Monday, January 26, 2015

Regla 5.

Henda því sem ekki á heima í skápnum.Í góðum fataskáp eru bara föt sem eru notuð og ekkert annað. Ég er mjög ströng á þessu við sjálfa mig og losa mig reglulega við flíkur úr skápnum sem ég hef ekki notað í langan tíma. Hjá mér þýðir langur tími sex mánuðir eða rétt þar um. Ef ég á peysu sem ég hef ekki notað í heilan vetur þá þýðir það að hún á ekki heima í skápnum mínum, tekur bara pláss og betra væri ef hún kæmist í hendur einhvers sem kynni að meta hana. Þetta er svona andlega hreinsandi fyrir mig. Ég vil bara eiga föt sem ég elska og ég þoli ekki troðinn skáp af drasli. Í hvert skipti sem ég hreinsa til þar inni þá er eins og það létti yfir mér - ekkert óþarfa drasl að trufla mig, himneskt.

Það er reyndar millistig í boði líka. Þær flíkur sem ég er einhverra hluta vegna ekki að nota í augnablikinu en ég tími samt ekki að láta alveg frá mér fara í poka inn í geymslu í annað hálft ár eða svo. Sumt hefur tilfinningalegt gildi, sumt elska ég en er kannski búin að nota of oft og vil fá smá pásu frá því, sumt eru vetrar- eða sumarflíkur og fá að bíða þar til að rétta árstíðin er gengin í garð. Allt annað fer í Rauða krossinn eða með mér og mömmu í Kolaportið þar sem við höfum nokkrum sinnum losað okkur við flíkur sem við erum búnar að fá okkar not úr. Ég passa mig samt á því að troðfylla ekki geymsluna, ég vil ekki búa til annan drasl stað þar.

Regluleg tiltekt gerir skápinn aðgengilegan og þægilegan og ég verð líklegri til að velja góðar fatasametningar því ekkert drasl truflar mig.

Og já. Ég á engar gallabuxur inni í skáp sem ég ætla að passa í "einn daginn". Ef ég grennist þá bara kaupi ég minni buxur þá. Einfalt mál.

No comments :

Post a Comment