Rauðrófur hafa verið mikið í sviðsljósinu upp á síðkastið og þá í formi ofurheilsufæðu. Ég veit ekki hversu margar myndir hafa birst í fréttaveitunum mínum á annaðhvort Facebook, Instagram eða Pinterest, af rauðbleikum drykkjum margskonar þar sem rauðrófur eru orðnar aðaluppistaðan. Þær eru víst svona svakalega hollar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki komist upp á bragðið, mér þykir rauðrófusafi bragðast eins og mold þynnt í vatni, en það er bara ég.
Ég hef hinsvegar alltaf elskað rauðrófur í föstu formi, gamaldags rauðrófur með steikinni eða rauðkál á jólunum hefur mér alltaf þótt vera ómissandi. En því fer fjarri að mér þyki þær bara vera góðar eftir að þær hafa legið í sykurlegi í langan tíma. Ég alveg elska bakaðar rauðrófur. Þær hafa þetta ljúfa og sæta bragð sem erfitt er að lýsa, og lyktin af þeim þegar þær eru að bakast er himnesk. Og mér finnast þær passa með allskonar mat, nánast öllu kjöti og svo sem aðalatriðið í sumum hliðarréttum eða salötum. Og það er síðan ekkert verra að þær eru meinhollar. Þó svo að ég kjósi ekki að drekka þær.
Eitt uppáhalds salatið mitt er einmitt salat með bökuðum rauðrófum og ég ætla að deila því með ykkur ef ske kynni að einhver þarna úti væri að leita að nýjum hugmyndum fyrir rauðrófur í mat.
Í salatinu er:
- Bakaðar rauðrófur (augljóslega)
- Ostur
- Kál/salatblanda
- Ristaðar hnetur
- Dressing
- Salt og pipar
Þetta er frekar opinn listi, því mörgu þessu má skipta út í samræmi við smekk. Osturinn sem ég notaði síðast var Bónda brie en geitaostur fer alveg einstaklega vel með rófunum líka fyrir þau sem eru hrifin af honum. Ég nota oftast klettasalat því ég er hrifin af bitra bragðinu á móti þessu sæta og svo kýs ég alltaf valhnetur fram yfir aðrar.
Rófan þarf smá undirbúning, hjá mér þarf hún amk 2 tíma í ofni og því er gott að hafa hana tilbúna til dæmis kvöldinu áður. Amk ekki byrja á þessu salati þegar þú ert þegar orðin svöng/svangur því biðin er kannski svona full löng.
Fyrsta skrefið er að ná í álpappír og setja rófuna á, skera toppinn af, strá örlitlu salti og smá ólífuolíu yfir og svo vefja álpappírnum saman í svona karamellusnúning, en það kemur í veg fyrir að rauður vökvi leki úr. Því næst setja hana í eldfast mót og inn í heitan ofn sem er á bilinu 180°-200°.
Svo er bara að leyfa þeim að bakast. Þegar um það bil 15 mínútur eru í að rófurnar eru að verða tilbúnar, þá undirbý ég restina af salatinu. Ég spreyja smá PAM á pönnu og við meðalhita þá rista ég valhneturnar. Ég bíð eftir að þær nái gullnum lit og tek þær svo af.
Því næst huga ég að dressingunni sem ég vil hafa með en það er allur gangur á hvað ég vel í hvert skipti. Stundum vil ég bara fá bragðið af salatinu eins og það er og læt þá slettu af ólífuolíu duga, ásamt smá salti og pipar og skvettu af sítrónu, en sítrónan dregur fram bragðið enn betur. Stundum sletti ég bara smá Balsamic vinegar á og læt það duga, og stundum hendi ég í klassíska dressingu þar sem ég set saman balsamic vinegar, ólífuolíu, sítrónu, hunang, hvítlauk/skalottulauk og salt og pipar, og hér er linkur á eina slíka. Síðast þá gerði ég einmitt þessa dressingu með en ég verð samt að viðurkenna að mér finnst salatið best þegar ég nota bara smá olíu og sítrónu. Þetta er samt góð dressing og passar við haug af salötum.
Því næst set ég salatið á disk, sker niður ost í litla bita og dreifi þeim yfir, myl hneturnar aðeins og set þær síðan með, sker niður rófurnar sem eiga að vera orðnar mjúkar og fínar og eru rjúkandi úr ofninu og raða á diskinn, og svo að lokum helli ég um það bil matskeið af þeirri dressingu sem ég ætla að nota. Að lokum þá salta ég og pipra smávegis. Og svo er bara að gæða sér á herlegheitunum!
Ein heil rófa endist mér í svona 2-3 salöt og ég borða þau næstu tvo þrjá daga í hádegismat svo þetta salat er fullkomið til að gera fyrirfram. Ég er með ílát fyrir hvert hráefni fyrir sig og skelli svo í eitt salat á örfáum mínútum. Ég hita oftast rófurnar aftur í örbylgjunni því mér þykja þær bestar þannig og svo er bara að raða hinu með. Njótið!