Sunday, February 8, 2015

Tískuljón í pásu



Þessi helgi er búin að vera alveg glötuð. Þetta var fríhelgin mín og það eina sem ég er búin að gera síðan á föstudagskvöldið er að reyna hrekja í burt flensu sem vill ólm kvelja mig. Í síðustu viku vaknai ég með smá sáran háls en venjulega tekst mér að hrista það af mér með því að klæða mig vel, taka pásu frá ræktinni og eyða kvöldinu upp í rúmi með te og bók og fara snemma að sofa þó mér finnist það oft vera erfitt. En þegar ég kom heim á föstudaginn þá fann ég að ég var að tapa fyrir flensuskrattanum og jújú ég mátti liggja alla helgina, raddlaus og voðalega aum eitthvað. Ég þakka fyrir það að ég er almennt mjög heilsuhraust og það er ár síðan ég var síðast lasin enda HATA ég að þurfa að vera inni af því ég neyðíst til þess. Ég hafði plön fyrir hitt og þetta en svo varð ekkert úr neinu. Enda lít ég illa út, rauðnefjuð með skítugt hár og það kemur hvæs þegar ég reyni að tala. En helgin var þó ekki alveg til einskis og mér fannst þessi innivera vera kjörið tækifæri til að mála smávegis, enda læt ég penslana oft sitja á hakanum fyrir eitthvað annað. Nokkrar myndir litu dagsins ljós og þar á meðal þessi hérna. Ég er búin að bíða heillengi eftir þessari vinkonu minni, ætli það sé ekki ár síðan ég hafði óljósa hugmynd um hana og hvernig ég vildi koma henni frá mér en það gerðist ekkert fyrr en í gærkvöldi, þá bara allt í einu var hún tilbúin. Svona gerjast þetta stundum lengi inni í manni áður en það myndast á pappírnum. En hér er hún allavega komin, álfadrottningin mín. Það gæti reyndar verið að ég vinni hana aðeins meira en það kemur bara í ljós og mig grunar sterklega að það leynist fleiri myndir í þessu þema í kollinum á mér, mér líður ekki eins og það sé búið alveg strax.

Svona eyðir maður tímanum þegar veikindi koma í veg fyrir að hægt sé að klæða sig upp og taka hring í nýjum kápum. Stundum er það nú líka bara mjög gott, að leyfa sér að vera með skítugt hár og týna sér í undraveröld penslanna. Þá kemur maður tvíefldur til baka. En jæja, aftur undir sæng að hræða flensuna burt!


No comments :

Post a Comment