Saturday, January 17, 2015

Kósýheit í öðru veldi

Öhemm. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að afsaka mig í milljónasta skiptið fyrir að ætla að vera dugleg en læt svo ekki í mér heyra svo vikum skiptir. En hvað um það. Svona fór þetta sökum einstaklega mikils annríkis síðasta árið eða svo og ekki bætti úr að tölvugarmurinn minn er við það að gefa upp öndina, ræður ekki við að vinna myndirnar mínar og lyklaborðið er ónýtt. Ásamt því var ég í fullri vinnu og í 20 einingum í HÍ og tími til að blogga varð enginn. Jæja, komin á fullt í að afsaka mig og tína til ástæður, einmitt það sem ég ætlaði ekki að gera. 

Allavegana. Mér finnst gaman að blogga og núna eftir áramótin þá verð ég ekki í skólanum heldur bara í vinnunni og á því kannski stöku stund lausa til að blogga, enda setti ég það á lista hjá mér í upphafi árs að sinna því betur. Ég fæ eina önn í frí áður en ég klára námið - ég ætlaði ekkert að klára BA í sagnfræði og sérstaklega ekki strax á eftir að ég kláraði listfræðina en svona æxlast hlutirnir stundum. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu fyrir jól að ég þarf smá frí til að eiga líf og gaf mér því eina önn í frí. 

Enda er ég búin að eiga afskaplega góðan tíma síðan ég kláraði prófin í desember. Ég er gjörsamlega búin að njóta þess í botn að þurfa ekki að opna bækurnar um leið og ég kem heim úr vinnunni. Ég hef hangið og spilað tölvuleiki, lesið, legið á Pinterest og horft á sjónvarpið, bara vegna þess að ég get það. Og svo kom bara tími á það að dressa sig upp og hlaupa út með myndavélina. Það var ægilega kalt og því tilvalið að sýna einkennisbúninginn minn síðustu tvo mánuðina sem samanstendur af peysum og aftur peysum. Því stærri því betra. Og þessi samsetning var afar einföld í samsetningu enda elska ég allt frá skónum og upp í kragann út af lífinu. Ja eða eins og hægt er að elska föt. Já og ég biðst innilega afsökunar á því hvað myndirnar eru dökkar, við töfðumst á leiðinni út og misstum af sólinni. Birtuskilyrðin voru því agaleg en ég vildi ekki hætta við og fékk því þessar dökku myndir í staðinn. Muna að vera tímanlega að þessu næst!


Skórnir eru Vagabond og ég fékk þá í snemmbúna afmælisgjöf frá fjölskyldunni í ár. Mikið var ég glöð að eignast þá. Þeir passa við bókstaflega allt í skápnum mínum og mér hefur ekki liðið svona vel í fótunum síðan ég eignaðist fyrstu Under Armour skóna mína. Héðan ég frá kaupi ég ekki annað en Vagabond, það er á hreinu.


Súper stóra peysan og súper síða skyrtan eru báðar úr Lindex. Ég hef varla farið í annað síðan ég eignaðist peysuna og ég fer ansi oft í þessa skyrtu undir hana enda elska ég marglaga fatasamsetningar. Skyrtan passar undir næstum allar peysurnar mínar og gerir þær gjöðveikislega kúl.


Taskan sem ég er með er vintage og kom úr Gyllta kettinum - mamma gaf mér hana og mér þykir alveg sérstaklega vænt um hana þess vegna. 


Síðast en ekki síst þá var ég með ullarkragann minn æðislega. Ég hef ekki tekið hann niður síðan hann varð minn. Við seljum þessa kraga í Fóu og þeir hafa bókstaflega rokið út eins og heitar lummur. Enda hver öðrum fallegri. Hann er úr íslenskri ull og handgerður fyrir norðan svo ég er með gæðavöru í höndunum og ég hef sett hann á axlirnar á mér nánast upp á hvern einasta dag núna eftir áramót og kem til með að gera það áfram. 



Nóg í bili - sjáumst fljótlega aftur!

Linda



No comments :

Post a Comment