Wednesday, September 26, 2012

Litagleði

Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast við haustið eru þessar yndislegu litabreytingar sem verða þegar allt verður rautt og appelsínugult. Það er virkilega gaman að fara í göngutúr með myndavélina og ná fallegum myndum af náttúrunni áður en öll lauf verða fallinn og veturinn verður alkominn. 


Ég ákvað í dag að skella mér í gönguferð (hafði reyndar takmarkaðan tíma þar sem lærdómur kallar á mig), keyrði upp í Elliðarárdal og hafði með mér klippur. Þar sem ég er sveitastelpa í gegn þá sakna ég þess alltaf að vera ekki í friðinum sem fylgir sveitinni. Það er nauðsynlegt að rölta í góðu rigningarveðri og finna lyktina af blautri mold og grasi - ég vil meina að svoleiðis ferðir geri bæði mér og heimaverkefnunum gott því ég kem alltaf endurnærð til baka. En eins og algjör kjáni þá gleymdi ég myndavélinni! Nokkuð sem ég geri aldrei því hún er alltaf í töskunni með mér. En ég kom ekki tómhennt til baka því að ég klippti niður nokkrar fallegar greinar og reyniber sem ég notaði svo í haustskreytingar heima. Önnur þeirra varð afskaplega jólaleg, ég er mikið jólabarn svo það gerist stundum að hlutirnir verða óvart jólalegir. En það er nú í lagi, það má þá bara nota hana lengur! 






Klippurnar góðu og fílaspreyið (Elefanten Haut frá Oasis - fæst í flestum blómabúðum og litli brúsinn kostar í kringum 2000 kr.) eru nauðsynleg áhöld til að snyrta greinarnar og koma í veg fyrir að þær þorni. Gott er skáklippa endann á greinunum sem á að stinga í vatn og síðan stilkhreinsa þann hluta sem verður alveg ofan í vatninu því ef lauf og lítil ber eru skilin eftir þá rotna þau í vatninu. Greinarnar voru frekar þungar og það hefði verið sniðugt að setja litla steina í botninn til að geta stjórnað því betur hvernig þær lögðust, en ég átti enga steina og lét þetta bara duga. Eftir það spreyjaði ég þær með fílaspreyinu og lét þorna í smástund áður en ég raðaði þeim í vasann. Svo skellti ég þeim bara á skenkinn minn og voila, strax kominn smá haustfílingur! Ég ætla reyndar að rölta aftur bráðlega og klippa pínu meira af appelsínugulum greinum, það vantar meiri fyllingu með þessum rauðu og það eru nokkrir girnilegir runnar hér rétt hjá.




Jólalega skreytingin var ennþá einfaldari - ég keypti mér einfaldan hvítan disk á 300 kr. og svo hvítt kubbakerti á 500 kr. í Tiger. Svo brenndi ég smá vax á diskinn, festi kertið í það, snyrti reyniberin og spreyjaði þau og raðaði þeim síðan allt í kringum kertið.





Ég bætti reyndar við nokkrum kanelstöngum, sem hjálpaði ekki neitt við að gera þetta minna jólalegra! En hún er voða fín á borðinu hjá mér þrátt fyrir það. Það er minnsta málið að skipta út litum á bæði kertum og disk og bæta við örlitlu brúnu og appelsínugulu (könglar, appelsínugul lauf) til að "hausta þetta upp". 

Það sem er síðan næst á dagskrá er að kaupa haustkrans í Býflugunni og Blóminu heima á Akureyri þegar ég fer þangað næst. Þau gera alveg virkilega fallega kransa sem hægt er að hengja á hurðir og það er alltaf frekar erfitt að velja úr úrvalinu hjá þeim. Einhver svipaður þessum verður vafalaust fyrir valinu á hurðina hjá mér. 


1 comment :

  1. Ég ætla klárlega að gera mér svona skreytingu, mjög flott hjá þér, og stílhreint :)
    Og það er svo stutt í jólin, allt í lagi að hafa hana smá jólalega ;)

    ReplyDelete