Ég er ekki að gera þetta í megrunartilgangi eða vegna þess að ég er að reyna að uppfylla einhver skilyrði fyrir fyrir sérstakan matarkúr - þessi tilraun mín snýst frekar um að kanna hvað gerist ef ég sleppi sykri. Ég hef lengi vel glímt við óþol, exem og ýmislegt leiðinlegt og hver veit nema að sykur hafi áhrif á það. Ég hef amk lesið mikið að undanförnu um rannsóknir á sykri og ég verð að viðurkenna að mér líst bara ekki á blikuna. Það er í það minnsta þess virði að athuga, ekki satt? Þessi hugsun læddist að mér eitt laugardagskvöldið um jólin þar sem ég hafði borðað of mikið af sætindum. Ég var yfir mig södd en hélt samt áfram að troða í mig því ég virka þannig að ég get ekki hætt. Ég lá másandi og stynjandi í sófanum og skreiddist svo að lokum upp í rúm þar sem ég átti erfitt með að sofna því mér fannst ég vera móð af sykurvímu. Ég var með alltof hraðan hjartslátt vegna þess að ég var búin að drekkja mér í sykri. Ég velti þessu aðeins fyrir mér og þurfti ekki að spá lengi til að kveikja á því að þetta var alls ekkert í fyrsta skiptið sem þetta gerðist. Gott fólk. Þetta er bara gjörsamlega óásættanlegt. Ég er þrjátíu og tveggja, en ekki 78 ára og þetta getur bara ekki verið eðlilegt. Ég hef enga löngun til að éta á mig sykursýki 2 eða aðra lífstílssjúkdóma bara vegna þess að ég get ekki hætt í namminu. Það er bara út í hött og ekki til umræðu. Ég flokkast undir þokkalega heilbrigða manneskju (líkamlega að minnsta kosti *hósthóst*) og læknirinn ninn segir að það sé ekkert óheilbrigt við mig sem tala þurfi um, jújú, ég gæti svo sem misst nokkur kíló, en það er samt ekki nauðsynlegt. Ég hreyfi mig reglulega, labba á Esjuna, syndi og skokka og get haldið á tveimur Bónuspokum upp hæðirnar þrjár heima án þess að hafa mikið fyrir því. En þó ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur núna þá þýðir það ekki að ég þurfi ekki að hafa þær seinna þegar líkaminn verður kannski ekki eins ungur og sterkur til að takast á við það sem ég hef verið að gera í lífinu. Það borgar sig að hugsa út í þetta sem fyrst. Þess vegna hef ég áhuga á að skoða hvort að eitthvað mikið breytist ef ég sleppi sykri. Kannski kemst ég að því að ég á bara ekki að taka kvöld þar sem ég treð í mig en líð ekkert verr ef borða reglulega sykur, nú eða þá kannski kemst ég að því að lífið er bara stórkostlegt án sykurs. Hver veit?
En hér er þá smá forsaga af mér og því sem ég miða við fyrir þessa athugun.
Í fyrsta lagi þá er ég með ofnæmi fyir litarefnum - það lýsir sér þannig að ég fæ upphleypt útbrot út um allan líkamann, fæ liðverki og líður almennt mjög illa. Ef litur berst í andlit þá hnerra ég, augun verða þrútin og ég tárast.
Svo er ég með óþol fyrir möndlum og sumum hnetum. Ekki bráðaofnæmi neitt en nóg til þess að ég forðast að borða slíkt. Ég fæ stíflað nef, kláða inni í eyrum og kláðatilfinningu út um allan líkama ef ég borða svoleiðis.
Einnig er ég með óþol fyrir lauk, ef ég borða hann hráan þá kasta ég upp svona klukkustund seinna efir mikla verki. Smart, ég veit.
Þess utan þá er ég með óþol fyrir allskyns snyrtivörum sem yfirleitt kemur fram í exemútbrotum og kláðabólum í andliti.
Ég á oftast auðvelt með að sofna á kvöldin en á það til að vakna svona tvisvar sinnum rétt undir morgun sem rýrir gæði svefnsins. Mér finnst langoftast erfitt að vakna við verkjaraklukkuna jafnvel þó ég hafi sofið nóg og ég snooza allt of oft. Ég lendi sjaldan í einhverju "slömpi" seinni part dags þar sem líkaminn öskrar á sykur og mér finnst oft auðvelt að neita mér um hann í einhvern tíma. Ég finn sjaldan fyrir þorsta og þarf að minna mig á að drekka hæfilegt magn af vatni á dag. Ég fæ reglulega hausverki sem koma oft til vegna þess að ég er of stíf í öxlunum þegar ég er að vinna. Ég er að öllu jöfnu geðgóð og glími ekkert mikið við upp og niður skapsveiflur. Held ég. Kannski segir fjölskyldan eitthvað annað... Húðin mín er að exemi frátöldu alveg ágæt, fæ sjaldan bólur nema ég sé að nota eitthvað sem veldur ofnæmi. Exemið kemur fram við hita og kuldabreytingar og ef ég nota vörur sem ég þoli ekki. Stundum verður það svo slæmt að ég klóra mig til blóðs og finn mikið til. Ég er með lágþrýsting og hef gott af því að æsa mig smávegis hér og þar (sem ég geri alveg óspart, nó vörrís). Í föðurættinni eru þónokkur dæmi um hjartasjúkdóma, kransæðastíflur og þess háttar en lítið um slíkt í móðurættinni. Mér finnst það samt vera nóg til að fara að fylgjast með öllu.
Jæja, þá er komin ágætis lýsing á mínu líkamlega ástandi í upphafi þessarar áskorunnar. Þau viðmið sem ég set mér eru síðan eftirfarandi:
- Næstu sjö daga ætla ég ekki að borða sykur. Það nær yfir allar vörur með sykri í sama hvort það eru sósur, brauð eða annað.
- Ég borða ávexti áfram en passa mig á þeim sem eru með háu sykurinnihaldi. Það þýðir ekkert að éta heilan kassa af döðlum og þykjast svo vera sykurlaus.
- Ég ætla að skrifa í lok hvers dags inn á bloggið hvernig dagurinn gekk fyrir sig, hvað ég borðaði og hvernig mér leið.
- Á síðasta degi þá ætla ég að taka saman hvernig vikan hefur verið og meta hvað ég geri í framhaldinu.
Jahá. Þá er bara að standa við stóru orðin og vona að mér takist að halda þetta út svo ég líti ekki ægilega asnalega út. Heyrumst geðveikt hress og kát annaðkvöld, nú eða geðveikt reið og sykuróð ef þetta gengur illa...!
No comments :
Post a Comment