Tuesday, February 10, 2015

Regla 6.

Ekki reyna of mikið.



Ég hef margsinnis litið út fyrir að vera að reyna of mikið með því að klæðast fötum sem mér leið ekki vel í. Þegar ég segi "reyna of mikið" á ég við ástandið sem skapast þegar ég þarf stanslaust að vera fylgjast með því sem ég hef klætt mig í - til dæmis eins og fallegu gráu ökklahælarnir úr GS skóm sem litu svo flott út en það var martröð að ganga á þeim, eða flottu eldrauðu gallabuxurnar sem voru svo rislágar að ég þurfti að hysja upp um mig í öðru hverju skrefi, nú eða sæta loðna peysan sem skildi eftir sig slóð af hárum hvar sem ég fór - allar þessar flíkur litu vel út en hentuðu mér ekki á einhvern hátt. Ég veit það til dæmis fullvel að ég geng sjaldnast á háum hælum, ég vil alltaf frekar vera stöðug á fótunum heldur en að staulast um á hælum sem ég ræð ekki við eða þurfa að setjast á tónleikum vegna þess að ég er svo þreytt í fótunum. Ef ég ætla út að dansa þá eru þægilegir skór í forgang, takk fyrir kærlega. En það er bara ég. Þær sem geta gengið á háum hælum í öllum veðrum og verða bara ekki þreyttar í tánum eiga vissulega bara að gera það áfram. En ég er ekki ein af þeim og flestir af hælunum mínum verða að vera í miðhæð eða lágir til að ég gangi í þeim. Þess vegna er lítið vit í því að kaupa skó með svo háaum hæl að ég þarf að styðja mig við handrið eins og drukknandi manneskja í hvert skipti sem ég þarf að labba upp eða niður örfáar tröppur. Það er bara ekki kúl. Ég veit líka vel að rislágar buxur henta mér ekki (henta þær einhverjum?) því ég þoli ekki að líða alltaf eins og buxurnar séu að síga niður um mig eða þá að þurfa að passa að flassa ekki fólk með rosalegum plömmer þegar ég beygi mig áfram því buxurnar ná ekki upp fyrir skoruna. Það er bara lítill kynþokki í því þó að iðnaðarmenn margir hverjir haldi annað.

Í ákveðnum tilfellum finnst mér gott mál að halda sig innan þægindarammans. Ég reyni að muna það þegar ég versla og það myndi ekki hvarfla að mér í dag að kaupa mér gallabuxur sem sitja á mjöðmunum eða þá himinháa hæla sem fá mig til að labba um eins og köttur í sokkum (hér er dæmi: https://www.youtube.com/watch?v=7AGkGdYUoV4). Það sama á við um allan fatnað sem er heftandi að einhverju leiti. Ég er ekki að segja að allir eigi að ganga um í risamussum og íþróttaskóm en það er gott að muna eftir því sem hefur margsannað sig að gengur ekki upp - ég kaupi ekki rislágar buxur, háa hæla, hárbönd (ég hef margsinnis reynt en ég bara nota þau ekki), skyrtur sem eru fullþröngar yfir brjóstin en sleppa ef ég lyfti handleggjunum ekki of mikið (hljómar það gáfulega?) og þar fram eftir götunum. Flestir þekkja sín takmörk og það er mjög skynsamlegt að hlusta bara á þau í stað þess að eyða peningum í eitthvað sem er sjaldan notað þó manni langi til þess.

Flestir sem líta vel út og hafa töff stíl eiga nefnilega eitt sameiginlegt að mínu mati og það er að þeim líður vel í því sem þeir klæðast. Allar hreyfingar eru eðlilegar, fötin liggja vel á líkamanum og allir skór líta út fyrir að vera framlenging á fótunum en ekki hræðilega óþægileg viðbót sem valda skrýtnu göngulagi. Þú sérð ekki þannig fólk vera stanslaust að toga í fötin og lagfæra þau því það kann að velja fatnað sem hentar þeirra daglegu venjum. Ef þér finnast fötin vera óþægileg á einhvern hátt þá sést það langar leiðir og ef þú þarft stanslaust að fylgjast með í spegli hvort að allt sé á réttum stað þá ertu á villigötum. Flottur stíll kemur með afslöppuðu útliti, sjálfsöryggi og vellíðan. Það margborgar sig að fjárfesta í hlutum sem þú veist að þér líður vel í. Þá ertu að safna í góðan skáp sem nýtist vel.

No comments :

Post a Comment