sökum hveitileysis. Ég set frekar mikið í hvert form svo með því, (ásamt því að ég ét slatta af deginu) þá næ ég í um 6-8 muffins. 


Ég tók reyndar ekki tímann á mínum, ég fylgdist bara með þeim þar til þær voru orðanr smá gulbrúnar og búnar að lyfta sér og tók þær þá út. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið rétt um 10 mínútur sem þær voru inni og það var bara passlegt.


Svo reyni ég bara eftir fremsta megni að éta þær ekki allar ein í einu vetfangi. Smá bónus fyrir deigæturnar þarna úti - degið er æði og það er mögulegt að ég hafi borðað deig sem samsvarar tveimur muffins í öll skiptin sem ég hef gert þær. En bara mögulega.

Njótið!


No comments :

Post a Comment