Friday, February 6, 2015

Kápufegurð

Þeir sem þekkja mig vita að ég er dolfallinn Júniformaðdáandi og hef verið það síðan árið 2006 þegar ég sá Ragnhildi Steinunni í kápu frá merkinu. Ég elti hana heillengi í Kringlunni einn daginn þegar ég var að vinna þar til að geta lesið á miðann aftan á kápunni því ég þorði ekki að spyrja hana bara. Svo já, það má segja að ég hafi verið eltihrellirinn hennar Ragnhildar í svona 5 mínútur fyrir níu árum síðan. Ja, tæknilega séð þá var ég eltihrellir kápunnar en hvað um það, ég náði að lesa nafnið og komst að því hvaðan kápan væri. Næstu fimm árin eða svo starði ég á fötin á heimasíðunni þeirra og langaði í allt en átti aldrei pening því ég eydi honum alltaf í fullt af ódýru dóti. Svo einn daginn fékk ég nóg, keypti einn kjól (á útsölu reyndar) og þá varð ekki aftur snúið. Mér finnst ég alltaf svo yndislega fín í öllu sem hún Birta gerir og mér finnast fötin hennar líka alltaf klæða mig vel, nokkuð sem ég hef aldrei fundið hjá einu og sama merki áður. Plús að ég er allaf til í að styðja íslenskan iðnað og líð vel með að vita að fötin mín hafa ekki verið saumuð af útþrælkuðum börnum sem þurfa að vinna 10 tíma á dag til að sinna draslþörf Vesturlandabúa.

Í fyrrakvöld mundi ég eftir að ég hafði ekkert skoðað nýjar vörur frá Júniform heillengi og ákvað að líta á síðuna þeirra. Þar var líka þess fallega kápa, nema hún kostaði um 70.000 kr. og ég hugsaði með mér að málið væri eiginlega dautt, ég ætlaði ekki að eyða svo miklu í eitthvað nýtt. Svo í hádegismatnum í dag í vinnuni þá ákvað ég að rölta inn í Öxney þar sem hún er stödd nálægt vinnunni minni, bara rétt til að kíkja og kvelja mig aðeins á því að geta ekki eignast kápuna. Ég var rétt komin inn fyrir þegar afgreiðslukonan benti mér á kápuna og sagði: "þessi er á 70% afslætti, hún er æði". Ef maður trúir á fataörlög þá voru þetta þau, kápan bara kom beint upp í fangið á mér, óumbeðin. Konan spurði hvort ég vildi máta, sem ég þáði og þegar ég fattaði að hún var a) í minni stærð, b) komin á 20.000 kall og c) svo STÓRKOSTLEGA FALLEG að ég skældi smávegis inn í mér, að þá ákvað ég að slá til. Bæði vegna þess að ég kaupi alltaf afmælisgjöf handa sjálfri mér (þrjátíuogtveggja bara rétt handan við hornið takk fyrir pent) og líka vegna þess að sökum lélegrar þjónustu hjá Asos að þá fékk ég aldrei jólagjöfina frá foreldrum mínum. Eftir tveggja mánaða bið eftir pakkanum og í framhaldinu mikið kvart og marga tölvupósta svaraði Asos loksins og tilkynnti mér að pakkinn minn hefði týnst og að þeir myndu endurgreiða mér, sem þeir svo gerðu. Þetta eru nú reyndar ekki einu Asos vandræðin mín nýlega en það er önnur saga. En ég átti því enn inni jólagjöfina mína og smá "pakka" frá sjálfri mér líka. Fullkomnar ástæður til að stökkva á kápuna. Enda var ég himinglöð að rölta með pokann til baka í vinnuna þó það væri rok og snjókoma sem virtist koma ská að neðan - eiginleiki sem bara íslenskt veður býr yfir, grunar mig.

Kápan situr nú á kommóðunni minni, enn í pokanum því ég tími ekki að taka hana upp úr strax. Það gerist þó örugglega von bráðar. Ég ætla að fá lánaða myd af Júniform facebook síðunni til sýna ykkur gripinn því ég hafði ekki tíma til að taka myndir af henni, en hún kemur nú í fatabloggi fjótlega, því lofa ég!


No comments :

Post a Comment