Wednesday, September 26, 2012

Litagleði

Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast við haustið eru þessar yndislegu litabreytingar sem verða þegar allt verður rautt og appelsínugult. Það er virkilega gaman að fara í göngutúr með myndavélina og ná fallegum myndum af náttúrunni áður en öll lauf verða fallinn og veturinn verður alkominn. 


Ég ákvað í dag að skella mér í gönguferð (hafði reyndar takmarkaðan tíma þar sem lærdómur kallar á mig), keyrði upp í Elliðarárdal og hafði með mér klippur. Þar sem ég er sveitastelpa í gegn þá sakna ég þess alltaf að vera ekki í friðinum sem fylgir sveitinni. Það er nauðsynlegt að rölta í góðu rigningarveðri og finna lyktina af blautri mold og grasi - ég vil meina að svoleiðis ferðir geri bæði mér og heimaverkefnunum gott því ég kem alltaf endurnærð til baka. En eins og algjör kjáni þá gleymdi ég myndavélinni! Nokkuð sem ég geri aldrei því hún er alltaf í töskunni með mér. En ég kom ekki tómhennt til baka því að ég klippti niður nokkrar fallegar greinar og reyniber sem ég notaði svo í haustskreytingar heima. Önnur þeirra varð afskaplega jólaleg, ég er mikið jólabarn svo það gerist stundum að hlutirnir verða óvart jólalegir. En það er nú í lagi, það má þá bara nota hana lengur! 






Klippurnar góðu og fílaspreyið (Elefanten Haut frá Oasis - fæst í flestum blómabúðum og litli brúsinn kostar í kringum 2000 kr.) eru nauðsynleg áhöld til að snyrta greinarnar og koma í veg fyrir að þær þorni. Gott er skáklippa endann á greinunum sem á að stinga í vatn og síðan stilkhreinsa þann hluta sem verður alveg ofan í vatninu því ef lauf og lítil ber eru skilin eftir þá rotna þau í vatninu. Greinarnar voru frekar þungar og það hefði verið sniðugt að setja litla steina í botninn til að geta stjórnað því betur hvernig þær lögðust, en ég átti enga steina og lét þetta bara duga. Eftir það spreyjaði ég þær með fílaspreyinu og lét þorna í smástund áður en ég raðaði þeim í vasann. Svo skellti ég þeim bara á skenkinn minn og voila, strax kominn smá haustfílingur! Ég ætla reyndar að rölta aftur bráðlega og klippa pínu meira af appelsínugulum greinum, það vantar meiri fyllingu með þessum rauðu og það eru nokkrir girnilegir runnar hér rétt hjá.




Jólalega skreytingin var ennþá einfaldari - ég keypti mér einfaldan hvítan disk á 300 kr. og svo hvítt kubbakerti á 500 kr. í Tiger. Svo brenndi ég smá vax á diskinn, festi kertið í það, snyrti reyniberin og spreyjaði þau og raðaði þeim síðan allt í kringum kertið.





Ég bætti reyndar við nokkrum kanelstöngum, sem hjálpaði ekki neitt við að gera þetta minna jólalegra! En hún er voða fín á borðinu hjá mér þrátt fyrir það. Það er minnsta málið að skipta út litum á bæði kertum og disk og bæta við örlitlu brúnu og appelsínugulu (könglar, appelsínugul lauf) til að "hausta þetta upp". 

Það sem er síðan næst á dagskrá er að kaupa haustkrans í Býflugunni og Blóminu heima á Akureyri þegar ég fer þangað næst. Þau gera alveg virkilega fallega kransa sem hægt er að hengja á hurðir og það er alltaf frekar erfitt að velja úr úrvalinu hjá þeim. Einhver svipaður þessum verður vafalaust fyrir valinu á hurðina hjá mér. 


Friday, September 21, 2012

Haustið er komið

Þá er þessu yndislega sumri lokið og haustið er tekið við. Laufin eru orðin gul og rauð og loftið verður alltaf kaldara. Ég elska haustið og finnst fátt jafn gaman eins og að kveikja á kertum og njóta þess þegar það fer að rökkva, drekka te og lesa góða bók.

En það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar veðrið kólnar og eitt af því er umhirða húðarinnar. Íslenskt loftslag er rakalítið, eins og flestir vita, og það eru slæm tíðindi fyrir  húðina sem elskar raka. Og það er ekki bara rakaleysið sem herjar á húðina, heldur fer hinn nístingskaldi vetur einnig illa með hana ef henni er ekki sinnt. Rakaleysi og kuldi = líflaus og leiðinleg húð. Fyrir utan að húðvandamál eins og exem verða oft mun verri við þessar aðstæður. Nauðsyn raka er gríðarleg. Hrukkur myndast fyrr á þurri húð heldur en feitari (þau sem glímdu við feita og bólótta húð á unglingsaldrinum geta þá allavega huggað sig við að það kemur sér vel að hafa feita húð seinna meir, feit húð hrukkast öllu jöfnu seinna), húð sem er þurr gefur minna eftir og það er næstum eins og hún "brotni" þegar hún verður of þurr. Feitari húð hefur meiri teygjanleika og myndar hrukkur því seinna. En báðar húðtýpurnar þurfa aukna umhirðu yfir vetrarmánuðina. Hér á eftir eru nokkur ráð til að halda húðinni góðri.

- Auka rakann heima fyrir. Það er lítið mál að annaðhvort kaupa rakatæki eða bara hreinlega skella gömlu ísboxi með vatni í (eða öðru hentugu íláti) á ofninn inni í svefnherberginu. Raki myndast þegar vatnið gufar upp og það skilar sér til húðarinnar.

- Fyrir þær sem glíma við þurra húð á öllum líkamanum er gott að skipta út venjulega líkamskreminu fyrir annað sem er feitara. Og muna að nota það reglulega, eitt og eitt skipti breytir litlu.

- Og það skiptir einnig máli hvenær kremin eru borin á - það læsir inni mun meiri raka að bera á sig krem þegar húðin hefur ekki verið fullþurrkuð eftir sturtur eða böð.

- Reyna að minnka ferðirnar í mjög heitar sturtur eða böð, betra er fyrir húðina að vera í volgu vatni þar sem heitt vatn dregur úr rakanum í húðinni. Ég veit að fyrir margar er það erfitt, sérstaklega fyrir þær sem fara reglulega í sund eða heita potta, en þá er um að gera að njóta bara heita vatnsins og bera duglega af feita líkamskreminu á sig eftir á!

- Drekka nóg vatn (þessi gamla góða tugga). Nægilegt vatnsmagn í líkamanum hjálpar augljóslega til við að halda rakajafnvægi húðarinnar eðlilegu.

- Ekki þvo húðina með of sterkum efnum, né of oft. Húðvörur sem innihalda til dæmis alcohol eru þurrkandi fyrir húðina. Það hentar kannski feitri húð í baráttu við bólur, en ansi mörg hreiniskrem innihalda það þó að tilgangurinn sé ekki að dauðhreinsa sýkt svæði. Það er heldur ekki gott að þvo of oft, það er alveg nóg að nota milda hreinsiklúta að kvöldi til að fjarlægja farða og til að fríska sig á morgnana.

- Nota gott rakakrem! Augljóslega! Fyrir feita húð er nauðsynlegt að finna krem sem inniheldur mikinn raka en er ekki feitt til að koma í veg fyrir bólur eða of glansandi húð. Fyrir þurru húðina er gott að fá smá fitu, henni veitir ekki af. Ég er persónulega mjög hrifin af EGF dropunum, þeir eru ekkert nema raki og bjarga alveg minni feitu en afskaplega yfirborðsþurru húð á veturnar. Einnig er ég mjög hrifin af dagkreminu frá Apótekinu og dagkremunum frá Dr. Hauschka.

- Sólarvörn þegar vetrarsólin skín sem mest.