Friday, September 12, 2014

Barry M Gelly Hi Shine Lips


Ég hef lengi verið Barry M aðdáandi og þegar ég hef verið í Bretlandi þá hef ég keypt mér smávegis frá merkinu. Aðallega varaliti/gloss og naglalökk en það eru þeir hlutir frá þessu merki sem mér finnst vera hvað bestir. Einu sinni keypti ég mér eyeliner en hann var bara ágætur - sem er kannski bara gott fyrir 600 króna vöru. Ég er frekar hissa á því að þessar vörur hafi ekki verið fáanlegar hér á landi fyrr en nýlega, þegar vefverslunin fotia.is fór að selja þær, en þær eru mjög vinsælar úti og það skemmir ekki fyrr að Barry M gefur sig sérstaklega út fyrir að prófa ekki vörurnar sínar á dýrum.

Ég dreif strax í að kaupa tvö stykki af Gelly Hi Shine Lips þegar ég komst að því að ég gæti nálgast þetta í gegnum fotia síðuna. Þessir litir voru þá tiltölulega nýir frá merkinu og þar sem ég er algjörlega forfallinn varalita/gloss fíkill, þá var mig mikið búið að langa í þá. Þeir kosta tæp 5 pund úti, eða rétt tæpar 800 kr. stykkið en hjá fotiu kosta þeir 1890 kr. Það er þó nokkur munur og grátlegt að borga meira fyrir einn á Íslandi en tvo úti. En svona er þetta víst - álagning og sendingarkostnaður hafa mikið að segja. En þá að umfjöllununni.

Ég keypti, eins og ég sagði, tvö stykki, Vega (vínrauður) og Sirius (kóralbleikur). Mig langaði í einn léttan og annan dekkri fyrir veturinn og eftir að ég hafði googlað umfjallanir á netinu og séð myndir, þá urðu þessir litir fyir valinu. Ég pantaði á sunnudegi og borgaði rúmar fjögur þúsund krónur fyrir - inni í verðinu var keyrsla heim samdægurs sem ég vildi ólm fá, verandi óþolinmóðari en köttur sem er að fá túnfisk. Túnfiskurinn minn kom síðan rétt um kvöldmat og ég reif upp pakkan af ákefð.

Litirnir eru virkilega fallegir og pakkningin er handhæg, litaoddurinn er breiður og það er auðvelt að bera þá á. Það er sæt ávaxtalykt af þeim (ekki yfirþyrmandi) og litaagnirnar eru nokkuð þéttar sem þýðir að þeir eru ágætlega litsterkir. Sérstaklega Vega-liturinn. Litirnir eru með háglans og ég myndi segja að þeir væru meira skyldir glossum en varalitum.


Vega var meira í uppáhaldi heldur en Sirius - sennilegast vegna þess að hann var mun litsterkari. Sirius var miklu mildari og mér fannst hann minna mig meira á varasalva með lit, ekki gloss.


Eins og sést á myndunum þá var töluverður munur á styrkleikanum. Sirius er fallegur litur en helst til daufur að mínu mat. Virkar fínt til notkunar dagsdaglega ef maður er ekki í stuði fyrir eitthvað mjög áberandi.

Hins vegar þá eru þeir mjög klístraðir og ég finn alltaf fyrir litnum á vörunum, sem ég þoli sjaldnast. Ég fór því að blanda saman litunum við aðra varaliti til að minnka klessufílinginn, en sirius var afskaplega fallegur þegar ég notaði hann með öðrum kóralbleikum lit. Þá loksins poppaði hann eins og ég vildi. Síðan þá hef ég notað þá báða með öðrum litum og þá klessast varirnar síður saman. Endingin er heldur ekkert of góð, því miður. Ég held að það sé aðallega vegna þess hversu klessukenndir þeir eru og mér finnst eins og ég dragi litinn til á vörunum þegar ég loka þeim eða fæ mér vatnssopa (meiriparturinn verður eftir á glasbarminum). Stærsti gallinn er samt sá að þegar liturinn byrjar að nuddast af þá myndast rönd yst á vörunum þar sem liturinn safnast saman en ekkert verður eftir í miðjunni. Ég hata þegar það gerist svo þetta er stór galli. En þegar þeir eru notaðir með öðrum litum, þá verður þetta vandamál miklu viðráðanlegra. En samt ekki gott að þurfa að gera það.

Í heildina þá var ég þokkalega hrifin af Gelly Hi Shine Lips og það sem olli því að ég varð ekki fyrir algjörum vonbrigðum voru litirnir sjálfir en ég ætla ekkert að draga úr því að þeir eru bæði fallegir og klæðilegir. Pakkningarnar eru þægilegar og litlar líkur á því að eitthvað brotni auðveldlega (ég þoli ekki umbúðir sem gefa sig strax). En hins vegar þá er endingin ekki góð, klukkutími í mesta lagi ef ég drekk af glasi, þeir eru mjög klístraðir og liturinn eyðist úr miðjunni fyrst. Þeir eru æðislegir ef ég nota þá með varalitum í svipuðum tónum og þeir endast miklu betur þannig en ég ætti ekki að þurfa að nota aðra vöru með þeim til að verða ánægð með þá. Enda kosta þeir líka bara 800 kr. úti og ég myndi segja að þeir væru fínir miðað við það verð. Ef þið eigið kost á því að fara í Barry M og kaupa þá á því verði þá eru þeir þess virði, en því miður ekki á tæpar tvöþúsund krónur hérna heima. Ef ég versla frá fotia aftur þá held ég mig við eitthvað sem ég þekki frá merkinu því mig langar ekki að borga tvöfalt verð fyrir eitthvað sem stendur ekki undir þeirri upphæð.