Sunday, April 12, 2015

Sykurlausir dagar 3.-4.og 5.


Jæja, ég náði ekki alveg að fylgja eftir að setja efni inn hvert kvöld en tek þetta þá bara saman núna í einni færslu sem komið er. Þetta er í einu orði búið að ganga vel. Svo vel að ég er að velta fyrir mér hvort að eitthvað hafi bilað inni í mér - sykurpúkinn fengið hjartaáfall eða eitthvað (ekki að það væru slæmar fréttir eða neitt, hann má alveg drepast mín vegna) en ég átti passlega von á að þetta yrði að minnsta kosti smá erfitt. En nei. Eini dagurinn sem ég fann fyrir einhverri löngun var föstudagurinn og það snerist um að mig langaði í tómatsósu á frönskur sem ég fékk mér. Ég leyfði mér örlítið af henni (kannski matskeið) og var svo góð. Mig hefur ekki langað í nammi eða kökur eða gos, ég drekk yfirleitt ekki mikið af gosi svo það kemur kannski ekki á óvart. En það sem hefur hins vegar komið mér á óvart er að það hefur verið mest "erfitt" að fá sér ekki sushi útaf sojasósunni og að geta ekki gripið eitthvað tilbúið með sér því allur tilbúinn matur er stútfullur af sykri og þar sem ég er ekki skipulagðasta manneskjan alltaf þá getur það verið smá bras. Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum að ég hef hreinlega verið svöng því ég vildi ekki fá mér að borða þar sem ekkert var í boði nema matur með sykri. Engar áhyggjur, ég er ekki farin yfir á slæma staðinn heldur er ég bara meðvituð um að sykur er allsstaðar og ég vil minnka hann úr matarræðinu hjá mér. Fyrir utan að þó að það sé stanslaust verið að hamast á okkur í dag með þann boðskap að svengd sé óeðlileg, að þá trúi ég því ekki. Ég kaupi ekki bullið um að ég verði að borða á tveggja tíma fresti, að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins og allt það - ég borða þegar ég er svöng, ekki þegar aðrir segja mér að gera það og ef ég þarf að vera svöng í smá tíma vegna skipulagsleysis eða út af öðrum ófyrirsjáanlegum ástæðum þá er það bara allt í lagi. Ég drepst ekkert úr hungri, það er alveg á hreinu.

En allavega þá er þetta búið að ganga vel - ég þarf að passa það sem ég versla og er þar af leiðandi búin að borða mikið af hreinum mat, smjör og ost sem álegg, boost með ávöxtum og mjólk, hreina jógúrt, kjöt, fisk og grænmeti. Á föstudaginn fékk mér nokkrar franskar þar sem ég átti botnfylli eftir í poka í frystinum og öll sykurpúkalöngun hvarf eftir þessar örfáu frönskur, sem er fyndið því ég er venjulega ekkert spennt fyrir þeim. Í gær þá var lakkríssmakk í boði í vinnunni - við seljum súkkulaðið frá Omnom og við fáum venjulega kassa af einni tegund til að bjóða viðskiptavinum upp á og lakkríssúkkulaðið er svoooooo gott! Venjulega á ég mjög erfitt með að hemja mig en í gær þá leit ég ekki við því. Um kvöldið var svo vinkonuhittingur og ég ákvað að það væri í góðu lagi að fá sér smá sushi og jafnvel eftirmat. Mjög meðvituð og plönuð ákvörðun um að innbyrða smávegis sykur eyðileggur ekkert, er það? Við fórum á Sushi Train og ég naut þess í botn að fá mér sushi og hlægja með stelpunum. Eftir á þá ákváðum við að taka rúnt og fá okkur Valdís og vá hvað ísinn var góður. Það er eins og að bragðið og ánægjan hafi magnast við það að hafa sleppt sykri síðustu dagana og vegna þess að mér fannst ég eiga það skilið að fá mér smávegis gott. Ég fór södd og sæl heim, ánægð með gott kvöld og að hafa staðið við plönin. Svo í hádeginu í dag kom bróðir minn og kærastan hans við í amerískar pönnukökur sem ég gerði alveg sykurlausar með því að nota Sukrin og svo sykurlaust sýróp með. Þær brögðuðust mjög vel og ég saknaði þess ekkert þó ég fengi mér ekki af venjulega sýrópinu. Það eina sem ég skil ekki alveg er að þegar ég vaknaði í morgun þá leið mér eins og ég væri þunn og þurfti að hugsa mig um í smástund til að muna hvort ég hefði verið að drekka eitthvað. Ég hafði ekki snert áfengi kvöldinu áður og því var engin ástæða til að líða eins og ég væri þunn. Ég sofnaði reyndar seinna en venjulega en vaknaði samt klukkan hálf níu en ég hélt ekki að það væri ástæða til að líða svona - ég veit ekki hvort ég eigi að kenna sykurneyslunni í gærkvöldi um þessa "þynnku" mína en ég kem til með að spá í þetta frekar næst þegar ég fæ mér sykur.

Þá er bara að vona að þetta gangi áfram vel!

No comments :

Post a Comment