Ég kom því loksins í verk fyrir nokkrum dögum að fara og skoða í nýju Inglot snyrtivöruversluninni í Kringlunni. Ég hef margsinnis lesið um þessar vörur á erlendum síðum og hlakkaði til að fá að prófa þær sjálf þegar verslun með þessari línu opnaði hérlendis. Það var margt skemmtilegt í boði en þar sem ég er varalitasjúk þessa dagana var ég aðallega að skoða hvað væri í boði í þeim hluta. Þegar ég var búin að skanna varalita,- og glossstandinn varð ég fyrir smá vonbrigðum því ég sá engan lit sem greip mig. Ég var á höttunum eftir fallega fjólubláum/berjalit og enginn kveikti í mér. Ég ætlaði að láta þetta gott heita og fara, varalitalaus og alles þegar ég rakst á fleiri liti á miðjuborðinu í versluninni en ég hafði algjörlega hunsað þá því ég hélt að þeir væru augnskuggar - svona fer þegar maður rétt lítur yfir og nennir ekki að skoða vel - en glossin/varalitirnir sem voru þar voru í pallettuformi og því ruglaði ég þeim saman við augnskugga. Hægt var að kaupa einn stakan á 1290 kr. (minnir mig) en ef maður keypti lítið stakt box undir hann, sem er vissulega mun betra að gera, þá kostaði hann um 2500 kr. Ég var strax skotin í lit númer 71. og skellti mér á hann.
Ég prufukeyrði hann svo daginn eftir þegar ég fór á sýningaropnun á Kjarvalsstöðum þar sem það er nauðsyn að vera svolítið huggulegur og því tilvalið tækifæri til að mæta með fjólubláar varir.
Í fyrsta lagi þá er nauðsynlegt að vera með varalitapensil þar sem liturinn er í pallettuboxi og litli svampburstinn sem fylgdi með er ekkert æðislega góður. En ég á góðan varalitapensil frá NYX og notaði hann frekar - enda góður pensill. Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég fór að pensla á mér varnir var að liturinn dreifðist mjög vel. Mér finnst stundum vera erfitt að fá jafna áferð þegar ég nota dekkri liti og þarf að vanda mig heilmikið en ekkert svoleiðis vandamál með þennan. Í öðru lagi þá þá er liturinn algjört æði þegar hann er kominn á. Hann er djúpfjólublár og það er mikið af litarefnum í honum sem gera hann þéttan og skæran. Það eru líka örfín glimmerkorn í honum sem ekki sjást á myndunum, við erum ekki að tala um einhverja hlunka af glimmeri eins og í varalitaboxi fyrir sjö ára stelpur neitt, heldur bara agnarsmá glimmer sem gera það að verkum að varirnar virðast vera glansandi þó að liturinn sé þornaður. Í þriðja lagi þá er endingin alveg stórgóð. Ég setti litinn á mig um þrjúleitið fyrir sýninguna og bætti aftur á hann rétt fyrir sjö en á þessum tíma hafði ég fengið mér hvítvínsglas, blaðrað alveg heil ósköp og sleikt óhemju mikið út um því ég var stanslaust að athuga hvort liturinn væri virkilega svona fastur á. Nokkrum dögum seinna var ég með hann í vinnunni og bætti einu sinni á varnirnar yfir átta tíma vinnudag. Ég fékk mér að borða og drekka yfir daginn og spjallaði mikið við bæði samstarfsfólk og viðskiptavini. Og þessi draumur tolldi á eins og hetja.
Í fjórða lagi er lyktin af honum góð, ekki mikil en sæt og það er smávegis ávaxtabragð af honum.
Það eina sem ég get mögulega sett út á litinn var að hann þornaði á vörunum en hélst ekki rakur allan daginn. En með þessa endingu þá get ég varla búist við öðru, flestir aðrir varalitir sem ég á hefðu horfið af mér og yfir á glasbarminn á hvítvínsglasinu áður en ég kláraði úr því. Plús að glimmerkornin góðu gerðu sitt og varirnar litu ekki út fyrir að vera þurrar. Núna er hann nýji uppháldsliturinn minn og það verður spennandi að sjá hvort að aðrir Inglot varalitir séu eins góðir og þessi en ég ætla að kaupa fleiri í framtíðinni og vonandi standa þeir undir væntingum.
That lipstick looks great on you!
ReplyDeletexoxo,
Irina
www.brandnamesus.com