Saturday, February 9, 2013

Kinnalitur - hinn eini rétti

Ég elska förðunarvörur og hef gaman af því að punta mig (þó svo að stundum líði nokkrir dagar á milli þess sem ég geri það - leti háir mér stundum). Eitt af því sem ég elska mest og gæti ekki verið án er góður kinnalitur. Ef ég ætti samt að gera lista yfir nauðsynlegar vörur þá yrði gott rakakrem í fyrsta sæti. En kinnaliturinn kemur sterkur þar inn á eftir, já, meira að segja á undan maskara og púðri/farða. Kinnalitaást mín hófst einhverntíman í kringum 19 ára aldurinn þegar ég drakk í mig blöð eins og Cosmopolitan og Allure, þar var gagnsemi hans í förðun ítrekuð í bak og fyrir og ég hóf leitina endalausu að fullkomna kinnalitnum. Ég hafði aldrei nokkurntíman spáð í kinnalit fyrir það, nema þegar ég horfði á 80's myndir þar sem brúnir og eldrauðuir/appelsínugulir kinnalitir náðu frá kinn og upp á gagnauga (ekki smart) og þá jókst löngun mín í að prófa þá ekki hið minnsta.

 En stelpurnar í tímaritunum virkuðu eitthvað svo sætar og ferskar svo ég sló til og fór að prófa mig áfram. Það gekk misvel. Fyrsti liturinn sem ég keypti var rauður og ég hafði ekki hugmynd um að fölbleik húð eins og mín, með rauðbláum undirtón átti alls ekki samleið með þeim lit. Enda klæddi hann mig ekki. Fyrir utan það að ég kunni ekkert með hann að fara. Ég gleymi seint þegar ég áttaði mig á því, ég hafði þá notað kinnalitinn í nokkrar vikur, fannst ég ægilega smart og trendí, þegar einn daginn ég slysaðist til að sjá spegilmynd mína í birtu utandyra. Við mér blöstu tvær eldrauðar kinnar og ég leit út fyrir að hafa eytt síðastliðnum dögum á suðurpólnum, nú eða eins og stelpukjáni með allt of mikið af kinnalit. Ég þreif andlitið á mér hið snarasta og fór framvegis að gæta að því hversu mikið ég setti í burstann. Upp frá þessu prófaði ég alla liti og áferðir sem ég komst í og fann út að minni ljósu húð (sem verður svona líka huggulega svínsbleik ef ég brenn) hentar best að vera með fallega ferskjubleika, ljósbleika og róskremaða liti. Kremkinnalitir henta líka vel þar sem ég hef yfirborðsþurra húð, en góðir púðurlitir ganga líka.

Ég hef keypt bæði dýra og ódýra liti, einu sinni fann ég ferskjubleikann kremkinnalit í Megastore á 289 kr. og hann var merktur American Idol! Hann var kannski ekki flottasta merkið í safninu en hann var virkilega fallegur og entist vel. Ég snobba ekki í kinnalitum eftir það og hann varð fljótlega sá litur sem ég setti á mig daglega. Þar til einn daginn að ég tók eftir að hann var að verða búinn. Ég fór strax á stúfana í leit að staðgengli og rambaði inni í Make Up Store en leitin að ferskjubleikum kremlit hafði gengið illa og ég mundi ekki eftir að MUS ætti kremliti. Ég sagði afgreiðsludömunni frá vandræðum mínum og eins og ég vissi þá átti hún enga kremkinnaliti, en sagði mér hins vegar að hún ætti algjörlega æðislegan púðurlit sem klæddi ALLA. Ég var mjög efins en leyfði henni þó að sýna mér gripinn. Og þarna var hann kominn. Hinn eini rétti kinnalitur Lindu. Stúlkan setti hann á mig og andlitið á mér ljómaði. Ég skellti honum samstundis á afgreiðsluborðið og keypti hann, enda bara eitt stykki eftir. Nafnið segir sig líka sjálft en hann heitir Must Have og er einn vinsælasti liturinn í búðinni. Hann er yndislega ferskjuappelsínubleikur og skær en kemur hóflega út. Hann gefur ferskleika og er æðislega glaðlegur eitthvað, og ég alveg kolféll og nota hann síðan þá flesta daga. Síðan þá hef ég margsinnis fengið að heyra; "voða líturðu vel út, eitthvað svo fersk...". Sem er einmitt tilgangurinn með kinnalit! Ég mæli með þessum, og reyndar flestum kinnalitum úr Make Up Store, þeir eru æði.




Ekki láta myndina blekkja, hann er miklu fallegri í raun!


Á þessari mynd sést hann ágætlega - enda var ég agalega glöð með hann ;)



Fleiri litir sem ég hef elskað eru meðal annars kinnilitir frá NYX og Clarins.





No comments :

Post a Comment