Friday, January 30, 2015

Vor og sumartískan 2015

Mér finnst alltaf gaman að fylgjast með hvað koma skal í tískunni þegar ný árstíð tekur við. Á vorin og sumrin ligg ég yfir komandi tísku fyrir haust og vetur og á veturnar drekk ég í mig það sem verður í boði þegar hlýrri mánuðirnir ganga í garð. Ekki svo að skilja að ég hlaupi á eftir öllum tískutrendum sem heltaka fataverslanir, blogg og tímarit í hvert skipti en það er skemmtilegt að hafa puttann á púlsinum svo ég viti hvað ég kem til með að skoða og hvað ég vil forðast. 

Undanfarna daga hef ég setið og glápt á snjóinn fyrir utan og látið hann örlítið fara í taugarnar á mér. Venjulega líkar mér vel við allar árstíðir, hver þeirra hefur sinn sjarma en janúarmánuður er búinn að vera alveg merkilega leiðinlegur með fullt af skítaveðri, stormum, roki og leiðindum. Ég man varla eftir skipti þar sem ég skoðaði veður.is og það stóð ekki "Stormviðvörun". Auðvitað hef ég nýtt tækifærið og notið þess að kúra inni á meðan veðrið hamast fyrir utan þegar ég á frí en það dregur pínu úr manni þegar vinnudagurinn byrjar á hagléli og roki - marga daga í röð. Þá er stundum gott að skoða myndir af sól og sumri og léttari fötum. Og í tilefni þess þá hef ég gefið mér góðan tíma í að fara yfir tískutrendin sem stefna hratt á verslanir þegar vorar. 

Ég eyði miklu minni peningum í sumartískuna og mér finnst almennt mun minna skemmtilegt að skoða þá tísku. Það er aðallega vegna þess að ég bý á landi þar sem léttir kjólar og sandalar henta bara í svona 3-4 mánuði á ári (stundum ekki einu sinni það). Ef ég byggi á sólarströnd þá væri málunum kannski öðruvísi háttað.

En hvað er framundan í tískunni fyrir þetta vor og sumar?

Sýningarnar í haust voru jafn misjafnar og þær voru margar en þó voru nokkrir þættir sem stóðu upp úr og koma til með að vera alls ráðandi í vor og sumar og ég ætla að nefna þá helstu hérna á eftir. Það er samt alltaf gott að muna að það er meira til gamans en til þess að hlaupa út og kaupa allt sem er "inn" ;)

70's

Já það er rétt, "the seventies" eru rétt handan við hornið. Áttundi áratugurinn var gífurlega vinsæll á tískupöllunum fyrir sumarið og mátti meðal annars sjá útvíðar gallabuxur, brúna liti, síða leðurjakka og platformhæla. Miðað við umfang þessa tímabils hjá helstu hönnuðunum þá er nokkuð ljóst að þetta er engin bóla og ég gæti best trúað að haust og vetrartískan yrði líka undirlögð af þessari tísku. Svo verið viðbúin að sjá mikið af útvíðu, hekluðu, rúskini með feld og þykka skósóla á komandi misserum. 

Boho


Ég er bæði glöð og pirruð yfir því að þetta trend skuli vera að koma aftur - mér finnst næstum of stutt síðan boho-ið réð ríkjum síðast en það var í kringum árið 2005 þegar Sienna Miller gekk um í víðum pilsum með breið belti sem lágu á mjöðnunum og í sandölum. Það var svo ofnotað að mér finnast 10 ár eiginlega ekki vera nógu langur tími til að jafna mig á þessu hér:


Ég fékk svo nóg af þessum beltum hérna einu sinni að í hvert skipti sem ég sé eitt slíkt (sem er mjög sjaldan, sem betur fer) þá hvæsi ég inni í mér; "kill it, kill it with fire I say!" 

En hvað um það. Bohoið er á leiðinni aftur. Ég sagðist reyndar vera líka glöð yfir því og það er vegna þess að ég hef mjög veikan blett fyrir öllu síðu og frjálslegu, kögri og ponchoum. Það er eins og slíkur fatnaður dragi mig til sín eins og hann væri frönsk súkkulaðikaka. Sem betur fer finnst mér þetta nýja boho sem var í boði á tískupöllunum síðasta haust ekki falla í 2005 gryfjuna og hönnuðurnir héldu sig í nútímalegum gír. Mig grunar þó reyndar að hér á landi verði lítið af síðum kjólum í boði því íslenskar konur klæða sig sjaldnast í svoleiðis, einhverra hluta vegna. En það má vona að eitthvað spennandi detti inn í búðirnar og ef ekki, þá stendur Free People alltaf fyrir sínu þegar ég þarf að svala hippaþorstanum mínum. Annars má búast við léttum og síðum kjólum, glaðlegum munstrum og afslöppuðum sniðum.

Kögur

Það er þá kannski ekki skrýtið að kögur skuli haldast inni enda er það hluti af boho tískunni. Kögur hefur lengi verið vinsælt en þið megið búast við að sjá enn meira af því þegar sumarið kemur. 

Gallaefni

Gallabuxur eru auðvitað alltaf í tísku en ákveðin gallabuxnasnið eru hins vegar ekki alltaf í tísku. Þegar ég keypti mínar fyrstu Diesel buxur þá voru þær frekar háar í mittið, með beinu sniði og voru ekkert rosalega dýrar eða vinsælar (já, ég var sextán þegar þetta var og það er orðið aaaansi langt síðan þetta var). Nokkrum árum seinna vildu allri eiga Diesel buxur og borguðu offjár fyrir slíkt eintak og þær voru löngu hættar að líta út eins og þessar sem ég keypti einu sinni. Þá urðu allar gallabuxur svo rislágar að ef maður beygði sig fram þá sást g-strengurinn alveg ægilega vel og það þótti sko vera toppurinn því svona gerði Britney Spears. Þetta var hræðilegt tímabil tískulega séð, g-strengir voru möst og gallabuxur voru aldrei sniðnar til að ná upp fyrir rassinn á manni. Í dag geng ég bara í stórum nærbrókum (geri að bloggfærslu um það seinna) og buxum sem passa yfir minn breiða afturenda og guð forði mér frá því flagga nærunum, það er bara ekki gott mál.

En aftur að tískumálum! Þó að gallefnið sjálft sé aldrei úr tísku, þá eru vissar flíkur og snið mismikið inn og út á tískuskalanum en í ár hafa hönnuðurnir ákveðið að gallaefni sé málið, frá toppi til táar. Þið megið því búast við að gallajakkar, útvíðar gallabuxur, gallaskyrtur, boyfriend gallabuxur, gallasamfestingar og gallapils komi sterkt inn í sumar.


Rúskin

Rúskin var gríðarlega vinsælt á pöllunum síðasta haust - ég verð að viðurkenna að ég hlakka svolítið til að sjá hvað skilar sér í búðirnar úr rúskinni því ég væri alveg til í að eignast flottan jakka eða vesti úr svoleiðis. 


Sporty Chic

"Sporty chic" er þegar orðið þekkt hugtak innan tískugeirans og það hefur varla farið framhjá neinum sem fylgist aðeins með að íþróttalegur fatnaður hefur verið að eignast sinn sess utan íþróttavöruverslananna. Árið 2013 var sennilegast ár neonlituðu íþróttaskónna sem allir gengu um í eins og þeir fengju borgað fyrir það og í kjölfarið er það orðið tískulega samþykkt að nota íþróttaskó við næstum öll tækifæri. Það var reyndar orðið ansi þreytt þegar hver einasta manneskja átti fjólubleika Nike Air skó og notaði þá við svartar þröngar gallabuxur með rifum á hnjánum og hvítan víðan topp, en hey, ég er sátt við að þægilegur fótabúnaður sé kominn á kortið. Svo ég er sátt við áframhaldandi kúlheit íþróttalegra fata.


Obi belti

Austurlensk áhrif voru líka áberandi fyrir þetta sumar - kímónóar hafa verið eitt það heitasta síðasta eina og hálfa árið og nú er komið að öðrum hliðum asískrar tísku. Obi belti verða ansi heit á næstunni svo það er um að gera að næla sér í eitt og leyfa mittinu að fá að njóta sín.


Gegnsætt

Gegnsæjar flíkur sem sýna smá hold á smekklegan hátt verða áfram "inn" sem mér þykir frábært því ég er alltaf hrifnari af því að gefa eitthvað til kynna í stað þess að sýna allt. Ég kem því til með að rokka þunnar skyrtur og brjóstarhaldara í svipuðum litum undir áfram, enda ægilega smart og lekkert.


Sítt að aftan

Enn ein tískustefnan sem helst inni svo það óhætt að halda áfram að fjárfesta í síðum peysum og kápum. Ég elska líka þessa fallegu ljósu liti sem voru í boði og ég á meðan ég skoðaði allt þetta fína og sumarlega þá fékk ég á magan af tilhlökkun yfir sumrinu. Ég nenni ekki meiri snjó og roki.


Óregluleg snið

Óregluleg snið eru skemmtileg tilbreyting og við megum búast við að sjá pils, toppa og kjóla skarta því á næstunni.


Blúndur

Blúndur eiga smá "comeback" þetta sumarið og ég er virkilega ánægð með það. Ég elska blúndur og mig dreymir um að rölta um háu grasi við sólarlag í sumar, íklædd fallegum, síðum blúndukjól og með blóm í hárinu. Hljóma ég eins og ég hafi legið aðein of mikið of Pinterest? Mögulega.


Önnur trend

Það var alveg heill hellingur í viðbót sem stóru hönnunarhúsin buðu upp á annað en þetta sem ég er búin að telja upp - þar á meðal mátti sjá hermannasnið og liti, smáköflótt, útvíðar buxur, pils notuð yfir buxur (ó nei, ó nei, ég vil ekki sjá það aftur!), og karlmannleg snið (löööv it) og svo kimónotoppar og jakkar, en aðeins öðruvísi en þessir þunnu sem hafa verið svo vinsælir. Það er því óhætt að segja að það verður ýmislegt í boði fyrir þá tískuóðu.


Og svona í lokin þá valdi ég þrjú "outfit" sem ég var mest hrifin af og það var ekkert auðvelt val, skal ég segja ykkur. Ég væri sko alveg til í að eiga þau öll en þar sem ég prumpa ekki peningum þá læt ég duga að gramsa inn í fataskáp og finna eitthvað fallegt sem ég á þar. Og kannski má ég bæta einhverju fallegu og sumarlegu við í safnið þegar vorar ef ég verð góð. 


Monday, January 26, 2015

Regla 5.

Henda því sem ekki á heima í skápnum.



Í góðum fataskáp eru bara föt sem eru notuð og ekkert annað. Ég er mjög ströng á þessu við sjálfa mig og losa mig reglulega við flíkur úr skápnum sem ég hef ekki notað í langan tíma. Hjá mér þýðir langur tími sex mánuðir eða rétt þar um. Ef ég á peysu sem ég hef ekki notað í heilan vetur þá þýðir það að hún á ekki heima í skápnum mínum, tekur bara pláss og betra væri ef hún kæmist í hendur einhvers sem kynni að meta hana. Þetta er svona andlega hreinsandi fyrir mig. Ég vil bara eiga föt sem ég elska og ég þoli ekki troðinn skáp af drasli. Í hvert skipti sem ég hreinsa til þar inni þá er eins og það létti yfir mér - ekkert óþarfa drasl að trufla mig, himneskt.

Það er reyndar millistig í boði líka. Þær flíkur sem ég er einhverra hluta vegna ekki að nota í augnablikinu en ég tími samt ekki að láta alveg frá mér fara í poka inn í geymslu í annað hálft ár eða svo. Sumt hefur tilfinningalegt gildi, sumt elska ég en er kannski búin að nota of oft og vil fá smá pásu frá því, sumt eru vetrar- eða sumarflíkur og fá að bíða þar til að rétta árstíðin er gengin í garð. Allt annað fer í Rauða krossinn eða með mér og mömmu í Kolaportið þar sem við höfum nokkrum sinnum losað okkur við flíkur sem við erum búnar að fá okkar not úr. Ég passa mig samt á því að troðfylla ekki geymsluna, ég vil ekki búa til annan drasl stað þar.

Regluleg tiltekt gerir skápinn aðgengilegan og þægilegan og ég verð líklegri til að velja góðar fatasametningar því ekkert drasl truflar mig.

Og já. Ég á engar gallabuxur inni í skáp sem ég ætla að passa í "einn daginn". Ef ég grennist þá bara kaupi ég minni buxur þá. Einfalt mál.

Thursday, January 22, 2015

Regla 4.

Viðhald.



Það þýðir lítið að eiga fullan fataskáp ef meiri parturinn er ekki í nothæfu standi. Ef fötum er troðið inn í skápinn, nú eða þau hafa bara alls ekki ratað inn í skáp og liggja á gólfinu (ég fyrir 25 ára í hnotskurn, mamma var að verða biluð) eða eru almennt ekki í standi til að vera notuð án þess að vera straujuð eða þvegin þá er skápurinn ekki í góðu standi. Að eiga falleg föt er til lítils ef þér finnst þú ekki eiga neitt til að fara í vegna þess að helmingurinn er krumpaður, með lausa tölu eða er óhreinn. Ég tek tíma í að skipuleggja skápinn og fer yfir ástand fatanna. Ég hengi allt upp sem krumpast auðveldlega og raða þeim fatnaði sem gerir það ekki í hillur. Ég skipulegg skápinn minn í þessa röð:

Hengja upp:

  • Skyrtur
  • Kjólar
  • Kimonoar og aðrar utanyfirflíkur sem eru í þynnri kantinum
  • Þunnar peysur
  • Síðir jakkar sem flokkast ekki sem útifatnaður
  • Buxur úr þunnu efni sem krumpast auðveldlega 
  • Síð pils
Í hillu:
  • Þykkar peysur
  • Allar þynnri flíkur sem krumpast ekki, t.d. eins og pallíettujakkar eða aðrar palíettuflíkur, þær bara krumpast ekki. Þetta er bara nauðsynlegt ef upphengiplássið er lítið og nauðsyn er að velja á milli þess sem fær að hanga. Þá er betra að láta pallíetturnar liggja.
  • Gallabuxur
  • Stutt pils
  • Ræktarföt og náttföt
Fyrsta skrefið er að skipuleggja skápinn í þægilega uppsetningu svo ég hafi góða yfirsýn og að fötin séu geymd þannig að þau líti sem best út þegar þau eru notuð. Það er ekki nauðsynlegt að fara nákvæmlega eftir minni uppröðun en þetta skipulag er gott fyrir mín föt. Þegar skipulagið er komið í gott horf þá er nauðsynlegt að fara í smáatriðin. Í fyrsta lagi þá þarf allt vissulega að vera hreint - ég hef gerst sek um að setja í hugsunarleysi fatnað aftur inn í skáp eftir að ég klessti einhverju í hann og taka svo eftir því þegar ég var komin í fötin og á leiðinni út um dyrnar. Algjör bömmer, sérstaklega ef ég er í tímaþröng. Næst er nauðsynlegt að sauma lausar tölur, gera við bilaða rennilása og loks strauja allt það sem er krumpað. Og þá er bara að koma öllu fyrir og hlakka til að geta notað öll fallegu fötin sem ég á! Viðhaldið er mikilvægt og mér þykir það vera góð regla að fara yfir skápinn á nokkurra vikna fresti, gufa það sem hefur krumpast og athuga hvort að eitthvað hafi losnað eða slitnað og raða aftur. 

Saturday, January 17, 2015

Kósýheit í öðru veldi

Öhemm. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að afsaka mig í milljónasta skiptið fyrir að ætla að vera dugleg en læt svo ekki í mér heyra svo vikum skiptir. En hvað um það. Svona fór þetta sökum einstaklega mikils annríkis síðasta árið eða svo og ekki bætti úr að tölvugarmurinn minn er við það að gefa upp öndina, ræður ekki við að vinna myndirnar mínar og lyklaborðið er ónýtt. Ásamt því var ég í fullri vinnu og í 20 einingum í HÍ og tími til að blogga varð enginn. Jæja, komin á fullt í að afsaka mig og tína til ástæður, einmitt það sem ég ætlaði ekki að gera. 

Allavegana. Mér finnst gaman að blogga og núna eftir áramótin þá verð ég ekki í skólanum heldur bara í vinnunni og á því kannski stöku stund lausa til að blogga, enda setti ég það á lista hjá mér í upphafi árs að sinna því betur. Ég fæ eina önn í frí áður en ég klára námið - ég ætlaði ekkert að klára BA í sagnfræði og sérstaklega ekki strax á eftir að ég kláraði listfræðina en svona æxlast hlutirnir stundum. Ég komst hins vegar að þeirri niðurstöðu fyrir jól að ég þarf smá frí til að eiga líf og gaf mér því eina önn í frí. 

Enda er ég búin að eiga afskaplega góðan tíma síðan ég kláraði prófin í desember. Ég er gjörsamlega búin að njóta þess í botn að þurfa ekki að opna bækurnar um leið og ég kem heim úr vinnunni. Ég hef hangið og spilað tölvuleiki, lesið, legið á Pinterest og horft á sjónvarpið, bara vegna þess að ég get það. Og svo kom bara tími á það að dressa sig upp og hlaupa út með myndavélina. Það var ægilega kalt og því tilvalið að sýna einkennisbúninginn minn síðustu tvo mánuðina sem samanstendur af peysum og aftur peysum. Því stærri því betra. Og þessi samsetning var afar einföld í samsetningu enda elska ég allt frá skónum og upp í kragann út af lífinu. Ja eða eins og hægt er að elska föt. Já og ég biðst innilega afsökunar á því hvað myndirnar eru dökkar, við töfðumst á leiðinni út og misstum af sólinni. Birtuskilyrðin voru því agaleg en ég vildi ekki hætta við og fékk því þessar dökku myndir í staðinn. Muna að vera tímanlega að þessu næst!


Skórnir eru Vagabond og ég fékk þá í snemmbúna afmælisgjöf frá fjölskyldunni í ár. Mikið var ég glöð að eignast þá. Þeir passa við bókstaflega allt í skápnum mínum og mér hefur ekki liðið svona vel í fótunum síðan ég eignaðist fyrstu Under Armour skóna mína. Héðan ég frá kaupi ég ekki annað en Vagabond, það er á hreinu.


Súper stóra peysan og súper síða skyrtan eru báðar úr Lindex. Ég hef varla farið í annað síðan ég eignaðist peysuna og ég fer ansi oft í þessa skyrtu undir hana enda elska ég marglaga fatasamsetningar. Skyrtan passar undir næstum allar peysurnar mínar og gerir þær gjöðveikislega kúl.


Taskan sem ég er með er vintage og kom úr Gyllta kettinum - mamma gaf mér hana og mér þykir alveg sérstaklega vænt um hana þess vegna. 


Síðast en ekki síst þá var ég með ullarkragann minn æðislega. Ég hef ekki tekið hann niður síðan hann varð minn. Við seljum þessa kraga í Fóu og þeir hafa bókstaflega rokið út eins og heitar lummur. Enda hver öðrum fallegri. Hann er úr íslenskri ull og handgerður fyrir norðan svo ég er með gæðavöru í höndunum og ég hef sett hann á axlirnar á mér nánast upp á hvern einasta dag núna eftir áramót og kem til með að gera það áfram. 



Nóg í bili - sjáumst fljótlega aftur!

Linda