Friday, April 17, 2015

Dior IT-LASH maskari - umfjöllun

Ég er búin að nota Dior It-Lash í þrjá mánuði núna og ég elska hann. Þegar ég byrjaði fyrst í fóu þá voru stelpurnar þar með svo áberandi löng og þykk augnhár að ég tók alveg sérstaklega eftir því og ég man eftir að ég hugsaði með mér "já maður, þetta er augnhárafyrirtækið!" þegar ég sá þær fyrst. Ég var ekki lengi að komast að því að umræddur maskari var einmitt It-Lash en það tók mig hins vegar næstum ár að kaupa hann, aðallega vegna þess að ég átti tvo nýja maskara sem höfðu verið keyptir handa mér í Kanada og ég vildi klára þá fyrst. Ég sé ekki eftir því að hafa splæst rúmum 5000 kalli í þennan - hann er alveg þess virði. It-Lash er maskari sem á aðallega að lengja, eitthvað sem ég sækist ekki eftir því ég er með mjög löng augnhár og leita frekar eftir þykkingu en hann þykkir alveg ef maður notar hann rétt. Ég fer alltaf tvær umferðir, fyrst bretti ég augnhárin öðrum megin og fer eina umferð yfir og passa að fara vel ofan í hársræturnar og færi mig svo yfir og geri það sama. Því næst fer ég aðra umferð yfir og passa að bera maskarann aftur vel ofan í ræturnar og það er þá sem að þykktin verður verulega góð. Hárin verða alveg kolsvört, maskarinn þornar mjög fljótt og klessist ekki á augnlokið ef maður opnar of snemma, hann molnar sama og ekkert og tollir allan daginn án þess að fröken pönduaugu mæti á svæðið. Maskarinn er líka jafn flottur um kvöldið eins og hann var um morguninn svo endingin er mjög góð. Á fystu myndinni er ég búin að setja á mig  rakakrem, BB krem frá Maybelline og svo kinnalit frá Maybelline, og hef fjallað um hér og hér og á seinni myndnum er ég augljóslega komin með maskarann ógurlega - augnhárin verða feit og fín og ég get farið út í daginn vopnuð ofuraugnhárum. Þessi fær fullt hús stiga hjá mér!







Sunday, April 12, 2015

Rauð peysa með dass af hlébarða


Þeir sem þekkja mig vita að ég elska hlébarðamunstur. Það er til dæmis ekki langt síðan ég talaði um þessa skó hérna og tók undir þá fullyrðingu að fyrir mér væri hlébarðamunstur hlutlaust. En á sama tíma og ég segi að það sé hlutlaust þá er það nefnilega líka mjög áberandi og eftirtektarvert og það er fátt sem gerir jafn mikið fyrir annars hversdagslegt outfit eins og þetta sem ég sýni í dag. Ég er bara í ofurvenjulegri rauðri peysu og bláum gallabuxum, alveg sætt en kannski ekki neitt voðalega spes. Venjulegir svartir ökklarskór hefðu alveg dugað fínt en þessir skór gera það aaaaðeins meira töff. Og það er sú breyting sem ég reyni hvað oftast að ná fram þegar ég klæði mig, afskaplega hversdagslegur grunnur með einhverju einföldu en þó áhrifaríku sem dregur outfittið úr "hversdags" upp í "töff". Dass af hlébarða gerir allt betra!








Sykurlausir dagar 3.-4.og 5.


Jæja, ég náði ekki alveg að fylgja eftir að setja efni inn hvert kvöld en tek þetta þá bara saman núna í einni færslu sem komið er. Þetta er í einu orði búið að ganga vel. Svo vel að ég er að velta fyrir mér hvort að eitthvað hafi bilað inni í mér - sykurpúkinn fengið hjartaáfall eða eitthvað (ekki að það væru slæmar fréttir eða neitt, hann má alveg drepast mín vegna) en ég átti passlega von á að þetta yrði að minnsta kosti smá erfitt. En nei. Eini dagurinn sem ég fann fyrir einhverri löngun var föstudagurinn og það snerist um að mig langaði í tómatsósu á frönskur sem ég fékk mér. Ég leyfði mér örlítið af henni (kannski matskeið) og var svo góð. Mig hefur ekki langað í nammi eða kökur eða gos, ég drekk yfirleitt ekki mikið af gosi svo það kemur kannski ekki á óvart. En það sem hefur hins vegar komið mér á óvart er að það hefur verið mest "erfitt" að fá sér ekki sushi útaf sojasósunni og að geta ekki gripið eitthvað tilbúið með sér því allur tilbúinn matur er stútfullur af sykri og þar sem ég er ekki skipulagðasta manneskjan alltaf þá getur það verið smá bras. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum að ég hef hreinlega verið svöng því ég vildi ekki fá mér að borða þar sem ekkert var í boði nema matur með sykri. Engar áhyggjur, ég er ekki farin yfir á slæma staðinn heldur er ég bara meðvituð um að sykur er allsstaðar og ég vil minnka hann úr matarræðinu hjá mér. Fyrir utan að þó að það sé stanslaust verið að hamast á okkur í dag með þann boðskap að svengd sé óeðlileg, að þá trúi ég því ekki. Ég kaupi ekki bullið um að ég verði að borða á tveggja tíma fresti, að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins og allt það - ég borða þegar ég er svöng, ekki þegar aðrir segja mér að gera það og ef ég þarf að vera svöng í smá tíma vegna skipulagsleysis eða út af öðrum ófyrirsjáanlegum ástæðum þá er það bara allt í lagi. Ég drepst ekkert úr hungri, það er alveg á hreinu.

En allavega þá er þetta búið að ganga vel - ég þarf að passa það sem ég versla og er þar af leiðandi búin að borða mikið af hreinum mat, smjör og ost sem álegg, boost með ávöxtum og mjólk, hreina jógúrt, kjöt, fisk og grænmeti. Á föstudaginn fékk mér nokkrar franskar þar sem ég átti botnfylli eftir í poka í frystinum og öll sykurpúkalöngun hvarf eftir þessar örfáu frönskur, sem er fyndið því ég er venjulega ekkert spennt fyrir þeim. Í gær þá var lakkríssmakk í boði í vinnunni - við seljum súkkulaðið frá Omnom og við fáum venjulega kassa af einni tegund til að bjóða viðskiptavinum upp á og lakkríssúkkulaðið er svoooooo gott! Venjulega á ég mjög erfitt með að hemja mig en í gær þá leit ég ekki við því. Um kvöldið var svo vinkonuhittingur og ég ákvað að það væri í góðu lagi að fá sér smá sushi og jafnvel eftirmat. Mjög meðvituð og plönuð ákvörðun um að innbyrða smávegis sykur eyðileggur ekkert, er það? Við fórum á Sushi Train og ég naut þess í botn að fá mér sushi og hlægja með stelpunum. Eftir á þá ákváðum við að taka rúnt og fá okkur Valdís og vá hvað ísinn var góður. Það er eins og að bragðið og ánægjan hafi magnast við það að hafa sleppt sykri síðustu dagana og vegna þess að mér fannst ég eiga það skilið að fá mér smávegis gott. Ég fór södd og sæl heim, ánægð með gott kvöld og að hafa staðið við plönin. Svo í hádeginu í dag kom bróðir minn og kærastan hans við í amerískar pönnukökur sem ég gerði alveg sykurlausar með því að nota Sukrin og svo sykurlaust sýróp með. Þær brögðuðust mjög vel og ég saknaði þess ekkert þó ég fengi mér ekki af venjulega sýrópinu. Það eina sem ég skil ekki alveg er að þegar ég vaknaði í morgun þá leið mér eins og ég væri þunn og þurfti að hugsa mig um í smástund til að muna hvort ég hefði verið að drekka eitthvað. Ég hafði ekki snert áfengi kvöldinu áður og því var engin ástæða til að líða eins og ég væri þunn. Ég sofnaði reyndar seinna en venjulega en vaknaði samt klukkan hálf níu en ég hélt ekki að það væri ástæða til að líða svona - ég veit ekki hvort ég eigi að kenna sykurneyslunni í gærkvöldi um þessa "þynnku" mína en ég kem til með að spá í þetta frekar næst þegar ég fæ mér sykur.

Þá er bara að vona að þetta gangi áfram vel!

Thursday, April 9, 2015

Sykurlaus dagur nr. 2

Það er greinilega ekki byrjað á fullu hjá mér, að sykurskrímslið sé farið að orga á nammi á ég við - ég fann fyrir örlítilli sykurlöngun nokkrum sinnum í dag en aðallega þegar ég hugsaði um kjúklingasúpuna frá Noodle station. Það er nefnilega ekki bara nammi sem þarf að forðast þegar maður er að passa sig á sykri heldur er asískur matur (ja amk sá sem er eldaður hérna á vesturhveli jarðar) einnig nær alveg á bannlista sökum mikils sykurinnihalds. Allar þessar sósur, ostrusósa, teriyaki sósa, sojasósa og fiskisósa eru stútfullar af sykri og mér finnst það vera algjör bömmer því mér þykir asískur matur afskaplega góður. Mig langaði einmitt alveg voðalega í dag til að hlaupa yfir á Noodle station og fá mér eina eldheita skál af súpunni þeirra en mundi svo að það er bara ekki í boði í þessari viku. Mér leið samt ekkert rosalega illa yfir því, fékk mér bara hrökkbrauð með smjöri og osti í staðinn, ekki alveg eins gourmet en þúst, fínt.

Ég var svo mikill klaufi í morgun að ég gleymdi morgunmatnum mínum heima. Ég get eiginlega aldrei borðað strax og ég vakna og því tek ég alltaf boost með mér og borða í vinnunni. En úr því ég mundi ekkert í morgun þá borðaði ég eitt risastórt greip sem ég átti í vinnunni, og harðfisk. Frábær morgunmatur, ég veit. Dagurinn var síðan eitthvað hálf ruglingslegur og ég borðaði aftur bara hrökkbrauð með áleggi og meiri harðfisk. Er samt bara búin að drekka einn líter af vatni - skamm skamm. Ég var síðan að brasa þar til klukkan tíu í kvöld og ég nennti engan vegin að elda og fékk mér því chia graut með rjóma, kanil og sukrin púðursykri og eitt epli. Þessi grautur bragðast næstum alveg eins og mjólkurgrautur (eða hrísgrjónagrautur eins og fólk hérna megin á landinu vill kalla þetta) og er alveg ógeðslega gott. Þetta var eiginlega alveg glataður dagur matarlega séð en hey, þó amk enginn hvítur sykur. Svo er bara að hysja upp um sig brækurnara nógu snemma í fyrramálið svo ég þurfi ekki að vera að hlaupa um eins og óð manneskja áður en ég fer út um dyrnar sem verður til þess að morgunmaturinn situr leiður og sár eftir á eldhúsbekknum. Batnandi bloggurum er víst best að lifa.

Annars þá fann ég ekki fyrir neinni þreytu eins og í gær en er hins vegar að verða syfjuð núna - enda ætla ég að hunskast í rúmið hið snarasta og fara að sofa, þá eru meiri líkur á ví að ég muni efti morgunmatnum...

Heyurmst á morgun!

Wednesday, April 8, 2015

Sykurlaus dagur nr. 1

Ég lifði þetta af. Ég reyndar átti ekki von á að fyrsti dagurinn yrði eitthvað sérstaklega erfiður því eins og ég nefndi síðast þá þykir mér ekki erfitt að sleppa sykri tímabundið. Ég byrjaði morguninn á því að fá mér boost með Nectar próteini, frosnum jarðarberjum, léttmjólk og rjómaslettu. Ég gerði reyndar frekar stóran skammt og hann entist mér í morgunmat og millimál fyrir hádegið. Í hádegismatinn fékk ég mér síðan hrökkkex með smjöri og osti og harðfiskpoki var á kantinum og ég fékk mér bita við og við út vinnudaginn. Í kvöldmatinn þá fékk ég mér ofnbakaðan þorsk með grænmeti, sósu og litlum kartöflum steiktum upp úr smjöri. Já og bara svona til að hafa það með; ég elska smjör. Og rjóma. Og ég trúi ekki nokkrum manni sem segir að það sé óhollur matur. Ef svo væri þá væru allir í sveitinni heima dauðir. Og sennilegast allir í öðrum sveitum landsins líka. Þið megið eiga von á heyra smjör og rjóma nefnt hérna á næstunni. En allavega, rétt fyrir kvöldmat þá fann ég fyrir örlitlum sykurpúka en ég held að það hafi bara verið vegna þess að ég var orðin svöng og ég fann lítið fyrir honum þegar ég var búin að borða kvöldmatinn. Í kvöldsnarl fékk ég mér síðan eitt epli með matskeið af hnetusmjöri. Ég er það heppin að jarðhnetur valda engum stórkostlegum usla í ónæmiskerfinu mínu og ég get fengið mér þær í hófi. Ég er ekki ennþá búin að drekka nema einn líter af vatni, sem er alls ekki nógu gott og ég neyðist sennilegast til að bæta úr því á þessum næsta klukkutíma þar til ég fer að sofa.

Ég lenti nokkrum sinnum í því í dag að finnast ég vera syfjuð og þreytt og ég hefði alveg getað sofnað þegar ég kom heim úr vinnunni sem er ekki venjan hjá mér. Ég er líka þreytt núna og langar alveg að fara að sofa en ég þarf að klára ýmislegt fyrst svo rúmið verður að bíða. Dagurinn var bara alls ekkert svo slæmur og ég pældi voðlega lítið í sykri eða sykurleysi. Það má samt passlega búast við að sykurskrímslið herji á mig fljótlega svo ég ætla ekkert að vera of góð með mig enn sem komið er, ég sé mig alveg í anda rífa í mig banana eins og óð manneskja þegar sykurþörfin nær hámarki og ávöxtur er það eina sem ég ætla að leyfa mér. Það er bara ekki komið að því ennþá.

Jæja, þá er fyrsti dagurinn búinn og ekkert klúður. Vei! 

Tuesday, April 7, 2015

Sykuráskorunin ógurlega


Þá er loksins komið að því sem mig hefur lengi langað til að gera en það er að fjalla opinberlega um tæklun mína á skyurpúkanum. Mig hefur lengi vel grunað að sykur sé þó nokkuð stærri skaðvaldur í mínu lífi en hef gert mér grein fyrir og núna ætla ég að setja mér áskorun og fjalla um hana héra á blogginu í bland við allt hitt. Kannski hjálpar það bara að gera þetta þar sem allir geta séð.

Ég er ekki að gera þetta í megrunartilgangi eða vegna þess að ég er að reyna að uppfylla einhver skilyrði fyrir fyrir sérstakan matarkúr - þessi tilraun mín snýst frekar um að kanna hvað gerist ef ég sleppi sykri. Ég hef lengi vel glímt við óþol, exem og ýmislegt leiðinlegt og hver veit nema að sykur hafi áhrif á það. Ég hef amk lesið mikið að undanförnu um rannsóknir á sykri og ég verð að viðurkenna að mér líst bara ekki á blikuna. Það er í það minnsta þess virði að athuga, ekki satt? Þessi hugsun læddist að mér eitt laugardagskvöldið um jólin þar sem ég hafði borðað of mikið af sætindum. Ég var yfir mig södd en hélt samt áfram að troða í mig því ég virka þannig að ég get ekki hætt. Ég lá másandi og stynjandi í sófanum og skreiddist svo að lokum upp í rúm þar sem ég átti erfitt með að sofna því mér fannst ég vera móð af sykurvímu. Ég var með alltof hraðan hjartslátt vegna þess að ég var búin að drekkja mér í sykri. Ég velti þessu aðeins fyrir mér og þurfti ekki að spá lengi til að kveikja á því að þetta var alls ekkert í fyrsta skiptið sem þetta gerðist. Gott fólk. Þetta er bara gjörsamlega óásættanlegt. Ég er þrjátíu og tveggja, en ekki 78 ára og þetta getur bara ekki verið eðlilegt. Ég hef enga löngun til að éta á mig sykursýki 2 eða aðra lífstílssjúkdóma bara vegna þess að ég get ekki hætt í namminu. Það er bara út í hött og ekki til umræðu. Ég flokkast undir þokkalega heilbrigða manneskju (líkamlega að minnsta kosti *hósthóst*) og læknirinn ninn segir að það sé ekkert óheilbrigt við mig sem tala þurfi um, jújú, ég gæti svo sem misst nokkur kíló, en það er samt ekki nauðsynlegt. Ég hreyfi mig reglulega, labba á Esjuna, syndi og skokka og get haldið á tveimur Bónuspokum upp hæðirnar þrjár heima án þess að hafa mikið fyrir því. En þó ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur núna þá þýðir það ekki að ég þurfi ekki að hafa þær seinna þegar líkaminn verður kannski ekki eins ungur og sterkur til að takast á við það sem ég hef verið að gera í lífinu. Það borgar sig að hugsa út í þetta sem fyrst. Þess vegna hef ég áhuga á að skoða hvort að eitthvað mikið breytist ef ég sleppi sykri. Kannski kemst ég að því að ég á bara ekki að taka kvöld þar sem ég treð í mig en líð ekkert verr ef borða reglulega sykur, nú eða þá kannski kemst ég að því að lífið er bara stórkostlegt án sykurs. Hver veit?

En hér er þá smá forsaga af mér og því sem ég miða við fyrir þessa athugun.

Í fyrsta lagi þá er ég með ofnæmi fyir litarefnum - það lýsir sér þannig að ég fæ upphleypt útbrot út um allan líkamann, fæ liðverki og líður almennt mjög illa. Ef litur berst í andlit þá hnerra ég, augun verða þrútin og ég tárast.

Svo er ég með óþol fyrir möndlum og sumum hnetum. Ekki bráðaofnæmi neitt en nóg til þess að ég forðast að borða slíkt. Ég fæ stíflað nef, kláða inni í eyrum og kláðatilfinningu út um allan líkama ef ég borða svoleiðis.

Einnig er ég með óþol fyrir lauk, ef ég borða hann hráan þá kasta ég upp svona klukkustund seinna efir mikla verki. Smart, ég veit.

Þess utan þá er ég með óþol fyrir allskyns snyrtivörum sem yfirleitt kemur fram í exemútbrotum og kláðabólum í andliti.

Ég á oftast auðvelt með að sofna á kvöldin en á það til að vakna svona tvisvar sinnum rétt undir morgun sem rýrir gæði svefnsins. Mér finnst langoftast erfitt að vakna við verkjaraklukkuna jafnvel þó ég hafi sofið nóg og ég snooza allt of oft. Ég lendi sjaldan í einhverju "slömpi" seinni part dags þar sem líkaminn öskrar á sykur og mér finnst oft auðvelt að neita mér um hann í einhvern tíma. Ég finn sjaldan fyrir þorsta og þarf að minna mig á að drekka hæfilegt magn af vatni á dag. Ég fæ reglulega hausverki sem koma oft til vegna þess að ég er of stíf í öxlunum þegar ég er að vinna. Ég er að öllu jöfnu geðgóð og glími ekkert mikið við upp og niður skapsveiflur. Held ég. Kannski segir fjölskyldan eitthvað annað... Húðin mín er að exemi frátöldu alveg ágæt, fæ sjaldan bólur nema ég sé að nota eitthvað sem veldur ofnæmi. Exemið kemur fram við hita og kuldabreytingar og ef ég nota vörur sem ég þoli ekki. Stundum verður það svo slæmt að ég klóra mig til blóðs og finn mikið til. Ég er með lágþrýsting og hef gott af því að æsa mig smávegis hér og þar (sem ég geri alveg óspart, nó vörrís). Í föðurættinni eru þónokkur dæmi um hjartasjúkdóma, kransæðastíflur og þess háttar en lítið um slíkt í móðurættinni. Mér finnst það samt vera nóg til að fara að fylgjast með öllu.

Jæja, þá er komin ágætis lýsing á mínu líkamlega ástandi í upphafi þessarar áskorunnar. Þau viðmið sem ég set mér eru síðan eftirfarandi:


  • Næstu sjö daga ætla ég ekki að borða sykur. Það nær yfir allar vörur með sykri í sama hvort það eru sósur, brauð eða annað. 
  • Ég borða ávexti áfram en passa mig á þeim sem eru með háu sykurinnihaldi. Það þýðir ekkert að éta heilan kassa af döðlum og þykjast svo vera sykurlaus.
  • Ég ætla að skrifa í lok hvers dags inn á bloggið hvernig dagurinn gekk fyrir sig, hvað ég borðaði og hvernig mér leið. 
  • Á síðasta degi þá ætla ég að taka saman hvernig vikan hefur verið og meta hvað ég geri í framhaldinu.
Jahá. Þá er bara að standa við stóru orðin og vona að mér takist að halda þetta út svo ég líti ekki ægilega asnalega út. Heyrumst geðveikt hress og kát annaðkvöld, nú eða geðveikt reið og sykuróð ef þetta gengur illa...!















Maybelline Dream Touch Kinnalitur í 02 Ferskjulit



Ef ég er spurð að þvi hvaða snyrtivöru ég gæti ekki verið án þá myndi ég velja gott rakakrem því ég einfaldlega fer ekki í gegnum daginn á þess að setja raka á andlitið á mér bæði kvölds og morgna og á eftir hverri sturtu. Annars myndi andlitið á mér þorna upp og exem og önnur vandamál margfaldast. Þess vegna myndi ég eiginlega flokka rakakrem sem nauðsynjavöru en ekki "snyrtivöru". Ef ég ætti hinsvegar að velja snyrtivöru sem ég gæti tæknilega séð alveg komist af án þá væri það góður kinnalitur. Fátt gefur manni ljóma og fallegt yfirbragð eins og kinnalitur sem passar við liftarhaftið. Ég hef allaf verið hrifnari af kremkinnalitum heldur en púðurlitum því mér finnst eins og að púðurvörur sitji ofan á húðinni í staðinn fyrir að aðlagast henni. Af sömu ástæðu þá nota ég ekki venjuleg púður, mér finnast þau taka náttúrulega ljómann minn frá húðinni og ég verð mött og líflaus, svo ég tala nú ekki um að púðurvörur gera ekkert fyrir húð sem glímir stöku sinnum við exem- og þurrkabletti. Því miður eru fá snyrtivörumerki sem bjóða upp á kremkinnaliti - flest þeirra láta púðrið duga og því er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að því að velja liti. Ég hef lengi vel notað púðurlitina frá Make Up Store en þeir eru virkilega góðir og komast næst því að uppfylla kinnalitakröfur mínar þrátt fyrir að vera úr púðri því litirnir eru virkilega fallegir og úrvalið frábært. Það er bara vonandi að Make Up Store byrji á því að framleiða kremkinnaliti, þá væri ég í snyrtivöruhimnaríki.

En nóg um Make Up Store og aftur að Maybelline. Það merki var eitt það fyrsta til að setja á markaðinn farða sem var froðukenndur - Dream Matt Mousse Foundation minnir mig að hann hafi verið kallaður og gerði stormandi lukku og er þessi tegund af farða enn í sölu hjá fyrirtækinu. Ég lét hann eiga sig á sínum tíma því þá voru bara þrír litir til og enginn þeirra nógu ljós fyrir mína rauðhærðu húð. Það hefur nú reyndar breyst og margir litir eru í boði núna. Stuttu seinna komu svo á markaðinn kinnalitir sem voru með sömu froðukenndu áferð og satt að segja þá hunsaði ég þá alveg, þrátt fyrir ást mína á kremlitum. Sennilegast vegna þess að farðinn hentaði mér engan veginn og ég ákvað bara að kinnalitirnir myndu ekki henta mér heldur. Það var síðan ekki fyrr en ég rak augun í tvo af þessum litum í förðunarskúffunni hennar mömmu um jólin að ég fór eitthvað að spá í þá. Ég fékk að prófa annan þeirra, þann sem heitir Peach 02 þrátt fyrir að ég væri búin að ákveða að liturinn væri of ljós og myndi bara ekkert sjást á húðinni. Ég veit ekki alveg hvaðan þessi förðunarlega neikvæðni kom en ég hafði innilega rangt fyrir mér. Liturinn er mjög fallegur og hentar mér svo vel að ég vildi óska að ég hefði prófað hann fyrir mörgum árum, það hefði sparað mér þrotlausa leit að fallegum kremkinnalit.

Á fyrstu förðunnarmyndinni þá er ég bara búin að setja á mig rakakrem og svo BB krem (líka frá Maybelline og ég hef fjallað um hérna). Ég er frekar flöt eitthvað, lítið líf í húðinni þó hún sé jöfn og tiltölulega lýtalaus. Og svo bara breytist allt þegar ég hef sett kinnalitinn á mig en það eina sem bættist við á næstu mynd er hann. Mér finnst vera töluverður munur á mér og ég er mun frísklegri eftir að lituirnn er kominn á kinnarnar á mér. 


Allt við þennan kinnalit er gott - nema kannski að endingin er ekki stórkostleg. Það þarf þó að hafa í huga að ég er með feita húð en kemfarði endist styttra á þannig húð einfaldlega vegna þess að hann rennur hraðar af sökum mikils raka í húðinni. Svo ég geri ráð fyrir að endingin sé bara mjög góð hjá þeim sem ekki eru með feita húð. Hjá mér endist liturinn yfir mestan partinn af deginum en ég hef hann bara með í förðunartöskunni og bæti á hann ef mér finnst þurfa. Áferðin er draumur, rétt eins og nafnið segir til um og það er mjög auðvelt að dreifa úr litnum en það er eiginleiki sem fáir kremlitir búa yfir finnst mér. Flestir þeirra eru frekar þykkir og maður þarf að hafa fyrir því að ná jafnri áferð. Það er alls ekki málið með þennan og þarna kemur froðuáferðin inn sem stór plús. Eigum við svo eitthvað að ræða litinn sjálfan? Þetta er einn fallegast kinnalitur sem ég hef séð og mér finnst ég öll lýsast upp þegar ég set hann á mig og hann gargar ekki "ég er með KINNALIT!" þegar ég set hann á. Margir litir gera það ef þeir eru of sterkir og á sama tíma og ég elska kinnaliti, þá eru of áberandi litir eða bronserar eitt stærsta bannið í mínum bókum. Kinnaliturinn á ekki að stjórna förðununni heldur á hann að bæta hana. 

Það er lítið mál að nota puttana til sð dreifa úr litnum eins og ég sagði en mér þykir þó best að nota Expert Face Brush frá Real Techniques til að fá lýtalausa áferð en sá bursti blandar litnum vel inn í húðina og það koma engin skil heldur dofnar liturinn bara jafnt og þétt. Best er að byrja með lítinn lit í burstanum og byggja hann svo upp - liturinn er nokkuð sterkur og því er betra að byrja á litlu í einu. Ég er enn á fyrstu krukkunni minni sem ég keypti fyrir um þremur mánuðum og ég nota hann nær alla daga og hún er ekki einu sinni hálfnuð svo endingin er alveg frábærlega líka.


Ég get bara ekki nógsamlega hælt þessum lit og ég verð eiginlega að fara að kanna hina litina sem eru í boði líka. Þessi er klárlega orðinn fastagestur í minni snyrtibuddu og verður þar áfram á meðan Maybelline framleiðir hann. Ég keypti þennan í Hagkaup og hann kostar 1969 kr.stykkið. Þessi er uppáhald - fimm kettir frá mér!

Friday, April 3, 2015

Júniformkápan



Og hér er hún komin, fallega kápan mín frá Júniform sem ég keypti alveg óvænt um daginn og talaði um hér. Mér líður svo ægilega vel í henni og ég reyni að nota hana sem mest - hún er úr 100% ull og hentar því ágætlega í þetta rokrassgat sem búið er að herja á okkur. Mín kápa er annaðhvort örlítið styttri en þessi sem ég sá á facebook síðunni hjá Öxney, eða þá að módelið var lágvaxið. Mér er samt alveg sama, hún er fabjölús eins og hún er og hún passar líka svona vel við lærahælana mína (þetta er svooo ljótt orð en ég get ekki hætt að nota það...). Ég á eftir að nota þessa elsku næstu árin, það er á hreinu!