Ég var að vinna um helgina í lokaúsölunum í Smáralind (úúúffff.....) og í kaffitímanum mínum þurfti ég að fara út úr búðinni til að kaupa mér eitthvað að borða þar sem ég hafði gleymt nestinu mínu, ég hefði aldrei sjálfviljug farið út á gang í allan hasarinn, takk fyrir pent. Enda hef ég ekki skoðað neinar útsölur sjálf fyrir utan það sem var í boði í Topshop og Dorothy Perkins. En á leið minni í matarleit fór ég framhjá Focus og í hillunni þar sem nýjar vörur voru komnar sá ég þessa líka dásemdarskó, glansandi og fallega, alveg tilbúnir í að koma með mér heim. Ég snarstoppaði, dreif mig inn í búðina og tók skóinn upp. "Vá" var það eina sem minn innri krummi sagði þegar ég sá hvað þeir glönsuðu. Ég hafði mjög takmarkaðan tíma en ákvað að prófa að máta þar sem sýningarskórinn var akkúrat mín stærð. Og viti menn, hann smellpassaði á mig. Ég fékk skóinn á móti til að sjá hvernig heildin liti út og þá varð ekki aftur snúið, þetta eru bara einir mest töff skór sem ég hef séð í langan tíma. Plús að þeir eru virkilega þægilegir. Þar sem ég á afmæli í þessum mánuði og foreldrar mínir gefa mér oft eitthvað sem ég set á óskalista, þá fannst mér tilvalið að velja þá í ár, enda skóást við fyrstu sýn. Það varð úr að þeir komu með mér heim og sitja núna inni í skáp í fínum kassa og fara bráðum norður þar sem þeim verður formlega pakkað inn og mér gefið á afmælisdaginn sjálfan - það er ekkert svindl í gangi hér neitt, ég fæ gjöfina ekkert fyrr þó ég velji hana sjálf! En mikið hlakka ég til þegar ég má fara að nota þá, ég sé mig fyrir mér í þeim við ökklagallabuxur með rifum á hjánum (ég er að eeeeelska svoleiðis núna), í einföldum hvítum bol og bleiku Topshop kápunni minni við nýja stutta hárið mitt. Og þeir verða æði í sumarsólinni líka :D
No comments :
Post a Comment