Ég fór í Primark þegar ég var á Spáni fyrir jól og rak augun í þessa hlébarðaskó fyrir litlar 1500 kr. Ég tók par í 39 og mátaði, þeir pössuðu og ég keypti þá án þess að spá eitthvað sérstaklega í það. Ég hafði séð svipaða skó í Zöru en þeir kostuðu um 9000 kr. og ég ákvað að spara mér þann pening og prófa Primark útgáfuna. Í stuttu máli sagt þá átti ég ekki von á að þeir væru svona þægilegir - þeir eru einir af uppáhaldsskónum mínum og ég get varla beðið eftir að geta notað þá þegar veðrið verður betra. Þeir passa við næstum allt. Þegar ég tók þessar myndir þá var nú reyndar fullkalt fyrir þá en hey, ég lifði af. Ég elska hlébarðamunstur og tek hjartanlega undir með þeirri sem sagði: "to me, leopard is neutral."
Sunday, March 29, 2015
Thursday, March 26, 2015
Trésólgleraugu frá Berki - toppurinn á tilverunni
Ég fékk þessar elskur í afmælisgjöf um daginn - þau eru til sölu í fóu og allar týpurnar eru æði. Ég var samt mest skotin í þessum lit því mér fannst hann passa svo vel við hárlitinn minn. Glerið í þeim er líka gott og veitir góða vörn í sólinni. Held ég. Ég man eiginlega ekki hvernig gott veður virkar ennþá. Augun í mér eru orðin svo vön hagléli, rigningu og roki að þau fara í kross þegar ég svo mikið sem hugsa orðið "sumar". Er ég búin að kvarta nógu mikið yfir veðrinu upp á síðkastið? Ekki? Gott mál, ég á um það bil 12 kg. af veðrakvarti eftir á lager svo það dugir örugglega fram í September þegar veturinn klárast og haustið kemur loksins.
Djók.
Samt ekki.
Allavega. Gleraugun eru fab og ég hef planað að nota þau mikið í snjónum í sumar.
.......kv, bitra gellan.
Friday, March 20, 2015
Dream Pure BB krem - umfjöllun
Smá svona innskot í byrjun úr því svona hlutir eru í umræðunni; ég fæ ekkert gefins til að fjalla um á þessu bloggi, allt sem ég sýni hérna er keypt af mér. Allar snyrtivörur eru prófaðar í 28 daga eða lengur af mér, eða þann tíma sem tekur fyrir húðina að venjast nýjum vörum og finna út hvort að varan hafi neikvæð áhrif til lengri tíma. Örfá skipti í notkun eru ekki nógur tími til að meta hversu góð varan er eða hvort hún getur verið ofnæmisvaldandi og því nota ég vöruna í tæpan mánuð svo ég geti fjallað af alvöru um hana. Einnig vil ég taka fram að ég geri engar breytingar á sjálfri mér með photoshop eða öðrum forritum, það sem þið sjáið er bara fésið á mér eins og það í raunveruleikanum!
Ég ætla að fjalla um eitt gamalt og gott núna. Ég er búin að nota Dream Pure frá Maybelline í rúmt ár og það er orðið að föstum lið eins og venjulega í förðunarferlinu mínu. Ég á nokkra aðra farða sem ég treysti á en ég nota þennan nær alla þá daga sem ég farða mig. Bláa túpan er fyrir feita húð (það er líka til BB krem frá Maybelline í bleikri túpu) og eins og þið sjáið á myndinni fyrir neðan þar sem ég er farðalaus, þá ég er með mjög feita húð - húðholurnar eru stórar og áberandi og ég glansa mjög fljótt ef ég nota ekki réttu vörurnar. Ég er líka með rauða bletti hér og þar og húðtónninn minn er rauðbleikur. Drean Pure hentar vel þeim sem hafa sama litarhaft og það þekur bara hæfilega mikið. Ég vil að rauðkan hverfi úr húðinni en ég vil samt ekki að freknurnar mínar geri það og þá hentar BB krem vel. Ég er almennt séð með ágætishúð, fæ sjaldan bólur og þarf ekki að nota mikla þekju. Hins vegar er ég algjör ofnæmisgemlingur og þoli um það bil 20% af öllum þeim snyrtivörum sem eru í boði. Ég hef aldrei fundið fyrir neinu með þennan farða og mér líður mjög vel með hann framan í mér.
Endingin er góð, mér finnst ég sjaldan þurfa að bæta á seinni hluta dags og þá er mikið sagt því farði tollir ekki vel á húð sem er alltaf mjög rök. Þekjan er í þynnsta lagi og myndi ekki fela ör eða sár, það þarf sér hyljara ef þið viljið fela slíkt þegar þessi farði er notaður. Farðin blandast vel, ég nota alltaf Foundation Brush frá Real Techniques (þessi skáskorni, algjört klúður að hafa ekki myndað hann með, ég veit), set litla doppu á handarbakið og dreifi svo í snöggum strokum frá nefinu þar sem ég vil að farðinn sé. Ég hyl aldrei allt andlitið heldur fer ég bara yfir svæðin þar sem mér finnst þurfa að jafna litinn. Farðinn sest ekki áberandi í húðholurnar mínar og virkar bara eins og önnur húð yfir minni því hann er svo léttur og náttúrulegur - þetta er ekki farðinn fyrir þær sem vilja þykkan farða.
Farðinn inniheldur 2% Salicylic sýru sem er hreinsandi efni og hentar vel fyrir feita og bólótta húð og þó ég sé ekki að glíma við bólur þá finnst mér farðinn henta mér ágætlega, hann jafnar húðlitinn og tollir vel. Það er reyndar tekið fram að hann henti bæði undir rakakrem og án en ég myndi aldrei ráðleggja neinum að setja ekki rakakrem á húðina áður en hún er förðuð - rakakrem á að fara á húðina hvort heldur sem þú farðar þig eða ekki, ef þú vilt halda henni góðri.
En Dream Pure frá Maybelline er alveg frábær vara og ég mæli hiklaust með henni fyrir þær sem eru með feitari húð og vilja létta þekju. Fimm kettir frá mér!
Monday, March 16, 2015
Sheer Beauty frá Calvin Klein
Aðdáun mín ilmum hverskonar á sér langa sögu. Síðan ég var krakki hef ég verið heilluð af lykt, allt frá lyktinni í eldhúsinu þegar eitthvað bragðgott var í vinnslu og yfir í yndislegu blautu graslyktina sem ég fann þegar ég labbaði yfir túnin í sveitinni á sumarkvöldum. Ég byrjaði líka snemma að fikta í ilmvötunum - aðrir unglingar fiktuðu við reykingar og drykkju, ég fiktaði við ilmvötn. Fyrsta ilmvatnið sem ég keypti var reyndar allt önnur tegund en ég ætlaði mér eignast - ég hélt ég væri að kaupa CK One sem ALLAR stelpurnar í bekknum vildu eiga en þar sem flöskunar voru svipaðar í útliti og ég ný í lyktarbransanum þá endaði ég á að kaup ilmvatn sem heitr X Large frá Etienne Aigner og var fyrir bæði kynin. Í stuttu máli þá lyktaði það eins og allt það sem mér mislíkar í fari ilmvatna. Það var stingandi í nefið og minnti sápu og ég var svo svekkt þegar ég fattaði að ég hafði keypt vitlaust ilmvatn. Og þar sem ég var búin að opna það og nota var ekki hægt að skipta. Ég notaði það nú samt, ég átti enga peninga til að kaupa nýtt og spreyjaði því á mig miskunarlaust áður en ég fór í skólann næsta árið. Það var mikil gleði þegar ég fékk fyrstu launin mín í sumarvinnunni árið eftir og ég gat bætt úr þessu agalega ástandi. Síðan þá hef ég vandað valið.
Mörgum árum seinna hefur ilmvatnsástin ekkert minnkað og að öllu jöfnu þá er ég hrifnust af krydduðum ilmum í bland við ávexti og stöku blóm. Hreinir blómailmir valda mér ógleði og hausverk og held mig fjarri þeim. Sheer Beauty frá Calvin Klein er ekki minn hefðbundni ilmur. Hann er mjög skarpur en ég vil helst hafa ilmina mína mjúka en það var eitthvað við þennan sem heillaði mig þegar ég prófaði að spreyja honum á mig í Hagkaup. Í grunninn er musk, sandaviður og vanilla (ég elska vanillu). Miðnóturnar eru jasmín, lilja og bóndarós og toppnóturnar eru bergamot, rauð ber og Bellini, sem er ítalskur kokteill fyrir þá sem ekki vita. Lyktin er fersk og skörp en mildist eftir nokkra stund og það er þá sem mér finnst hún verða góð. Endingin er ekki stórkostleg, sérstaklega ekki ef ilminum er spreyjað bara á húðina, þá erum við kannski að tala um tvo tíma en ég spreyja venjulega á fötin mín og þannig endist hún lengur.
Stuttu eftir að ég keypti Sheer Beauty þá fór hann að fara í taugarnar á mér - fannst hann stinga of mikið í nefið og bara passa mér engan veginn. Ég held reyndar að ég hafi áttað mig á hvers vegna það er, þetta er svona ferskur sumarilmur sem minnir á grasið og sólina en eins og ég þarf væntanlega ekki að taka fram að þá hefur verið lítið um svoleiðis lúxus hérlendis undanfarið. Ég hef verið að teygja mig í kryddaðri ilmi sem henta dimmum kvöldum og að ilma eins og sumardagur í sveitinni hefur bara passað veðráttunni illa. Ég sé alveg fyrir mér að ég eigi eftir að klára flöskuna í sumar þegar ég klæði mig í léttari fatnað og labba um á tásunum í grasinu. Þessi ilmur hentar öllum þeim sem eru til í létta og ferska ilmi með síðum kjólum og sandölum þegar sólin skín. Og já, flaskan er svo falleg að ég gæti grátið. Það er bara svoleiðis.
Sheer Beauty kom út árið 2010, fæst í meðal annars í Hagkaup og þar kostar 30 ml. flaskan rétt um 8000 kr.
Mörgum árum seinna hefur ilmvatnsástin ekkert minnkað og að öllu jöfnu þá er ég hrifnust af krydduðum ilmum í bland við ávexti og stöku blóm. Hreinir blómailmir valda mér ógleði og hausverk og held mig fjarri þeim. Sheer Beauty frá Calvin Klein er ekki minn hefðbundni ilmur. Hann er mjög skarpur en ég vil helst hafa ilmina mína mjúka en það var eitthvað við þennan sem heillaði mig þegar ég prófaði að spreyja honum á mig í Hagkaup. Í grunninn er musk, sandaviður og vanilla (ég elska vanillu). Miðnóturnar eru jasmín, lilja og bóndarós og toppnóturnar eru bergamot, rauð ber og Bellini, sem er ítalskur kokteill fyrir þá sem ekki vita. Lyktin er fersk og skörp en mildist eftir nokkra stund og það er þá sem mér finnst hún verða góð. Endingin er ekki stórkostleg, sérstaklega ekki ef ilminum er spreyjað bara á húðina, þá erum við kannski að tala um tvo tíma en ég spreyja venjulega á fötin mín og þannig endist hún lengur.
Stuttu eftir að ég keypti Sheer Beauty þá fór hann að fara í taugarnar á mér - fannst hann stinga of mikið í nefið og bara passa mér engan veginn. Ég held reyndar að ég hafi áttað mig á hvers vegna það er, þetta er svona ferskur sumarilmur sem minnir á grasið og sólina en eins og ég þarf væntanlega ekki að taka fram að þá hefur verið lítið um svoleiðis lúxus hérlendis undanfarið. Ég hef verið að teygja mig í kryddaðri ilmi sem henta dimmum kvöldum og að ilma eins og sumardagur í sveitinni hefur bara passað veðráttunni illa. Ég sé alveg fyrir mér að ég eigi eftir að klára flöskuna í sumar þegar ég klæði mig í léttari fatnað og labba um á tásunum í grasinu. Þessi ilmur hentar öllum þeim sem eru til í létta og ferska ilmi með síðum kjólum og sandölum þegar sólin skín. Og já, flaskan er svo falleg að ég gæti grátið. Það er bara svoleiðis.
Sheer Beauty kom út árið 2010, fæst í meðal annars í Hagkaup og þar kostar 30 ml. flaskan rétt um 8000 kr.
Subscribe to:
Posts
(
Atom
)