Í tilefni af því að færa sig inn í haustið þá ákvað ég að breyta smávegis til. Hárið á mér lýsist það mikið yfir sumartímann (margar sundferðir hjálpa ekki) að ég er spurð að því hvort ég hafi litað það ljóst. Ef ég læt það alveg eiga sig þá verður það svona líka huggulega sinugult, augabrúnirnar hverfa næstum alveg og mér finnst ég vera öll hálf "samlit", þ.e. augabrúnir, hár og andlit verða afskaplega áþekk á litinn. Mér þykir fínt að hafa hárið svona ljóst yfir sumarmánuðina þegar sólin er hátt á lofti og fataskápurinn er fullur af léttum flíkum í sumarlegum litum, en um leið og það fer að kólna er ég til í að breyta aðeins til. Ég er ekki að tala um að fara úr ljósrauðum yfir í dökkbrúnt neitt, heldur bara einum tóni dekkra. Svo ég skellti mér út í búð og keypti mér lit. Ég er löngu hætt að fara á stofu til að láta lita það vegna þess að fastur litur tollir mjög illa í hárinu mínu og ég tími ekki að borga fullt af peningum fyrir eitthvað sem endist kannski í þrjár vikur. Einu sinni litaði ég hárið á mér svart og það lak úr á tveimur vikum og bamm, ég aftur orðin rauðhærð. Einhversstaðar las ég að rautt hár tæki mjög illa við lit og því entust þeir stutt. Ég veit svo sem ekki hversu satt það er, en það á allavega við mitt hár. Ég litaði rótina og niður, en skildi eftir svona 20 cm. til að hafa endana ljósari. Svo skellti ég dökkbrúnum lit í brúnirnar til að hafa samræmi á milli, lét litinn liggja í örfáar mínútur til að þær yrðu ekki of dökkar og skrúbbaði hann svo vel úr svo ekkert yrði eftir í húðinni sjálfri. Og voila, ég orðin um það bil einum lit dekkri og tilbúin í veturinn. Ég biðst velvirðingar á myndgæðunum, ég var ein heima og þurfti að taka myndirnar sjálf, en það er ekkert grín þar sem að myndavélin mín er mjög stór og þung og erfitt er að halda á henni með annarri hendi og beina henni að sér. Næst á dagskrá er að kaupa þrífót svo að vinstri handleggurinn verði ekki mun massaðri en sá hægri. Eru fleiri en ég sem skipta um lit þegar ný árstíð gengur í garð?
æði :)
ReplyDeleteTakk :D
ReplyDelete