Sunday, November 9, 2014

Hinn fullkomni fataskápur - regla 2


2. Að fylgja eigin smekk. 


Þetta er eitt mikilvæasta atriðið þegar kemur að því að byggja upp góðan skáp. Þegar ég var yngri þá las ég endalaust margar bækur skrifaðar af hinum og þessum sérfræðingnum í málinu og varð alltaf jafn skúffuð á því að allir áttu að eiga sömu hlutina í fataskápnum sínum. Það var alltaf sama tuggan; "eitt svart fínt pils, einn svartur fínn kjóll, einar vel sniðnar svartar buxur, þrjár hvítar skyrtur...", og það var algjör nauðsyn að klæða sig eftir líkamsvexti. Til að mynda þá mátti ég eingöngu klæða mig í aðsniðnar flíkur til að sýna mittið og varð að passa að klæða mig ekki þannig að ég liti út fyrir að vera feitari, en það að vera yfir kjörþyngd er vitanlega höfuðsynd innan tískugeirans og öll fatakaup skulu takmarkast við það að klæða af sér kíló. Ég gafst ég fljótt upp á þessum bókum og gaf þær frá mér og fór í stað að sækja tískulegan innblástur út frá mínum eigin forsendum - í gegnum sjónvarp, bíómyndir og bækur og á konum í kringum mig og smám saman lærði ég að hunsa þá löngum til að falla í hópinn. Mér hefur tekist að þroska minn eigin smekk án hjálpar frá sjálfskipuðum sérfræðingum og veit núna hvað það er sem ég á að forðast, nú eða hlaupa í áttina að. Það er mikilvægt að hlusta á eigin skoðanir og láta annarra manna álit ekki stjórna því hverju þú vilt klæðast. Þú ert þinn eigin tískuráðgjafi, treystu sjálfri þér og hafðu gaman af því að móta þitt eigið útlit.

Linda.


No comments :

Post a Comment