Thursday, February 7, 2013

Að hugsa um sumarið í slyddu

Ég hef alltaf verið þannig að mér þykir auðvelt og nauðsynlegt að hlakka til. Helmingurinn í skemmtuninni felst í því að hlakka til og ég hef með eindæmum gaman að því að skipuleggja, pæla og hugsa um komandi tíma. Ég reyni þó að muna að það er ekki mikilvægt að standa við allt það sem ég plana eða vonast til að geta gert, því það hefur hingað til bara valdið svekkelsi að geta ekki gert allt það sem planað var eða dreymt um. Núna er þetta meira svona viðmiðunarhobbý hjá mér. Mér þykir gaman að plana og dreyma, en man eftir því að heimurinn ferst ekki þó að ég nái ekki að gera allt sem mig langar, eigi ekki peninga, eða ef plön breytast skyndilega.

Gott dæmi um þetta eru mistök sem ég gerði mörg jól í röð, en það var að ætla mér að senda öllum heimagerð jólakort, gera sælgæti heima til að gefa og þar fram eftir götunum. Voðalega skemmtilegt að geta gert það, en ekki alltaf raunhæft. Hvert einasta jólakort var teiknað og skreytt og þau tóku mjög langan tíma í gerð. Og sælgætið varð bara til að pirra mig, því þó ég hafi gaman að eldamennsku, þá á sælgætisgerð ekki við mig. Ég varð svekkt og leið yfir því að ná ekki að gera hvoru tveggja og endaði á að ná að senda bara örfá jólakort (stundum engin) og gefa nammi sem ég var ekki nógu ánægð með. Mér hefur loksins tekist að læra að ég þarf ekki að gera bæði, eða að hreinlega einfalda hlutina. Núna veit ég að þó mig dreymi um að vera æðislega klár og sniðug í korta- og sælgætisgerð, þá er í lagi þó að eitthvað bregði útaf. Það hefur reynst vel að einfalda kortin og byrja snemma á þeim. Síðast þá klippti ég út einfaldar myndir (gekk vel yfir sjónvarpsglápi) og límdi á falleg kort og skrifaði texta með skrautpenna - mjög fallegt og einfalt (og svo á ég pakka af tilbúnum kortum inni í skáp ef ske kynni að ég nái ekki að klára hin). Og sælgætið? Ég er hætt því. Ég er ekki góð í sælgætisgerð, og þá sleppi ég því.

Auðvitað er þetta allt spurning um skipulag, en ég er greinilega ekki ennþá komin á þann stað í lífinu þar sem mér tekst að læra fyrir skólann, sinna heimili og maka og öðrum fjölskyldumeðlimum, vinum, félagslífi og svo mínum einkatíma, á sama tíma og að klára allt hitt sem mig dreymir um að gera (auðvitað hefði ég meiri tíma ef ég t.d. hætti að hanga á facebook eins mikið og ég geri eða að skoða tískusíður, hey - ég er að læra það enn). Það hefur reynst mikill léttir að hætta að setja pressu á sjálfa mig - auðvitað er pressa nauðsynleg svo ég standi mig vel - en óþarfa pressa eins og sælgætisgerð er ekki velkomin. Ég læt mig því dreyma áfram án þess þó að týna mér í því.

Og eitt af því sem mig er farið að dreyma um er sumarið. Ég sé fyrir mér að ferðast um Evrópu í sól og hlýju, skoða franska sveit, fara á strönd í Króatíu og tónlistarhátíð á Englandi. En það gæti vel verið að það fari ekki þannig (!). En raunhæfir draumar um að fara í sumarbústað á fallegum stað hér heima, fara í hestaferð og kannski dagsferð á eitthvað fjall (nýju Cintamanigönguskórnir þurfa að vera notaðir almennilega), tjalda og grilla og fara oft í sund, er hins vegar allt annar handleggur. Og ég hef plön um að láta eitthvað af þessu gerast. Og núna hlakka ég til sumarsins!
                             Íslenskar sumarnætur - mig dreymir um þær í slyddunni!
No comments :

Post a Comment