Ég hef alltaf elskað allskyns vörur fyrir varirnar, sama hvort það eru varasalvar, varalitir, varaskrúbbar, gloss og svo framvegis. Ég hef hins vegar áttað mig á því að sama hvað ég reyni mikið, að þá er
ég bara ekki varalitamanneskja nema að litlu leiti. Ég til dæmis þoli ekki fljótandi varaliti, þessa sem þorna á vörunum eins og hefur tröllriðið tískunni síðustu ár eftir að Kylie Jenner fór að setja varablýantinn út fyrir varalínuna. Í kjölfarið komu svo þessir möttu, fljótandi varalitir sem allir og afi þeirra elska. Nema ég. Og kannski tveir aðrir. Ég reyndi samt að komar mér inn í þetta. Ég keypti mér nokkra og prófaði enn fleiri hjá vinkonum, en ég bæði þoldi ekki hvernig tilfinningin var að hafa þá á, ásamt því að mér fannst þeir ekki fallegir á mér. Ég er bara glansmanneskja, ég vil ekki matt, þannig er það bara. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta, en ég vil alltaf að snyrtivörur svona aðlagist mér... "Bráðni" saman við mig ef svo má að orði komast. Og mér fannst alltaf eins og þegar ég setti liquid lipstick á mig að hann væri svo áberandi "ofan á" vörunum. Já. Ég veit ég hljóma rugluð. Kannski er einhver þarna úti sem skilur hvað ég á við. Allavega. Ég fer ekki að venja mig við eitthvað sem ég bæði fíla ekki á mér eða hvernig mér líður með það, þrátt fyrir tískuna. Enda henti ég öllum þeim fljótandi varalitum sem ég gat ekki gefið og hélt mig í minni deild, sem eru vörur sem hafa glossáferð. Ef ég nota alvöru varalit, þá vil ég helst hafa hann í húðlit til að ná fram "my lips but better" útliti og einstaka aðra liti sem eru meira til að gefa smá lit en þekja. Ég á það einmitt til að setja örlítið af rauðum lit á miðjar varirnar og setja svo þykkan varasalva eða gloss yfir og dreifa úr því til að fá þunnan rauðan lit, svona smá glansandi varir með dass af rauðu frekar en að fara alveg í rautt. Svo þær varavörur sem ég kaupi mér eru ævinlega frekar hlutlausar, með glansáferð og eru góðar upp á raka og næringu að gera. Ég er alltaf með einn eða tvö hluti í töskunni minni og yfir veturinn tvo til þrjá. Ég á litla tösku sem ég er alltaf með og var keypt í þeirri stærð að ég gæti hreinlega ekki sankað að mér haug af dóti í hana.
Í þessari færslu ætla ég að tala eingöngu um varavörur en ekki liti. Þetta eru hlutirnir sem ég vil ekki vera án því ég er mjög upptekin af því að vera með vel snyrtar varir. Ég er að öllu jöfnu með feita húð en varirnar þurfa alltaf svolítið auka, sérstaklega á veturna og þegar veðrið er misjafnt. Það sem skiptir mestu máli að mér finnst, er að passa upp á að skrúbba þær reglulega og nota svo vörur sem auka raka en mjög, mjög margir varasalvar gera einmitt akkúrat öfugt og ég fæ svakalegan varaþurrk þegar ég nota þá. Í flestum tilfellum þá eru það varasalvar sem eru með vaxáferð sem þurrka á mér varirnar en ég hef lent í að allskonar útgáfur fyrir utan vaxið geri það líka. Þetta er pínu lotterí, eins og með aðrar snyrtivörur, það tekur tíma að finna hvað hentar manni. Og ég er loksins búin að finna hvaða vörur ég kem til með að kaupa aftur og aftur. Eins og þið sjáið á myndunum þá er búið að nota þetta allt mjög, mjög mikið, sem er til marks um góða nýtingu, sem alltaf það sem ég sækist eftir.
Þessi er alltaf í veskinu og ég nota hann mikið. Dálítið suibbulegur í notkun en frábær engu að síður. |
Fyrst ætla ég að nefna varaskrúbbinn frá Burt's Bees. Hann heitir Conditioning Lip Scrub og hægt er að skoða hann hér. Hann er reyndar ekki sá sem ég nota mest, en ég nota hann næst mest svo hann er hátt á lista hjá mér. Ég venjulega set hann á mig þegar ég er að mála mig eða þegar ég sest upp í bílinn áður en ég fer í vinnuna/hvert sem ég er að fara í það skiptið, því hann er alltaf bráðnaður þegar ég er komin á áfangastað. Hann er mjög klessukenndur, það er mikill vökví í honum svo hann á það til að renna út fyrir varirnar og ég þarf pínu að hafa fyrir því að halda honum á réttum stað. Og þar sem hann er svona mikið fljótandi þá dreifast kornin ekki jafnt heldur safnast þau saman í klumpa hér og þar og ég þarf að hafa smá fyrir því líka að dreifa vel úr þeim. Í stuttu máli þá er hann svolítið subbulegur en þar sem hann virkar virkilega vel þá læt ég mig hafa það. Hann bráðnar frekar hratt og ef ég smá varaþurrk þá tekur hann á því. Þegar kornin eru bráðnuð þá eru varirnar á mér silkimjúkar og haldast þannig nokkuð lengi. Ég reyndar set annaðhvort varasalva eða rakagefandi gloss eftir að kornin eru bráðnuð í flestum tilfellum til að viðhalda rakanum, en hann stendur sig líka vel þegar ég geri það ekki. Hann er fínn hversdags varaskrúbbur og er alltaf í veskinu mínu. Plús að hann bæði lyktar og bragðast vel, sem er klárlega nauðsynlegt. Mæli með.
Þetta var ást við fyrstu sýn - ég kem til með að kaupa þennan áfram. Þessi er sá besti fyrir varirnar, og ég hef prófað margt. |
Næsta vara sem ég ætla að nefna er ein af mínum allra uppáhalds, sama hvort um varavörur eða aðrar snyrtivörur er að ræða. Hún heitir Superbalm Lip Treatment og er frá Clinique. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að flokka þennan, því eins og nafnið gefur til kynna að þá er þetta varameðferð en ekki varasalvi eða gloss. Áferðin er hnausþykk og örlítið klístruð en ekki mikið. Hann er vissulega nógu klístraður til að hár festist á vörunum ef þú ert úti í vindi en mér finnst það nú vera smámál miðað við hvað ég elska hann mikið. Þetta er varan sem virkar þegar það er hörkufrost, brjálað rok og almennt þær aðstæður sem eru verstar fyrir húðina. Þetta er varan sem ég set á mig áður en ég fer út í snjóstorm. Hann er það þykkur að hann virkar eins og vörn gegn kulda og frosti. Ég set hann líka oft á mig á kvöldin áður en ég fer að sofa og ég vakna þá með mjúkar og vel nærðar varir. Ég nota hann líka sem gloss, þegar ég vil bara vera með smá gljáa á vörunum en ekki alveg fara í gloss. Ég nota hann til að blanda öðrum litum saman við, eins og ég nefndi að ofan, set kannski smá rauðan á varirnar og dreifi svo úr honum með þessum til að fá bara smá lit. Hann situr vel á vörunum og fer ekki út fyrir því hann er svo þykkur. Ég hef reyndar lesið að þau sem ekki eru hrifin af honum segjast ekki þola hvað hann er klístraður. Ég hef kannski bara svona mikið þol fyrir því en þetta er ekki eitthvað sem truflar mig. Ef ég set bara þunna áferð þá fæ ég bara smá gljáa sem varla getur talist klístraður og ég set vel á þá er hann þykkur en ekki klesstur. Svo þetta er væntanlega persónubundið. Ég hef að minnsta kosti ekki neitt út á hann setja hvað það varðar og ég nota hann mikið. Og þar sem maður þarf lítið í hvert skipti þá endist hann mjög lengi. Er einmitt að fara að kaupa aðra túpu bráðlega því mín er við það að verða búin og það er örugglega tæpt ár síðan ég keypti mér síðast. Hann endist líka mjög lengi á, eiginlega betur en öll þau gloss sem ég á. Elska þennan og mæli mikið með.
Þessi lyktar eins og smákökur og gefur raka og smá lit - alveg elska þennan. |
Næsta vara er líka erfitt að flokka því hún er kölluð Instant Light Natural Lip Perfector, en þetta er einskonar gel/gloss. Örlítill litur er til staðar, en þetta er einmitt svona "my lips but better" vara en hún inniheldur líka góðan raka og lyktar alveg voðalega vel, eins og smákökur eða eitthvað svipað. Ég nota þetta þegar ég vil smá lit og lítinn glans og eitthvað nærandi fyrir varirnar. Á enda túpunnar er svona lítill, loðinn púði þar sem glossið kemur út og það er mjög þægilegt að setja það á með þessum púða. Það endist kannski ekki lengi á, og ég þarf að setja það á reglulega ef ég vil halda litnum við en það hefur aldrei truflað mig. Ég er bara með það í töskunni og bæti á þegar þarf. Litirnir sem það kemur í eru líka fallegir og passa við flestar húðliti. Mig langar einmitt næst í þennan vínrauða því það er smá svona haustfílingur í honum og ég er alveg að detta í allt hausttengt þessa dagana. Mæli klárlega með þessum fyrir þau sem vilja smá lit og góðan raka.
Uppáhald, kaupi þennan aftur og aftur. |
Næst í röðinni er hitt uppáhaldið mitt - en það er Lip Exfoliator frá E.l.f. Þetta er varaskrúbburinn sem bjargar vörunum á mér þegar þær eru í slæmu ástandi, þegar veðrið er að fara með þær og þær flagna og flagna. Ég set hann á mig á kvöldin áður en ég fer að sofa og ævinlega þá vakna ég með mjúkar varir og enga lausa húð daginn eftir. Ég get fengið alveg svakalegan varaþurrk yfir veturnar þegar það er mjög kalt og þetta er bara klárlega varan sem ég nota ásamt varakreminu/salvanum frá Clinique. Hann bráðnar ekki alveg eins hratt eins og þessi frá Burt's Bees en kornin eru mun smærri og þau dreifast vel yfir allar varirnar þegar ég set hann á. Hann er líka í varalitaformi svo þú þarft ekki að stinga puttunum í hann, sem er örugglega eitthvað sem margir kunna að meta. Hann bráðnar svo niður í olíu og rakinn frá honum einum og sér er góður. Ég held að það sem ég elska mest við hann er að kornin eru svo smá að þau vinna á öllum vandamálum. Það er samt einn galli, ég hef lesið oft í umfjöllunum um hann að hann harðni og verði gjörsamlega ómögulegur að vinna með. Ég held að það gerist bara í ákveðnum bragðtegundum en ekki öllum. Þessi brúni sem heitir Bown Sugar hefur grófustu sykurkornin og ég átti hann fyrst. Þegar ég var komin niður í svona hálfan skrúbb þá harðnaði hann og það dreifðist ekkert úr honum. Ég gafst að lokum upp og henti honum. En ég hafði elskað hann fram að því svo næst þegar ég var að versla frá Iherb.com þá bætti ég einum við í körfuna því þeir eru ekki dýrir. Svo fyrir tilviljun þá fékk ég þann sama með í jólagjöf frá systur minni svo ég átti tvo með mintubragði. Það var ekkert svoleiðis vandamál með þá. Báðir virkuðu eins og þeir áttu að gera og ég kláraði þá - meira að segja svo vel að ég klóraði ofan í túpuna til að ná restunum. Síðan þá hef ég átt Sweet Cherry og nákvæmlega sama þar, virkar vel og ég er að verða búin með hann. Ég er einmitt að bíða eftir pöntun frá E.l.f þar sem ég keypti aftur Sweet Cherry og prófaði svo að kaupa Coconut. Það eru til tveir í viðbót, Pink Grapefruit og Rose og mig langar svo að prófa Pink Grapefruit því ég elska greip, en hann er alltaf uppseldur. Kannski einn daginn. Ég nota þennan næstum alla daga, þegar ég set á mig andlitskrem á morgnana og líka oft á kvöldin. Þegar varirnar eru í slæmu ástandi þá nota ég hann alveg pottþétt alla daga. Já, ég mæli svo sannarlega með.
Gamli góði Carmex klikkar ekki. Frábær hversdagsvara. |
Síðasta varan sem ég ætla að nefna er gamli góði varasalvinn frá Carmex, þessi í túpunni, ég er ekki hrifin af hinum útgáfunum. Ég keypti hann fyrir mörgum árum í Apóteki hérna á Akureyri en svo hætti ég að sjá hann. Ég fór að panta hann af Asos en ég er örugglega búin að sjá hann aftur í Hagkaup nýlega svo mögulega er hægtð að nálgast hann hérlendis án vandræða. Hann er frekar þykkur, með svona menthol/kamfóru lykt og gerir bara nákvæmlega það sem hann á að gera - verndar varirnar og gefur raka. Þetta er varasalvinn sem ég nota hversdags, þegar ég er ekki að "glíma" við eitthvað sérstakt eins og mikinn þurrk og þess háttar. Hann er góð vörn þegar það er frost úti og ég fæ svona smá kitl tilfinningu þegar ég set hann á mig, því hann er frekur sterkur. Klassísk vara sem ég á alltaf eftir að eiga í veskinu mínu.
Og hvar fæst þetta svo allt saman?
Conditioning Lip Scrub Burt's Bees fæst í Lyf og heilsu og að mig minnir Hagkaup. Ég er ekki alveg viss samt. Minnið er ekki sem best suma sunnudaga. Ég keypti skrúbbinn minn í Bandaríkjunum svo ég hef heldur ekki hugmynd um hvað hann kostar. Hann kostaði 9 dollara fyrir skatt í apóteki þar. Sennilega hátt í 2000 krónur hérna.
Superbalm Lip Treatment frá Clinique fæst í Hagkaup og þeim apótekjum sem selja Clinique. Hann kostar um 2800 krónur minnir mig. Það er líka hægt að nálgast hann á Asos.com.
Instant Light Natural Lip Perfector frá Clarins fæst í Hagkaup og þeim apótekjum sem selja Clinique. Hann kostar rétt um 3600 minnir mig.
Lip Exfoliator frá E.l.f. fæst á Iherb.com. Elfcosmetics.com sendir ekki til Íslands því miður en Iherb.com er æðisleg síða sem reddar manni. Ég veit að nokkrar síður og staðir selja E.l.f. hérlendis en álagningin er það mikil að ég vil heldur skipta við Iherb.com.
Carmex Original Tube frá Carmex fæst bæði á Iherb.com og á Asos.com. Bæði Asos og Iherb senda hratt og vel svo ég get mælt með báðum stöðum. Eins og ég sagði áður þá held ég að ég hafi rekið augun í hann í Hagkaup um daginn svo kannski er hægt að nálgast hann þar.
Þá er upptalið það sem ég held mest upp á þegar kemur að varavörum (varavörur? varavara? Já mér þykir þetta skemmtilegur orðaleikur enda frekar einföld og mjög auðvelt að skemmta mér). Ég er búin að setja þetta allt á mig á meðan ég sit og skrifa og núna er ég með þreyttustu varir í bænum. Of mikið af því góða greinilega. Ef þið eigið einhverjar uppáhalds varavörur endilega segið mér frá því, ég er alltaf til í að prófa nýtt!
Linda
No comments :
Post a Comment