Saturday, May 24, 2014

Gæran


Fyrir nokkrum vikum komu nýjar vörur í fóu (já ég er sko komin í nýja vinnu í æðislegri verslun, segi frá því seinna) sem ég kolféll fyrir en það voru gærukragar og skinntreflar í alls konar útfærslum og litum. Ég var mest skotin í þessum svarta sem er á myndinni og mátaði hann oft og hugsaði með mér að ég ætlaði sko að eignast hann. Nema hvað ég beið of lengi og hann seldist í dag! Ég hélt andliti fyrir framan konuna sem keypti hann en hins vegar öskraði ég inn í mér "my god why??!" og fór næstum að grenja. Djók. En ég var alveg svekkt. Konan sem keypti hann var samt afskaplega fín með hann og hæstánægð með kaupin svo það var bara gott mál. Við fáum líka fleiri kraga seinna og ég veit að þar leynist einn handa mér. Næst ætla ég samt ekki að bíða svona lengi, það er klárt mál. Ég náði þó allavega þessari fínu mynd af mér með hann til að setja á bloggið, það er skárra en ekkert :D

Sunday, May 18, 2014

Besti maskari í heimi?



Ég fór á snyrtivörufyllerí eftir afmælið mitt í lok febrúar þar sem ég fékk peninga í afmælisgjöf. Í öll þau skipti síðustu ár sem ég hef fengið pening í gjöf þá hefur sá peningur alltaf farið í að safna fyrir einhverju, myndavél, ferð út eða öðru slíku og þó það hafi verið "money well spent" í hvert einasta skipti þá ákvað ég bara að láta vaða núna og geyma ekki peningana. Ég hef yfirleitt verslað snyrtivörur þannig að ég kaupi bara það sem mig vantar þegar viðkomandi hlutur klárast og á meðan ég var í skólanum þá keypti ég yfirleitt alltaf það ódýrasta sem ég komst upp með því ég hafði hreinlega ekki pening til að kaupa það nýjasta og dýrasta í hvert skipti. 

Þess utan þá kaupi ég ekki dýra hluti undir vissum kringumstæðum því þó að ég elski snyrtivörur þá get ég hreinlega ekki réttlæt stanslaus kaup á einhverju sem ég þarf bara alls ekki og þaðan af síður ef það kostar handlegginn af. Ég tala sennilegast ekki fyrir hönd margra þegar ég skil ekki kaup á varalit á yfir 5000 krónum stykkið. Ég elti ekki "trend" í snyrtvörum og það heillar mig ekkert þegar mér er sagt að "þetta eru sko litirnir í sumar" í snyrtivöruverslunum. Ég er þver, ég veit. En ég vil alltaf velja snyrtivörur (fatnað, heimilisbúnað osfrv.) á mínum forsendum, ekki vegna þess að það er í tísku. Ég hunsa ekki hluti vegna þess að þeir eru í tísku en ég myndi aldrei fyrir mitt litla líf kaupa eitthvað sem ég er ekki hrifin af bara vegna þess að einhver ákvað að það væri "inn". 

Svo allt í einu átti ég smá pening til að splæsa í eitthvað nýtt og flott og ég hugsaði með mér hvort ég ætti ekki að kaupa eitthvað sem allir virðast elska og tékka á því hvort að það væri þess virði. Mér datt í hug að fara í MAC og skoða varaliti því ég er varalitaperri að eðlisfari og allar bjútísíður heimsins virðast elska varalitina frá þeim. Ég hef aldrei átt slíkan grip og á þessu viðkvæma augnabliki fannst mér ég vera geðveikt hallærisleg fyrir að taka ekki þátt í kaupæðinu og eiga engan kúl varalit (flestir mínir varalitir eru frá NYX, Max Factor, The Body Shop og fleirum í þeim dúr). Ég stormaði því með litla bróður mínum upp í Kringlu (þessi elska nennti í alvöru að koma með mér og halda mér félagsskap á meðan og segja skoðun sína á því sem ég sýndi honum þrátt fyrir afskaplega takmarkaðan áhuga á snyrtivörum) og við fórum í MAC. Þar var afskaplega ljúf stelpa sem sýndi mér varaliti í bílförmum en sama hvaða lit ég prófaði á mér, þá fannst mér enginn þeirra gera neitt sérstakt fyrir mig. Og svo þegar ég leit á verðið og sá að þeir kostuðu yfir fimmþúsundkalli stykkið, þá lagði ég þá frá mér og sagðist ætla að hugsa málið. 

Ok. Gott og vel. Ég hafði ætlað af gefa undan auglýsingafarginu og kaupa eitthvað sem mér hafði hingað til ekki fundist ég þurfa að eiga því ég á heilan helling af ódýrari varalitum sem eru æði. Ekki misskilja mig, ég vil ekki bara kaupa ódýra hluti - ef ég sé eitthvað æðislegt sem passar mér þá er ég ekkert feimin við að splæsa því á mig ef ég get en mér fannst bara of mikið að kaupa einn varalit fyrir þennan pening. Sérstaklega þar sem ég vissi að ég gæti farið niður í The Body Shop og fengið miklu meira af góðum vörum fyrir svipaða upphæð. Og það var einmitt það sem ég gerði. Ég fann æðislegan varalit, bronzer og augabrúnalit fyrir 6700 kall og þetta hefur allt saman staðist undir væntingum. Svo ég sá ekki neitt eftir því að hafa hætt við varalitinn og ég hef heilan helling til að skrifa um hérna á blogginu úr því ég er búin að prófa svona margt nýtt :)

En hvað sem þessum MAC varalita útúrdúr líður þá keypti ég líka nýjan maskara því sá sem ég átti var búin og var bara alls ekki það góður. Reyndar hef ég aldrei fundið "hinn eina rétta maskara" og ég hef bæði keypt þá dýra og ódýra. Síðast var ég að nota maskara frá Max Factor sem var fínn en molnaði of mikið og ég varð stundum svört undir augunum eftir hann sem var alls ekki nógu gott því pöndulúkkið heillar mig ekki. Ég ákvað að prófa Rocket Mascara frá Maybelline, bara eiginlega út í loftið, minnti að ég hefði lesið góða dóma um hann og greip hann bara úr hillunni í Hagkaup og vonaði það besta. Og þessi maskari er sá besti sem ég hef prófað. Það er bara ekkert flóknara en það. Ég tók reyndar vatnsheldu týpuna af honum alveg óvart svo kannski er hin týpan síðri en ég get alla vega mælt með þeim vatnshelda. Og þá kemur viðvörunin. Ég hef bara aldrei lent í neinum maskara sem helst svona vel á. Hann gjörsamlega haggast ekki. Og til að sýna hversu vel hann tollir og hve lítið molnar niður af honum þá tók ég mynd af mér klukkan tíu um kvöld. Ég setti hann á mig klukkan níu um morguninn, var í vinnunni allan daginn, kom heim og lagði mig í hálftíma og fór síðan beint á jiu jisu æfingu þar sem ég tók vel á því. Og svona leit ég út eftir allt þetta. Ég hvorki þurrkaði undan augunum né bætti á maskarann og hann leit enn út fyrir að hafa verið ný settur á og aunghárin voru enn dökk og þétt. Það þarf því varla að taka fram að nauðsynlegt er að fjárfesta í olíuhreinsifarða til að ná honum af. Ég keypti minn í The Body Shop og hann er bara mjög fínn - ég set vel í bómull og læt hana liggja örstutt ofan á augnhárunum áður en ég byrja að þrífa hann af. Þetta kvikindi fer ekki af í sundi, sturtu né þegar ég grenja heilan helling (leiðinda linsuatvik átti sér stað en ég var alveg laus við pönduna þrátt fyrir það) en ef maður er með góðan hreinsi þá er það lítið mál. Burstinn sjálfur er úr gúmmíi og með stuttum göddum í staðinn fyrir burstahár, ekki alveg mitt uppáhald en virkar mjög vel á þessum. Það er auðvelt að setja hann á og þekja öll hárin og hann er fljótur að þorna svo litlar líkur eru á því að enda með augnhárafar á augnlokinu. Hann molnar ekkert og augnhárin þykkjast vel og lengjast. Hann heldur líka allan daginn sveigjunni sem myndast eftir augnhárabrettarann, sem er stór plús í mínum bókum. Ég held því að ég sé barasta kominn með besta maskarann hingað til - áfram Mabeylline :)