Við nýttum síðasta laugardag í að taka nokkrar myndir enda var komin þessi líka yndislega sól. Það minnir nú reyndar fátt á sumarið akkúrat núna enda hundleiðinlegt veður og ekki hægt að klæða sig í margt annað en gönguskó, úlpu og húfu. Það er reyndar mjög gaman að skoða þessar myndir núna og minna mig á að veðrið verður ekki alltaf eins og í dag.
En ég dreif mig í að nota bæði föt og skó sem ég hef lítið getað tekið út úr skápnum undanfarið og spókaði mig um í blíðunni í fínu svörtu támjóu ökklastívélunum mínum úr Mango og pleðurbuxunum úr Zöru. Það kom reyndar alveg svakaleg rifa á annað hnéð þegar ég var að klæða mig en ég ákvað að láta það ekkert stoppa myndatöku og er þess vegna svona "rokkaraleg" á hægra hnénu. Skyrtuna fékk ég í Spúútnik í Kringlunni og hef notað hana mikið - hún er reyndar eini parturinn af þessari fatasamsetningu sem gengur þó að það sé skítkalt. Fyrir utan kragan minn góða, hann gengur við allt alla daga. En skyrtan er þykk og alveg merkilega hlý og ef ég er í góðum langermabol undir þá gengur hún þá daga sem eru í kaldara lagi.
Ég neyddi jafngóða helminginn minn til að taka myndir af fimm mismunandi fatasamsetningum á laugardaginn og ég gerðist meira að segja svo djörf að ég skipti um föt í bílnum. Tek þó fram að ekkert misjafnt átti sér stað og ég skipti bara um peysur og yfirfatnað svo engir íbúar í nærliggjandi húsum þyrftu á áfallahjálp að halda yfir hálfnakinni konu í fataskiptum úti í bíl. Ég verð samt að viðurkenna að hárið var orðið ansi sjúskað á fataskiptum númer fimm, meiköppið orðið örlítið þreytt og ég hálf klesst eitthvað. Svona er þetta bara, hvað gerir maður ekki til þess að láta taka myndir af fötunum sínum?
En ég á þá að minnsta kosti smá lager af myndum sem hentar vel því umræddur jafn góði helmingur er farinn af suðvesturhorninu í heilar þrjár vikur svo ég verð ljósmyndaralaus á meðan. Grey strákurinn eru örugglega bara feginn að fá þriggja vikna pásu og ég verð nú eiginlega að verðlauna hann fyrir það að nenna að standa í þessu með mér, spurning um að kaupa kippu af bjór og pizzu þegar hann kemur heim aftur?
No comments :
Post a Comment