Það er greinilega ekki byrjað á fullu hjá mér, að sykurskrímslið sé farið að orga á nammi á ég við - ég fann fyrir örlítilli sykurlöngun nokkrum sinnum í dag en aðallega þegar ég hugsaði um kjúklingasúpuna frá Noodle station. Það er nefnilega ekki bara nammi sem þarf að forðast þegar maður er að passa sig á sykri heldur er asískur matur (ja amk sá sem er eldaður hérna á vesturhveli jarðar) einnig nær alveg á bannlista sökum mikils sykurinnihalds. Allar þessar sósur, ostrusósa, teriyaki sósa, sojasósa og fiskisósa eru stútfullar af sykri og mér finnst það vera algjör bömmer því mér þykir asískur matur afskaplega góður. Mig langaði einmitt alveg voðalega í dag til að hlaupa yfir á Noodle station og fá mér eina eldheita skál af súpunni þeirra en mundi svo að það er bara ekki í boði í þessari viku. Mér leið samt ekkert rosalega illa yfir því, fékk mér bara hrökkbrauð með smjöri og osti í staðinn, ekki alveg eins gourmet en þúst, fínt.
Ég var svo mikill klaufi í morgun að ég gleymdi morgunmatnum mínum heima. Ég get eiginlega aldrei borðað strax og ég vakna og því tek ég alltaf boost með mér og borða í vinnunni. En úr því ég mundi ekkert í morgun þá borðaði ég eitt risastórt greip sem ég átti í vinnunni, og harðfisk. Frábær morgunmatur, ég veit. Dagurinn var síðan eitthvað hálf ruglingslegur og ég borðaði aftur bara hrökkbrauð með áleggi og meiri harðfisk. Er samt bara búin að drekka einn líter af vatni - skamm skamm. Ég var síðan að brasa þar til klukkan tíu í kvöld og ég nennti engan vegin að elda og fékk mér því chia graut með rjóma, kanil og sukrin púðursykri og eitt epli. Þessi grautur bragðast næstum alveg eins og mjólkurgrautur (eða hrísgrjónagrautur eins og fólk hérna megin á landinu vill kalla þetta) og er alveg ógeðslega gott. Þetta var eiginlega alveg glataður dagur matarlega séð en hey, þó amk enginn hvítur sykur. Svo er bara að hysja upp um sig brækurnara nógu snemma í fyrramálið svo ég þurfi ekki að vera að hlaupa um eins og óð manneskja áður en ég fer út um dyrnar sem verður til þess að morgunmaturinn situr leiður og sár eftir á eldhúsbekknum. Batnandi bloggurum er víst best að lifa.
Annars þá fann ég ekki fyrir neinni þreytu eins og í gær en er hins vegar að verða syfjuð núna - enda ætla ég að hunskast í rúmið hið snarasta og fara að sofa, þá eru meiri líkur á ví að ég muni efti morgunmatnum...
Heyurmst á morgun!
No comments :
Post a Comment