Þeir sem vilja í alvörunni hjálpa eru þeir sem eru opnir og ekki dómharðir - í flestum tilfellum eru það þeir sem taka áhættur í tísku sjálfir. Það á þó ekki alltaf við því stundum er fólk það sjálfsöruggt að þó það kjósi ekki að gera mikið af tískutilraunum sjálft, þá getur það vel verið opið og jákvætt gagnvart því hjá öðrum. En margir eru þannig að þeim finnst bara sinn stíll vera flottur. Tökum sem dæmi að þú ferð að versla með vinkonu þinni og sú vinkona klæðir bara í svart, grátt og beige en þú ert hins vegar rósótta og skærlitaða týpan. Þú sérð einmitt neonbleikar buxur sem þér finnast geðveikar, þú mátar alveg ægilega spennt og sýnir vinkonu þinni. Hún starir á þig í smástund, fitjar svo upp á nefið og segir; "þetta er alveg ógeðslega bleikt, ég myndi aldrei kaupa þetta...". Nújá? Var einhver að biðja þig um að ganga í þessum buxum? Ég veit ekki hversu oft ég lent í svipuðum atvikum í gegnum tíðina og ég hef alltaf verið jafn hissa á svona "ráðgjöf". Og hvað gerist þegar þetta er öll hjálpin? Þú stendur þarna eins og kjáni í neonbleiku buxunum sem þú elskaðir stuttu áður og ferð að efast. Þú skoðar þig betur í speglinum og allt í einu er eins og að fallega bleiki liturinn sé orðinn of æpandi og lítur eiginlega kjánalega út. Þú smokrar þér úr buxunum, skilar þeim og kaupir þér "venjulegar" gallabuxur í staðinn og ert enn á smávegis bömmer yfir því að einhver skildi gjörsamlega gefa skít í þinn smekk.
Sumt fólk virðist ekki geta slitið eigin skoðanir frá þegar það metur og gefur álit þó að ekkert sé auðveldara en að fara yfir örfá atriði eins og hvort að sniðið klæði vel, hvort liturinn sé að gera jákvæða hluti fyrir hörundslit þess sem mátar, hvort þetta passar inn í skápinn og er efnið þægilegt? Þetta er svona grunnlisti sem þarf að miða við og það er mjög auðvelt að svara þessum spurningum jafnvel þótt að álitsgjafinn myndi aldrei ganga í flíkinni sjálfur. Þú vilt alltaf fá ráð hjá þeim sem gefur hreinskilið álit, en það er töluverður munur á því og að klína eigin smekk yfir á alla aðra. Sá sem gefur hreinskilið álit er sá sem gefur álit út frá þér, manneskjunni sem ætlar að ganga í flíkinni. Haltu þig við aðstoð frá þeim sem þekkja þig, eru opnir og jákvæðir, en eru einnig færir um að gagnrýna þegar þeim finnst vera þörf á og þú hefur beðið um það.
No comments :
Post a Comment