Thursday, January 22, 2015

Regla 4.

Viðhald.



Það þýðir lítið að eiga fullan fataskáp ef meiri parturinn er ekki í nothæfu standi. Ef fötum er troðið inn í skápinn, nú eða þau hafa bara alls ekki ratað inn í skáp og liggja á gólfinu (ég fyrir 25 ára í hnotskurn, mamma var að verða biluð) eða eru almennt ekki í standi til að vera notuð án þess að vera straujuð eða þvegin þá er skápurinn ekki í góðu standi. Að eiga falleg föt er til lítils ef þér finnst þú ekki eiga neitt til að fara í vegna þess að helmingurinn er krumpaður, með lausa tölu eða er óhreinn. Ég tek tíma í að skipuleggja skápinn og fer yfir ástand fatanna. Ég hengi allt upp sem krumpast auðveldlega og raða þeim fatnaði sem gerir það ekki í hillur. Ég skipulegg skápinn minn í þessa röð:

Hengja upp:

  • Skyrtur
  • Kjólar
  • Kimonoar og aðrar utanyfirflíkur sem eru í þynnri kantinum
  • Þunnar peysur
  • Síðir jakkar sem flokkast ekki sem útifatnaður
  • Buxur úr þunnu efni sem krumpast auðveldlega 
  • Síð pils
Í hillu:
  • Þykkar peysur
  • Allar þynnri flíkur sem krumpast ekki, t.d. eins og pallíettujakkar eða aðrar palíettuflíkur, þær bara krumpast ekki. Þetta er bara nauðsynlegt ef upphengiplássið er lítið og nauðsyn er að velja á milli þess sem fær að hanga. Þá er betra að láta pallíetturnar liggja.
  • Gallabuxur
  • Stutt pils
  • Ræktarföt og náttföt
Fyrsta skrefið er að skipuleggja skápinn í þægilega uppsetningu svo ég hafi góða yfirsýn og að fötin séu geymd þannig að þau líti sem best út þegar þau eru notuð. Það er ekki nauðsynlegt að fara nákvæmlega eftir minni uppröðun en þetta skipulag er gott fyrir mín föt. Þegar skipulagið er komið í gott horf þá er nauðsynlegt að fara í smáatriðin. Í fyrsta lagi þá þarf allt vissulega að vera hreint - ég hef gerst sek um að setja í hugsunarleysi fatnað aftur inn í skáp eftir að ég klessti einhverju í hann og taka svo eftir því þegar ég var komin í fötin og á leiðinni út um dyrnar. Algjör bömmer, sérstaklega ef ég er í tímaþröng. Næst er nauðsynlegt að sauma lausar tölur, gera við bilaða rennilása og loks strauja allt það sem er krumpað. Og þá er bara að koma öllu fyrir og hlakka til að geta notað öll fallegu fötin sem ég á! Viðhaldið er mikilvægt og mér þykir það vera góð regla að fara yfir skápinn á nokkurra vikna fresti, gufa það sem hefur krumpast og athuga hvort að eitthvað hafi losnað eða slitnað og raða aftur. 

No comments :

Post a Comment