Thursday, July 11, 2019

Hveitilausar muffins - samt ekkert hollar


Mér þykir afskaplega gaman að skoða á Pinterest - eitthvað sem ég nefndi örugglega reglulega á blogginu í gamla daga. Ég tek alltaf svona tarnir og kíki oft og fæ margar hugmyndir og stundum skoða ég ekkert svo vikum skiptir. Ég nota það mjög oft sem innkaupalista fyrir hluti sem ég þarf að hafa fyrir að muna eftir að kaupa - nothæfum lökum á rúmið kannski farið að fækka og það þarf að skipta út, mig langar í nýtt áklæði á hægindastólinn - lesist, þarf í Ikea að kaupa ýmislegt og þegar ég er komin í Ikea þá gleymi ég mér í plöntudeildinni og kem út með fjórar nýjar plöntur, vanilluilmkerti, slatta af blómapottum, tvo myndaramma og mæliglas en ekki eitt einasta lak. Þá er geðveikt gott að opna Pinterest og skoða "ÞAÐ SEM ÞARF AÐ KAUPA" dálkinn og þá man ég að koma við og grípa með það sem ég í rauninni þarf. Já, ég þarf oft aðstoð við að muna einföldustu hluti. Síðan ég fór að gera þetta þau hefur skiptunum þar sem ég kem heim með það sem mig vantar í alvöru fjölgað mikið.

Allavega. 

Mér sem sagt þykir Pinterest skemmtilegt og nytsamlegt. Það sem ég ætlaði samt að skrifa um var að ég nota það líka oft fyrir uppskriftir. Ég er meira að segja mér sér dálk fyrir uppsriftir sem ég hef prófað og ætla að gera aftur því þær voru góðar, og svo annan dálk fyrir uppskriftir sem bara voru ekkert góðar og ég kem aldrei til með að reyna aftur. Þessi uppskrift lenti í "geri aftur" hópnum og ég geri hana alltaf reglulega. Þessar muffins eru víst hveitilausar. En mér er alveg sama um það, ég gerði þær ekki til að baka eitthvað "hollt" enda eru þrjár matskeiðar af hunangi í einni uppskrift og slatti af súkkulaði svo hvað hefðbundna hollustu varðar þá eru þetta engar megrunarmuffins. Enda var ég ekkert á höttunum eftir hollustu þegar ég fann þær. Það sem hinsvegar heillaði mig var að það eru fá innihaldsefni og þú skellir þeim í blandara, hrærir gumsið saman og setur svo í form og bakar í tæpar tíu mínútur. Þetta er gert á undir 15 mínútum og ef þér þykja bananar og hnetursmjör gott þá er þetta fyrir þig. Uppskriftina fann ég inni á einhverju bloggi um mat, Averycooks.com heitir sú síða og hún Avery má fyllilega eiga það að þessar eru ljúffengar. Þau sem vilja skoða upprunalegu uppskriftina geta smellt á hlekkinn og farið beint og skoðað hana.  


Þessar dúllur eru smá klesstar enda ekki hefðbundnar muffins og bragðið er einfaldlega bananar, hnetusmjör og súkkulaði. Aðferðin er einföld. Kveiktu á ofnum og settu hann á 200° og vertu með tilbúinn blandara og settu eftirfarandi í hann:

1 meðalstóran banana
125 gr. hnetusmjör
1 egg
3 matskeiðar hunang
1 matskeið vanilludropar
1/4 teskeið lyftiduft
smá salt
55 gr. súkkulaði í smáum bitum (ehh, ég hrúgaði nú bara einhverju þannig að mitt deig var nánast bara haugur af súkkulaðibitum með smá bananagumsi... en mjög gott samt)

Svo bara spreyja PAM á muffinsform til að gera það fitugt fyrir múffudúllurnar, skella í ofninn og baka í 8 1/2 mínútu. Þær rísa fyrst voða vel en falla svo töluvert eftir að þær eru komnar úr ofninum sökum hveitileysis. Ég set frekar mikið í hvert form svo með því, (ásamt því að ég ét slatta af deginu) þá næ ég í um 6-8 muffins. 


Ég tók reyndar ekki tímann á mínum, ég fylgdist bara með þeim þar til þær voru orðanr smá gulbrúnar og búnar að lyfta sér og tók þær þá út. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið rétt um 10 mínútur sem þær voru inni og það var bara passlegt.


Svo reyni ég bara eftir fremsta megni að éta þær ekki allar ein í einu vetfangi. Smá bónus fyrir deigæturnar þarna úti - degið er æði og það er mögulegt að ég hafi borðað deig sem samsvarar tveimur muffins í öll skiptin sem ég hef gert þær. En bara mögulega.

Njótið!


Sunday, July 7, 2019

Sjaldséðir hvítir hrafnar mættir aftur á svæðið - með Essie naglalakk

Jahá. Ég sem hélt ekki að ég myndi blogga aftur - en hér er komin. Það er nú eiginlega efni í sér færslu, þar sem ég útskýri hvað kom til. Já, sennilega er það best. Áður en ég fer að röfla alveg heilan helling í bland við naglalakksumræðu um hvers vegna ég ákvað að fara að blogga aftur. Höldum okkur bara við naglalökk í þessari umræðu.

Ég elska naglalökk og að setja á mig naglalökk. Alveg síðan ég var 13 ára og Wet'n Wild lökkin fóru að vera seld í Hagkaup. Ég man vel eftir því þegar við vinkonurnar stóðum við standinn að gramsa í öllum herlegheitunum. Það voru allir heimsins litir þarna, svart, hvítt (munið, 90's var tími hvítu naglanna og hvíta eyelinersins), dökkblátt, grænt og bara allir þeir litir sem ég var ekki vön að sjá. Fram að því hafði ég bara séð rauða og bleika liti (sem ég samt elska líka) en þetta var eitthvað nýtt. Við vorum heillaðar. Lökkin kostuðu líka bara 199,- krónur stykkið og við hlóðum á okkur áður en haldið var heim út í sveit þar sem við settumst á rúmið í herberginu mínu, umkringdar Blur og Bjarkarplakötum, með Wonderwall í bakgrunninn, lakkandi á okkur neglurnar og ræðandi tónlist, stráka, skólann, föt og lífið almennt. Og mér fannst ég vera svo geggjað töff með dimmblátt naglalakk í skólanum daginn eftir. Eftir það þá var ekki aftur snúið. Síðan þá hef ég örugglega átt svona milljón plús mínus eitt naglalakk. 

Young, Wild and Me frá Essie í dagsbirtu - það er kannski örlítið bleikara í persónu

Ég var búin að rekast á marga tala um Essie lökkin löngu áður en þau fóru að vera seld hérna á landinu. Ég man eftir því að hafa séð hana Emily á Cupcakes & Cashmere skarta þessum líka fallega kóralrauða lit á nöglunum. Ég varð svo heilluð að ég leitaði og leitaði þar til ég fann það á Ebay og með sendingarkostnaði og öllu þá kostaði það sennilega um 4500,- krónur komið hingað. Já. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa (mig minnir að það hafi heitið Tart Deco ef einhver er forvitin). Svo þegar allt kom til alls þá reyndist fyrsta Essie reynslan mín ekki neitt sérstaklega vel - liturinn sjálfur var ekki eins fallegur á mér og ég hafði vonst eftir og formúlan var þykk og leiðinleg. Ég held ég hafi notað það tvisvar og svo hent því. En svo allt í einu fór Hagkaup að selja þau - skyndilega voru allir bloggara landsins farnir að skarta þeim og engin var kona með konum nema hún ætti eitt Essie lakk í skápnum. Eftir fyrri reynslu mína af þeim þá spáði ég ekkert sérstaklega í því fyrr en ég fékk eitt í gjöf - fallega ljósblátt lakk sem heitir Bikini so Teeny og ást mín á Essie hófst. Já lömbin mín, svona getur ástin blómstrað þrátt fyrir klaufalegar byrjanir. Bikini so Teeny er virkilega fallegt, sumarlega ljósblátt og smart og klæddi mínar stuttu neglur bara nokkuð vel. 

Siðan þá hefur klárlega bæst í safnið. Segjum bara að ég kaupi tvö í mánuði að jafnaði - það kannski summar það upp... Mitt allra, allra uppáhalds verður samt alltaf Eternal Optimist, þetta fallega rós/húð/bleiklitaða lakk með besta nafn í heimi. Það gerir hendurnar mínar alltaf fínar, það er ekki áberandi og í rauninni samlagast húðlitinum mínum en það bregst ekki að þegar ég set það á mig, þá verð ég bara fínni. Plús að ég elska nafnið. En þess færsla er merkilegt nokk ekki um það lakk heldur um Young, Wild and Me, lakk sem er mjög skylt Eternal Optimist. Kannski þess vegna sem ég elska það svona mikið líka. Það er aðeins bleikara en EO og það sést betur að þú ert með naglalakk. Það er svona "muted" rósbleikt (ég bara finn ekki gott íslenskt orð yfir muted - ef einhverjum dettur góð þýðing í hug má sú hin sama láta mig vita), og ég sé fyrir mér að það klæði marga húðliti. Ég þarf að fara tvær umferðir og þá er liturinn þéttur og fallegur, hann fer auðveldlega á, er jafn og tollir á mér í marga daga. Ég set líka top coat frá Essie yfir og þá endist hann enn betur. Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska Essie er sú að þau endast og endast á mér. Það er eitthvað í formúlunni sem passar við neglurnar mínar því það bara haggast ekki af mér. Stundum þarf ég að taka það af því að skilin frá naglabandinu og að lakkaða hluta naglarinnar er orðinn svo stór því nöglin óx hraðar en það tók fyrir lakkið að flagna. Ég er með hendurnar mikið í vatni og mála og geri ýmislegt og það samt tollir lang oftast í 5-7 daga. Ég reyndar skipti oftast um lit á 2-3 daga fresti (já þetta er einhver árátta hjá mér) svo sjaldnast nær það að flagna hvort eða er. Ég veit samt að þetta er ekki það sama fyrir alla - systir mín t.d. kaupir þau ekki því að þau flagna bara strax á henni og ég hef heyrt fleiri kvarta undan því að þau endist illa. En heppin ég, þau standa sig svaka vel hjá mér. 

Já ég er voða hrifin af þessum bleiku og ferskjutónum - fæ bara ekki nóg
 Núna þá er Essie ekki beint nýtt af nálinni og fæst nánast allsstaðar þar sem snyrtivörur og naglalökk fást og ég geri ráð fyrir að Young, Wild and Me fáist í næstu Hagkaupsverslun. Ef einhver er spennt fyrir því að klæða neglurnar upp í sumarsólinni án þess að vera með áberandi lit, þá mæli ég með þessu.

Heilsárslakk - passar bæði við fallega létta kjóla og sumar og sól og svo þykkar peysur og ökklastígvél yfir veturinn